24.10.1961
Neðri deild: 8. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í C-deild Alþingistíðinda. (2740)

22. mál, áburðarverksmiðja

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður vitnaði hér í nokkuð, sem átti að hafa gerzt á síðasta aðalfundi Áburðarverksmiðjunnar h/f, þar sem gerð var tilraun, að hann sagði, til þess að fá leiðréttingu á því, sem rangt hefur verið gert í garð bænda með því að selja þeim dýrari áburð en löglegt var. Og hv. þm. sagði, að ríkisstj. hafi haft úrslitaatkvæði þar. Ef ég man rétt, reyndi ekki á það. Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að þeir, sem fóru með atkvæði Sambands ísl. samvinnufélaga á þeim fundi, hafi litið öðrum augum á þetta mál en hv. síðasti ræðumaður. Ég held, að sá, sem fór með atkvæði þess á fundinum, hafi haft meiri ábyrgðartilfinningu en hv. ræðumaður hafði, og það hafi ekki reynt á atkvæði ríkisstj. á þeim fundi.

Það má merkilegt heita, að maður, sem hefur verið kaupfélagsstjóri, þetta fullorðinn og reyndur, skuli leyfa sér að bera á borð þann málflutning, sem hann viðhafði hér áðan í sambandi við áburðarverksmiðjuna. Það er orðin einhver hugarfarsbreyting hjá þessum hv. þm. frá því, sem stundum hefur heyrzt. Hann furðar sig á því, að áburðarverksmiðjan skuli nú í tvö s.l. ár hafa sjálf selt þann áburð, sem hún framleiddi. Þetta gerði hún ólöglega, sagði hv. þm., og hún hafði engan millilið, heldur seldi áburðinn beint til notendanna. Það var eins og það væri einhver glæpur eða lögbrot að fela ekki áburðareinkasölunni að annast þetta. Hv. þm. ætti þó að vita, að landbrh. er heimilt að gefa áburðarverksmiðjunni heimild til þess að verzla með áburð, og getur hann þar flett upp lagabókstaf, ef hann vildi það viðhafa, sem ég ætlast þó til að hann hafi gert. En áburðarverksmiðjan vitanlega sparar fé á því að selja áburðinn sjálf heldur en að greiða til áburðareinkasölunnar umboðslaun. Áburðarverksmiðjan þurfti að afgreiða áburðinn í Gufunesi, enda þótt áburðareinkasalan annaðist útskriftir á nótum og innheimtu. Ég hygg, að áburðarverksmiðjan hafi ekki bætt við sig neinu starfsliði, þótt hún annaðist útskrift á nótum á áburðinum og afgreiðsluna, eins og hún hefur raunverulega gert áður, þar sem hann er í vörugeymslum áburðarverksmiðjunnar uppi í Gufunesi. Ég get ekki fullyrt hér, hvað mikið hefur sparazt þarna, og man ekki nú nákvæmlega, hvað greitt var til áburðareinkasölunnar fyrir afgreiðsluna undanfarin ár. Ég man ekki, hvort það var 1/2 eða 1%, ég held, að það hafi verið 1%. Og þegar salan er 45 millj. kr., geta menn náttúrlega reiknað, hvað umboðslaun hafa verið til áburðareinkasölunnar að óþörfu, hvort sem um var að ræða 1/2 eða 1 %. Áburðarverksmiðjan hefur að mestu leyti sparað þann kostnað með því að annast afgreiðsluna sjálf. Það má vel vera, að það séu fleiri hér í hv. d., sem telja, að það hefði verið sjáifsagt að greiða þennan milliliðakostnað að ástæðulausu. Það væri fróðlegt, ef það væri, að þeir létu í sér heyra.

Þá tekur þessi hv. þm. í sama streng og hv. 3. þm. Reykv. Hv. 3. þm. Reykv. er nú svo vanur að tala um lögbrot og þjófnað í sambandi við áburðarverksmiðjuna, að ég hygg, að flestir séu nú hættir að taka það alvarlega, enda veit ég, að hv. þm. meinar ekki þetta, þegar hann viðhefur stóryrðin. En að hann skuli fá hér annan þm. úr öðrum flokki til þess að taka undir þessar fullyrðingar, það er nýmæli og það er meira en ég hafði búizt við og ég hygg flestir hv. þm. (EOl: En er þarna ekki um lögbrot að ræða?) Hv. þm. spyr: er ekki hér um lögbrot að ræða? Það væri gaman að vita, hvort hann spyr í alvöru eða hvort hann spyr að gamni sínu. (EOI: Í alvöru.) Þá er eðlilegt, að það sé endurtekið hér, það sem var upplýst hér í hv. d. í fyrra, þegar þetta mál var til umr., að áburðarverksmiðjustjórnin gerði þetta ekki að óathuguðu máli. Áburðarverksmiðjustjórnin taldi sér skylt að sjá hagsmunum verksmiðjunnar borgið, og þess vegna lét hún lögfræðing sinn, Theodór Líndal prófessor, túlka 8. gr. laganna og segja sitt álit á því, hvort það samrýmist lögunum að auka afskriftirnar. Og verksmiðjustjórnin gerði meira. Hún leitaði til fleiri ágætra lögfræðinga um þetta mál, og þeir voru á sama máli, enda segir í lagagr., að það megi afskrifa eins og nauðsynlegt er talið. Og hvað er nauðsynlegt í þessu efni? Getum við ekki verið sammála um, að það sé nauðsynlegt, að afskriftirnar séu svo ríflegar, að það sé hægt að halda verksmiðjunni við, að það sé hægt að kaupa nýja vél, þegar sú eldri bilar? Og nú, þegar verksmiðjan er að verða búin að starfa í nærri 10 ár, verksmiðja, sem er með þessi mörgu og miklu vélabákn, sem fyrnast á 10—12 árum, þá er komið að því, að það þurfi að fara að endurnýja vélarnar. Hefði það ekki verið ábyrgðarleysi af verksmiðjustjórninni að gera nú engar ráðstafanir til þess að tryggja þannig hag verksmiðjunnar, bæði nú og eftirleiðis, að hún gæti endurnýjað sig? Ég er alveg sannfærður um, að bændurnir ætlast til þess, að það sé gert. Og það er illa gert að taka upp þann hátt að vera að reyna að ala á ríg í þessu efni og beinlínis að blekkja bændur. Hagsmunir landbúnaðarins eru svo bezt tryggðir, að bændur eigi kost á því að fá áburð á hverjum tíma með sanngjörnu verði. Þeir hafa fengið það frá áburðarverksmiðjunni, hann hefur sízt verið dýrari en innfluttur áburður, og ég er viss um, að hændur ætlast til, að verksmiðjureksturinn sé þannig, að verksmiðjan sé gangfær, ekki aðeins nú, heldur alltaf. Við skulum muna það, að það tókst að koma þessari verksmiðju upp með sérstökum hætti, af því að okkur var gefinn kostur á sérstöku fé í því skyni. Er það víst, að það verði einnig eftirleiðis? Ber ekki skylda til þess að reka fyrirtækið þannig, að það geti endurnýjað sig, og þá sérstaklega þegar það er mögulegt án þess, að framleiðslan sé dýrari en sambærileg erlend framleiðsla? Og þegar hér er verið að tala um lögbrot, þá vil ég bara biðja þá hv. þm., sem annt er um sóma sinn, að kynna sér það nánar og taka til greina það, sem lögfróðir menn segja um þetta, og spara sér fullyrðingar, sem styðjast ekki við nein rök.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. spurði að því, hvernig rekstur áburðarverksmiðjunnar hefði gengið undanfarið? Hann hefur gengið, eins og ég áðan sagði, alveg prýðilega, að telja má, með því að verksmiðjan hefur getað framleitt áburð á samkeppnisfæru verði og lagt í fyrningarsjóði til tryggingar fyrir framtíðina.

Hv. 2. þm. Sunnl. taldi, að áburðarverksmiðjunni væri gefinn einkaréttur með þessu frv., eins og það er orðað. Hann bara bætti einu orði inn í. Hann sagði, að það væri meiningin, eins og það væri orðað þarna, að ríkisstj. gæti falið áburðarverksmiðjunni einni, — það stendur hér hvergi „einni,“ — og enda þótt ríkisstj. feli áburðarverksmiðjunni að annast innflutning á áburði, þá stendur það hvergi hér í frv., að öðrum sé bannað að flytja inn áburð. (Gripið fram í.) Segulbandið geymir þetta ábyggilega einnig, segulbandið geymir það, og það stendur hvergi hér í frv., að öðrum verði bannað að flytja inn áburð, þó að ríkisstj. feli áburðarverksmiðjunni að sjá um þetta, því að eins og ég sagði áðan, verður að fela einhverjum aðila að annast innflutninginn, til þess að það verði tryggt, að nægilegur áburður verði fluttur til landsins. (SkG: Er það svo með innflutning yfirleitt?) Yfirleitt, nei, ekki yfirleitt, en með áburð, vegna þess að það á ekki að verða sú breyting á, að áburður verði seldur með hagnaði fyrir þann, sem flytur inn, heldur eingöngu með kostnaðarverði, eingöngu með kostnaðarverði og á því lægsta verði, og vilji einhver eftir þessu frv., þó að það verði að lögum, flytja inn áburð í samkeppni við áburðarverksmiðjuna, þá er enginn vafi á því, að honum leyfist það, eins og þetta er orðað þarna. Áburður er á frílista. Það hefur aldrei verið neinn hörgull á því, hvað mætti flytja inn mikið af áburði. Það hefur á hverjum tíma verið fluttur inn áburður eins og þörf hefur verið fyrir. Veit ég, að hv. þm. áttar sig á þessu. En það er ekkert við því að segja, að hann skildi frv. á þennan veg, og mér dettur ekki í hug að vera að finna neitt að því.

Hv. 2. þm. Sunnl. var að tala um, að það væri einkennilegt að vera að leggja niður þetta gamla fyrirtæki. Það er náttúrlega alls ekki einkennilegt, vegna þess að verkefni þessa gamla fyrirtækis er orðið svo miklu minna en það var áður. Áður annaðist áburðareinkasalan innflutning á öllum áburði til landsins, köfnunarefnisáburðinum líka. Nú flytur hún aðeins inn steinefnaáburðinn. Og verkefni þessarar einkasölu fer vonandi stöðugt minnkandi, ef áburðarverksmiðjan í Gufunesi getur fært út kvíarnar og orðið það fyrirtæki, sem ég og hv. 2. þm. Sunnl. erum sammála um að hún eigi að verða. Og ég vil segja það, að þetta gamla fyrirtæki, áburðareinkasalan, — ég hef ekkert verið að lasta það, ég hef aldrei haldið því fram, að hún hafi verið illa rekin, síður en svo, en það er fyrirtæki, sem er ekki lengur nauðsynlegt, — það er enginn vafi á því, að það má spara talsverða upphæð með því að leggja hana niður, og þá á að gera það.

Hv. 2. þm. Sunnl, var að tala um það, hvort bændur hefðu óskað eftir þessu eða bændasamtök. Ég spyr nú: Er nokkur von til þess, að t.d. kaupfélögin óski eftir því, að áburðareinkasalan verði lögð niður, ef kaupfélagsstjórarnir eða kaupfélagsstjórnirnar tryðu því, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. var að segja hér áðan og hv. 2. þm. Sunnl., að þetta fyrirtæki sé bráðnauðsynlegt? Og ef stjórnir kaupfélaganna og kaupfélögin tryðu því, sem hefur verið skrifað í blöðin undanfarið um áburðarverksmiðjuna og áburðareinkasöluna, að þetta sé alveg ómissandi, framkallar það ekki óskir eftir því rétta, ef þeim, sem eru að blekkja, tekst það.

Nei, áburðareinkasalan er óþörf í dag, og þess vegna er hér flutt frv. um að leggja hana niður. En af einhverjum sérstökum ástæðum hafa nokkrir þm. talið ástæðu til að ganga fram fyrir skjöldu og mæla gegn þessum sjálfsögðu ráðstöfunum. Þessir hv. þm. hafa aldrei haldið því fram, að ég hefði áhuga fyrir því, að áburðarverzluninni væri hagað öðruvísi en æskilegt er og hagkvæmt, þannig að bændur eigi ávallt þess kost að fá sem ódýrastan áburð. Og ég veit, að þeir trúa mér ekki til þess, þó að þeir séu mér ekki sammála í öllu. Og ég vil upplýsa þessa hv. þm. um það, að stjórn áburðarverksmiðjunnar hefur gert sér fulla grein fyrir því, að hún getur annazt innflutning og dreifingu á áburði á hagkvæman og hagkvæmari hátt en áburðareinkasalan. Í stjórn áburðarverksmiðjunnar eru 5 menn, og þar er verksmiðjustjóri og fleiri verkfræðingar og framkvæmdastjóri. Fjórir í stjórn áburðarverksmiðjunnar af fimm, verkfræðingar áburðarverksmiðjunnar, þessir menn hafa allir gert ýmsa útreikninga og gert sér fulla grein fyrir því, hvað þeir eru að segja, þegar þeir skrifuðu landbrn. og beinlínis gerðu tilboð um að annast innflutning á áburði og setja áburðinn nokkru lægra verði en áburðareinkasalan hefur gert eða getur gert. Og þeir hafa fært rök fyrir því, að það gætu sparazt vissir liðir í kostnaðinum, þannig að bændur mundu fá áburðinn ódýrari með þessu fyrirkomulagi en áður. Og það vill nú svo til, að í stjórn áburðarverksmiðjunnar eru ýmsir menn, sem eru vanir viðskiptum og rekstri fyrirtækja. Og sumir af þessum mönnum hafa a.m.k. stundum haft traust þeirra manna, sem nú gagnrýna það, að áburðarverksmiðjan taki að sér þessi störf.

Í sambandi við það, þegar hv. síðasti ræðumaður var að tala um verðlagið á áburðinum og að það væru 6 millj. kr., sem hefðu verið ranglega teknar af bændum, þá sé ég ástæðu til þess að minna á, að verðlagning áburðarins þau tvö ár, sem ég hef komið þar nærri sem ráðherra, hefur farið fram eftir samhljóða óskum stjórnar áburðarverksmiðjunnar. Það eru fimm menn í stjórninni. Það hefur komið fram í þessum umr., að það er einn af þessum fimm, sem hefur sérstakt traust nokkurra manna hér í hv. d., en líka sá maður, sem þetta sérstaka traust hefur, hefur verið með í tillögu um það áburðarverð, sem ákveðið var endanlega, bæði s.l. vor og vorið 1960, og á meðan ég var í stjórn áburðarverksmiðjunnar, var alltaf samstaða um það, hvaða tillögur skyldi gera til landbrh. um verð. Ég sé ástæðu til þess að segja þetta hér, vegna þess að það virðist vera svo, að a.m.k. þessi eini maður hafi sérstakan trúnað hv. síðasta ræðumanns, og ég vil vekja athygli á því, að hann beitir geiri sínum einnig að þessum sérstaka manni, sem hann treystir, þegar hann talar um, að áburðurinn hafi verið verðlagður of hátt og tekið meira af bændum en réttmætt var.

Ég get svo endurtekið það, að ég er algerlega ósammála hvað þetta snertir. Ég tel, að áburðarverðið hafi þessi tvö ár, sem ég átti endanlega að samþykkja verðlagið, verið eins lágt og forsvaranlegt var fyrir hagsmuni verksmiðjunnar og það sé þess vegna, að þessi stóryrði séu að öllu leyti ástæðulaus, um leið og þau eru óviðeigandi. En þeim er vitanlega ætlað að fá bændur til þess að trúa því, að þetta sé satt. Það er verið að gera lymskulega tilraun til þess að blekkja bændur, reyna að fá þá til þess að trúa því, að það væri verið að tryggja hagsmuni þeirra með því að haga fyrningarafskriftum áburðarverksmiðjunnar þannig, að það væri ekki hægt að endurnýja þær vélar, sem brotna eða bila. Þetta er lágkúrulegur hugsunarháttur, sem liggur þarna á bak við, og algerlega ólíkur þeim hugsunarhætti, sem yfirleitt er ríkjandi hjá bændum. Og ég veit, að bændur gera sér grein fyrir því, að þessari áburðarverksmiðju verður ekki haldið við og hún verður ekki stækkuð með því, að þessi hugsunarháttur fái að þróast eða ráða.

Ég held, að það sé ekki fleira, sem ég þarf að segja við hv. 1. þm. Norðurl. v. Ég held, að ég hafi svarað öllum þeim getsökum, sem hann var með. En þá væri kannske rétt að segja örfá orð út af því, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði hér áðan. En ég man nú ekki betur en ég hafi heyrt þá ræðu nokkrum sinnum áður, og ég man ekki betur en ég hafi a.m.k. einu sinni eða tvisvar svarað þessari ræðu, og það má þá búast við, að það verði endurtekning hjá mér eins og hv. 3. þm. Reykv., en það er náttúrlega enginn skaði með því skeður.

Hv, 3. þm. Reykv. var að tala um það frv., sem hann hefur flutt hér. Það er um það að gera áburðarverksmiðjuna að ríkiseign. Það frv. er vitanlega alveg óskylt því frv., sem er hér á dagskrá, og þó að þetta frv. verði að lögum, stendur það ekkert í vegi fyrir því að lögfesta frv. hv. 3. þm. Reykv. Það má vitanlega alveg eins fela áburðarverksmiðjunni innflutning á áburði, þó að hún verði gerð að ríkisfyrirtæki, og það er jafnnauðsynlegt, að fyrningarafskriftir verði í samræmi við endurnýjun á kostnaðinum, þó að áburðarverksmiðjan verði gerð að ríkiseign. Hún þarf að endurnýjast alveg jafnt fyrir því. Þess vegna er það, að það er eiginlega óþarfi, finnst mér, að ræða frv. hv. 3. þm. Reykv. samtímis hinu frv.

En í sambandi við eignarréttinn á verksmiðjunni nú vil ég segja það, að hv. 3. þm. Reykv. hefur gefið nokkuð undir fótinn með það, að hluthafarnir, sem eiga 2/5 af bréfunum, eigi nokkuð mikinn rétt þarna, vegna þess að í 3. gr. þess frv., sem hann flytur hér, gerir hann ráð fyrir því, að það megi kaupa hlutabréfin á talsvert hærra verði en nafnverði. Og er þá ekki verið að gefa í skyn, að hluthafarnir eigi þarna nokkuð mikinn rétt og meiri rétt en hv. þm. hefur stundum haldið fram? Ég er hræddur um, að 3. gr. frv. geti falið það í sér, ef lagaprófessorar færu nú að stúdera það, og það væri þá atveg á móti vilja hv. þm., ef hann ýtti undir þá skoðun, að hluthafarnir ættu beinlínis 2/5 í verksmiðjunni. Um hitt verður ekki deilt, að Áburðarverksmiðjan h/f er hlutafélag og að ríkið á 3/5 og hluthafarnir 2/5. Hvernig hægt er að komast hjá því að skilgreina það, að þeir, sem eiga 2/5 í hlutafélaginu, eigi ekki 2/5 í eignunum, það er vitanlega lagamál, og ég hef rætt þetta við marga lögfróða menn, sem eru á einu máll. En það skal viðurkennt, að við nál., sem gefið var út 2. maí 1960, hefur ekki verið gefið neitt svar enn. Það skal viðurkennt, að ríkisstj. befur tekið á móti því, en það hefur ekki í nál. verið orðað þannig, að það bæri að leggja þá niðurstöðu hér fyrir Alþingi, heldur er málinu vísað til ríkisstj. til athugunar. Ég get upplýst hv. þm. um það, að að svo miklu leyti sem þetta mál þarf athugun, þá er það í athugun, og það hefur verið athugað. En því miður, þeir menn, sem ég hef rætt við, virðast vera nokkuð á einu máli. Nú vil ég segja það, að ef þessi athugun verður lögð hér fram, sem ég sé ekki annað en ætti að geta orðið og ekki ástæða til annars, þegar hún liggur skjalfest fyrir rn., en við skulum nú gera ráð fyrir því, — ef hún væri þannig, þessi athugun, og leiddi það í ljós, að t.d. þrír lögfræðingar teldu, að eignarréttur hluthafanna væri tvímælalaus, mundi hv. 3. þm. Reykv. taka það gilt? Ég geri ráð fyrir því, að hv. 3. þm. Reykv. tæki ekki neina athugun gilda, nema því aðeins að athugunin leiði í ljós, að réttur hluthafanna sé sem sagt enginn. Ég skal láta bíða að fullyrða nokkuð um það, hvað athugunin segir, þangað til hún liggur fyrir skjalfest, en ég hef ástæðu til þess að ætla, að hv. 3. þm. Reykv. haldi áfram að fullyrða á sama hátt og hann hefur gert áður, ef niðurstaða þessarar athugunar leiddi það í ljós, að hluthafarnir ættu 2/5 í verksmiðjunni. Og ég hef ástæðu til þess að ætla þetta vegna fullyrðinga hv. þm. um lögleysu stjórnar áburðarverksmiðjunnar í fyrningarafskriftunum. Hv. þm. fullyrðir, að hér sé um hreinan þjófnað að ræða hjá stjórn áburðarverksmiðjunnar, enda þótt fyrir liggi álit færustu manna um það, að þetta samrýmist lagagr. Þannig hefur þessi hv. þm. — og reyndar fengið einn mann í lið með sér, hv. 1. þm. Norðurl. v. — það er eins og þeir hafi fyrir fram ákveðið úrslitin, þeir hafa fyrir fram kveðið upp þann sleggjudóm, að áburðarverksmiðjustjórnin hafi framið lögbrot, og það er eins og þeim komi ekkert við úrskurður færustu lögfræðinga í þessu máll. Þegar málflutningurinn er kominn á svona stig, mundi kannske einhver segja, að það væri ekki lengur ástæða til að ræða í alvöru um þetta mál við þessa menn. En eigi að síður, jafnvel þótt þetta væri skoðun sumra, sem á málið hafa hlustað, skal ég ekki telja eftir mér að halda umr. áfram um málið og gera frekari tilraunir til þess að sannfæra þessa hv. þm. um, að það ber að hafa það, sem sannast reynist, að taka rökum, þegar þau eru lögð fram af sérfróðum mönnum, en ekki halda áfram að berja höfðinu við steininn.

Hv. 3. þm. Reykv. var að tala um það, að 80% af áburðinum væri flutt beint á hafnir úti á landi, en 20% til Reykjavíkur. Ég skal viðurkenna, að ég hef ekki þessar tölur fyrir framan mig, og má vel vera, að þær séu alveg réttar. En ég sé ekki, hvaða áhrif það hefur á það, þótt áburðarverksmiðjan fari að flytja inn áburð. Ef áburðarverksmiðjan tekur að sér að flytja inn áburðinn, þá vitanlega gerir hún það með þeim hætti, sem ákjósanlegastur er, sem hagkvæmastur er og á ódýrastan máta. Það er enginn vafi á því, að áburðurinn hækkar ekki í verði, þótt stjórn áburðarverksmiðjunnar eigi að sjá um innflutninginn. Ástæðan til þess, að ég hef áhuga á að láta áburðarverksmiðjuna annast þetta og nota þannig aðstöðuna í Gufunesi, bryggjuna, geymsluna, skrifstofuhúsin og það fólk, sem þar er, er eingöngu sú að gera áburðinn ódýrari en hann hefur verið. Það er ekkert annað, sem vakir fyrir mér, en að ég hef þessa skoðun, og ég er alveg sannfærður um, að þið haldið því ekki fram, að ég hafi áhuga á því að gera áburðinn dýrari en hann þarf að vera.

Það var verið að spyrja hér áðan um það, hvort nokkur áætlun hafi verið gerð um kostnaðinn hjá áburðarverksmiðjunni við að flytja inn, og ég get upplýst, að það hefur verið gert, en ég hef hana ekki hér fyrir framan mig. Stjórn verksmiðjunnar, verksmiðjustjóri og verkfræðingar hafa gert slíka áætlun. Og ég get sagt meira, að þessi áætlun hefur verið send rn. og rn. hefur látið endurskoða hana á tveimur stöðum. Annar aðilinn, sem fékk áætlunina til endurskoðunar, hefur skilað af sér, en hinn ekki. Og annar aðilinn hefur talið, að áætlunin væri raunhæf. Hvað hinn aðilinn segir, verður ekki sagt um, fyrr en hann hefur skilað af sér. Við skulum ekki ætla, að stjórn áburðarverksmiðjunnar, verksmiðjustjóri og verkfræðingar og þessi aðili, sem er löggiltur endurskoðandi og fróður um rekstur fyrirtækja, sem er á sama máli og verksmiðjustjórnin, að þetta séu menn, sem hafi lítið vit á rekstri fyrirtækis, innflutningsmálum eða hvernig þessu verður bezt fyrir komið. Ástæðan til þess, að ég hef sent þessa áætlun til endurskoðunar og athugunar annarra, er ekki sú, að ég rengi stjórn áburðarverksmiðjunnar eða verkfræðinga, heldur til þess að hafa tvöfalt öryggi fyrir því, að það sé vit í að gera þetta, ef að því ráði verður horfið, þannig að því fleiri fróðir menn sem verða sammála um þetta, því meira öryggi er í því, að það verði rétt, og því meiri vissa er fyrir því, að þeir, sem tala hér á móti þessu, gera það af vanþekkingu. Það er ekki út af fyrir sig sagt þeim mönnum til hnjóðs, það er ekki ætlazt til þess, að þeir hafi þá þekkingu á þessu, sem þarf til þess að vera dómbær um það. En þá ber að spara sér stóryrði og fullyrðingar um þau mál.

Það er ekki ástæða til að fjölyrða meira um afskriftirnar. Hv. 3. þm. Reykv. sagði svipað um þær og hv. 1. þm. Norðurl. v. Hann sagði, að þetta væri lögbrot, en ég bendi á aftur, að vélarnar eru orðnar 9—10 ára gamlar og það er gert ráð fyrir, að þær fyrnist á 10—12 árum. Það verður því að fara að endurnýja þær. Ef það á að gerast, verður að afskrifa þær með endurnýjunarverði, en ekki því verði, sem þær voru keyptar á, því að endurnýjunarverðið er a.m.k. þrisvar sinnum hærra en upphaflega verðið. Og það er enginn vafi á því, að jafnvel þótt engin gengisbreyting hefði orðið hér á landi, hefðu vélarnar hækkað nokkuð eigi að síður.

Hv. 3. þm. Reykv. var að tala um, að núv. stjórn hefði tekið upp á því að lækka gengið á hverju ári. En áður hefði það ekki verið gert nema einu sinni á áratug. Ég held, að vinstri stjórnin hafi ekki setið nema tvö ár eða rúmlega það, en hún lækkaði gengið þrisvar. Að vísu viðurkenndi hún ekki, að það væri gengislækkun. Það var kallað yfirfærslugjald. Út í það skal ég ekki fara. En vegna þess að hv. 3. þm. Reykv. man þetta og veit þetta, ætti hann líka að vita, að það er gagnslaust að vera að fullyrða það hér í hv. d., að núverandi ríkisstj. hafi fellt gengið tvisvar. Það, sem núv. ríkisstj. hefur gert, er ekki annað en viðurkenna það, sem orðið hefur 1960. Það er afleiðing af því, sem gerðist 1958 og 1957. Gengisskráningin í sumar er afleiðing af því, sem gerðist í vor. Og ég vildi gjarnan óska þess, að hv. 3. þm. Reykv. hefði ekki aðstoðað þá, sem ollu gengislækkuninni í sumar, eða hina, sem voru valdir að henni 1958 og 1957. En hann getur nú, hv. þm., farið í sinn eigin barm, og ef hann leitar þar vel, þá finnur hann, hvort samvizkan er alveg hrein í þessu efni.

Ég held, að það sé ekki ástæða til að svara þessum hv. þm. öllu meira. Það hefur komið flest fram við þessar umr., sem máli skiptir, og náttúrlega miklu meira en máli skiptir af hendi þeirra, sem hafa mælt á móti frv. Frv. fer til hv. fjhn., og hv. nm. geta náttúrlega fengið allar þær upplýsingar, sem þeir kunna að óska, til n., og það er áreiðanlega bezt fyrir mátið, að það sé athugað sem bezt, og því betur sem hv, nm. og hv. þm. kynna sér það, því vissari er ég um, að þeir ljá málinu fylgi, þegar til atkvgr. kemur.