30.10.1961
Efri deild: 9. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í C-deild Alþingistíðinda. (2654)

41. mál, jarðgöng á þjóðvegum

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Í 1. gr. þessa frv., sem hér er til 1. umr., er svo fyrir mælt, að þar, sem þannig hagar til, að torfæra eða hætta er á þjóðvegi, sem er ekki auðveldara að ryðja úr vegi eða brúa á annan hátt, skuli að undangenginni rannsókn og nákvæmri staðsetningu gera jarðgöng. Í 2. gr. er svo kveðið á um það, hvernig kostnaður af jarðgangagerð skuli greiddur, eða réttara sagt, hvernig fjár skuli aflað til þeirra framkvæmda. Ef jarðgöng eru ekki yfir 35 metrar að lengd, skal kostnaður greiðast af fé því, sem á fjárl. er hverju sinni veitt til vegarins. Síðan segir, og er það aðalatriðið í þessu frv., að frá 1. jan. 1962 skuli 3 aurar af hverjum benzínlítra af hluta ríkissjóðs af benzínskatti renna í brúasjóð. Kostnaður við jarðgöng, sem lengri eru en 35 m, skal greiddur af þessum tekjum brúasjóðs, og má eigi verja þeim á annan hátt.

Eins og í grg. segir og hv. þdm. er í fersku minni, var á síðasta Alþ, í þessari hv, d. borið fram frv. um jarðgöng á þjóðvegum. Aðalefni þess frv. var að kveða á um það, að ef jarðgöng yrðu lengri en 35 m, skyldi kostnaður greiðast úr brúasjóði, en án þess að þar væri gert ráð fyrir nokkrum sérstökum tekjum brúasjóði til handa vegna slíkra framkvæmda. Ekki var heldur gert ráð fyrir neinni ákveðinni upphæð úr hrúasjóði vegna slíkra framkvæmda.

Þegar við 1. umr. málsins í þessari hv. d. komu fram ábendingar um, að lagasetning í slíkri mynd væri lítils virði, þar eð fé brúasjóðs væri af skornum skammti, það hrykki ekki til að standa undir því verkefni, sem honum væri ætlað. Margar stórar brúargerðir væru aðkallandi, og væri því vafasamt að ætla að skerða fé brúasjóðs, enda líklegt að framkvæmdin yrði sú, þrátt fyrir slíka lagasetningu, að engu fé úr brúasjóði yrði varið til jarðgangagerðar, þau yrðu látin sit ja á hakanum, þar eð um ófyrirsjáanlegan tíma mundi þörf á öllum tekjum brúasjóðs til brúabygginga. Því var það, að samgmn. þessarar d. samþykkti einróma og að öllum nm. viðstöddum að breyta frv. í það horf, að frá 1. jan. 1962 skyldu 3 aurar af hverjum benzínlítra af hluta ríkissjóðs af benzínskatti renna í brúasjóð og skyldi þeim 3 aura skatti varið til að greiða kostnað við gerð jarðganga, sem lengri væru en 35 m, og skyldi óheimilt að verja þeim tekjum brúasjóðs á annan hátt, eða m.ö.o. að breyta frv. í þá mynd, sem það er nú flutt í. Frv. sigldi síðan hraðbyri gegnum þessa hv. d., en Nd. vildi hins vegar ekki samþykkja frv. Meiri hl. samgmn. þeirrar deildar lagði til, að málinu væri vísað til ríkisstj.

Okkur flm. þessa frv. hefur þótt rétt að leggja frv. aftur fyrir Alþingi í þeirri mynd, er samgmn. Ed. gekk frá því, og kanna þar með til hlítar vilja Alþingis í þessu máli. Flutningsmenn frv. í fyrra áttu þess að sjálfsögðu kost að gerast flm. að þessu frv.

Þar sem ég geng út frá því, að afstaða þessarar hv. d. til málsins sé óbreytt frá því, sem var á útmánuðum síðasta vetrar, er ekki ástæða til að fara mörgum orðum um málið almennt. Það er alkunna, að á stöku stað hér á landi hagar þannig til, að ákveðnum byggðarlögum verður ekki komið í sæmilegt eða öruggt vegasamband við önnur héruð landsins nema með jarðgöngum. Einn þeirra staða, sem þannig er ástatt um, er Siglufjörður, fjölmennt byggðarlag, langstærsti síldarútgerðarbærinn á landinu og byggðarlag, sem fjöldi aðkomufólks sækir til á vissum árstímum. Landssamgöngur við Siglufjörð hafa ætíð verið erfiðar. Þar er yfir erfiðan fjallveg að fara, Siglufjarðarskarð, og hefur sá fjallvegur löngum verið erfiður yfirferðar og það svo, að á þeim fjallvegi hafa fjölmargir menn, bæði Siglfirðingar og aðrir, látið lífið, orðið úti í vetrarferðum milli Siglufjarðar og nærsveitanna. Fyrir allmörgum árum var akvegur lagður yfir Siglufjarðarskarð en hann er oftast nær aðeins fær fyrir aðalsumarmánuðina. Það hefur því lengi verið mikill áhugi fyrir því að leggja þarna nýjan veg meðfram sjónum út svokallaða Hraunaalmenninga og um Dali og til Siglufjarðar. En á þeirri leið Siglufjarðarmegin er mikill farartálmi og torfæra, þar sem er fjallið Strákar. Í gegnum það verður að sprengja jarðgöng. Um þá framkvæmd hefur verið gerð kostnaðaráætlun, og jafnframt hafa þarna verið gerðar tilraunir og nokkur spotti af jarðgöngum verið sprengdur inn í klettabeltið. Þessi framkvæmd kostar mjög mikið samkvæmt þeirri áætlun, sem gerð var á sínum tíma, og hafa þó tölur þær sjálfsagt breytzt nokkuð til hækkunar síðan. Til þessa vegar hefur að undanförnu verið veitt dálitið fé á fjárlögum, og er farið að leggja veginn út Almenninga. Innan tíðar verður því komið að þessari miklu torfæru, Strákum, en þar strandar allt, ef ekki verða gerðar sérstakar ráðstafanir til fjáröflunar vegna jarðganganna. Það er alveg augljóst mál, að fjárveitingar þær, sem hverju sinni fást veittar til vegarins á fjárlögum, hrökkva alls ekki neitt til þessarar miklu framkvæmdar, enda er framkvæmdinni þannig háttað og verður að vera þannig háttað, þegar í hana verður ráðizt, að hana verður að vinna í einum áfanga, að því er talið er.

Samþykkt þessa frv. mundi að mínu áliti bjarga þessu máli og koma þessu áhugamáli þeirra þar fyrir norðan heilu í höfn. Það er að vísu ekki mikið fé, sem samkv. þessu frv. er ætlað til þessara framkvæmda, en samt sem áður er það svo, að ef það væri árlega lagt til hliðar, mundi fljótlega saman safnast nokkurt fé í þessu skyni. Jafnframt mundi svo opnast lánsmöguleikar til framkvæmdarinnar, þegar séð væri, að henni væru ætlaðir ákveðnir tekjustofnar.

Það þarf ekki að fjölyrða um það, að hér er um mjög mikið áhugamál að ræða, bæði hjá Siglfirðingum og nærsveitamönnum, og er ekki vafamál, að þetta mundi á margan hátt verða lyftistöng fyrir þau héruð, sem þarna eiga hlut að máli, bæði Siglfirðinga og sveitir þær, sem næst liggja.

Ég hef hér farið nokkrum orðum um þessa sérstöku framkvæmd, sem fyrirhuguð er og gerð hefur verið áætlun um. En það eru auðvitað fleiri staðir, þar sem gera þarf jarðgöng og þar sem vakandi áhugi er fyrir því, að hafizt verði handa um það að skapa grundvöll að framkvæmdum á þessu sviði. Þannig er það t.d. á Vestfjörðum, þó að ég ræði það ekki sérstaklega hér.

Ég skal svo að lokum aðeins benda á það, að sú tekjuöflun, sem þarna er bent á, að leggja örlítinn hluta af benzínskatti til þessara framkvæmda, er mjög eðlileg. Það er að mínu viti mjög eðlileg stefna, að benzínskattinum yfirleitt sé varið til samgöngubóta og samgöngubóta á landi þá fyrst og fremst. Með þessu frv. og samþykkt þess væri stigið spor í áttina til viðurkenningar á því sjónarmiði.