03.04.1962
Neðri deild: 82. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í C-deild Alþingistíðinda. (2558)

171. mál, almannavarnir

Frsm. 2. minni hl. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Frv. um almannavarnir, sem hér er verið að ræða, fjallar um málefni, sem þm. og raunar landsmönnum öllum er ærið framandi, enda hefur lítt verið gert í því af hálfu stjórnvalda að kynna það þjóðinni, nema nú allra seinustu dagana. Frv. þessu var útbýtt hér í hv. deild þann 12. marz s.l. Síðan var það lesið á fundi í hv. heilbr.- og félmn. 15. marz s.l., en eftir það lá það um hálfan mánuð í heilbr.- og félmn. óhreyft af öllum og ekkert skoðað, og ekki varð þess vart, að fulltrúar ríkisstj. í nefndinni legðu nokkra áherzlu á að hraða framgangi frv. þá. Það er fyrst þann 27. marz s.1., að frv. þetta var tekið til umr. í nefndinni, og þá heyrast í fyrsta skipti raddir frá fulltrúum stjórnarflokkanna um, að nauðsyn beri til að hraða afgreiðslu frv. og að ákveðið sé að afgreiða það nú á þessu þingi. Ég nefni þetta til þess að sýna hv. dm. fram á, að hér er óhæfilega hart á eftir rekið.

Það er ljóst af ákvæðum frv., að það kemur til með að leggja allmiklar kvaðir á einstaklinga, atvinnufyrirtæki og félög og kosta sveitarfélögin og ríkissjóð allmikið fé, ef það verður samþykkt óbreytt og heimildir þess notaðar. Enda þótt mér sé fyllilega ljóst, að sumar þær ráðstafanir, sem frv. gerir ráð fyrir að þurfi að framkvæma, séu mjög brýnar, og nefni ég þá sérstaklega sem dæmi ráðstafanir til þess að útbúa sérstök byrgi, er þannig væru útbúin, að borgararnir gætu flúið til þeirra, ef andrúmsloftið hér á landi yrði mengað um of geislavirku ryki, er kynni hingað að berast af völdum tilraunavetnissprengna stórveldanna, sem þau eru að framkvæma öðru hvoru og við ráðum að sjálfsögðu engu um, hvort framkvæmdar eru eða ekki, þá tel ég, þrátt fyrir þetta, að hraði sá, sem viðhafður er við afgreiðslu málsins, sé bæði óþarfur og til þess fallinn að spilla fyrir framgangi þess. Það er augljóst, að samþykkt þessa frv. hefði mjög veruleg útgjöld í för með sér fyrir sveitarfélögin, og þau hafa ekkert tækifæri haft enn þá til þess að skoða, hversu miklum fjárhæðum þau útgjöld kunna að nema. Þess vegna tel ég einsætt, að leggja beri frv. fyrir aðalfund íslenzkra sveitarfélaga, sem haldinn verður í þessari viku hér í Reykjavík, og að hv. alþm. fái álit sveitarstjórnarmannanna á efni frv.

Formaður Sambands íslenzkra sveitarfélaga, Jónas Guðmundsson, sem mætti á fundi í heilbr.- og félmn. þann 29. marz s.l., er fjallað var um frv., svaraði því til, aðspurður, að engin sérstök vandkvæði væru á því, að álit sveitarstjórnafundarins gæti legið fyrir Alþingi nú um þessa helgi eða í vikulokin. Ég tel því eðlilegt og nauðsynlegt að bíða eftir þessu áliti, og ég hef þess vegna dregið að gefa út nál. um frv., þar til það lægi fyrir.

Með vísan til þessa, þá leyfi ég mér að fara þess á leit við hæstv. forseta, að umr. um mál þetta verði nú frestað og beðið með frekari afgreiðslu þess, þar til álit sveitarstjórnafundarins liggur fyrir, en frv. hefur verið sent honum til umsagnar.