10.11.1961
Efri deild: 13. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í C-deild Alþingistíðinda. (2765)

71. mál, meðferð einkamála í héraði

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fylgja þessu frv. úr hlaði með mjög mörgum orðum, en vil þó víkja nokkuð að aðdraganda þess.

Það frv., sem hér er flutt, er að mestu leyti, — þó hafa orðið á því nokkrar breytingar við athugun málsins, — samhljóða frv., sem flutt var á Alþingi 1955, en hafði þá átt alllangan aðdraganda og undirbúning. Dómsmrh. hafði skipað árið 1952 hæstaréttardómarana Einar Arnórsson, Gizur Bergsteinsson og Jónatan Hallvarðsson í nefnd til þess að endurskoða löggjöf um meðferð einkamála í héraði. Síðar var Theodór Líndal hrl. skipaður í þessa nefnd, en Einar Arnórsson hvarf frá störfum í nefndinni mjög skjótlega, a.m.k. var störfum nefndarinnar ekki langt komið. Fyrrv. dómsmrh., Bjarni Benediktsson, hafði svo farið yfir þetta frv. og rætt það við þá, sem sömdu frv., áður en málið var lagt fyrir á þingi 1955. Þessari heildarlöggjöf er ætlað að koma í staðinn fyrir einkamálalöggjöfina nr. 85 frá 1936 og geymir að vísu allmörg nýmæli, miðað við þá löggjöf, enda hefur verið stuðzt við reynslu af framkvæmd þeirra laga, en þau lög voru fyrsta heildarlöggjöfin um meðferð einkamála í héraði hér á landi. Áður var þetta í fjölmörgum lögum frá mismunandi tímum og á víð og dreif, og var þess vegna sú heildarlöggjöf, sem sett var 1936, á sínum tíma til mikilla bóta og mikill lagabálkur.

Þegar frv. var lagt fram á Alþingi 1955, í Nd., fékk það ekki afgreiðslu, eins og kunnugt er, en allshn. Nd. sendi frv. hins vegar til umsagnar ýmissa aðila, og það eru fyrst og fremst þrír aðilar, sem um málið hafa fjallað síðan. Það var sent til umsagnar lagadeild háskólans, Félagi héraðsdómara og Lögmannafélagi Íslands. Lögmannafélagið hefur haft allveruleg afskipti af málinu, rætt það á fundum sínum oftar en einu sinni og skipað nefnd í málið til þess að athuga það, og eftir að nefnd Lögmannafélagsins hafði um það fjallað, var það rætt á fundum þar áfram. En er þetta skeði á árinu 1956, var það skoðun Lögmannafélagsins og þeirra, sem um það fjölluðu, að þeir teldu tæpast tímabært að fella úr gildi lögin frá 1936 og taka upp þessa nýju löggjöf, með þeim breytingum, sem í henni felast. Þessu frv., sem hér liggur fyrir, fylgja sem fylgiskjöl, til þess að þm.. og n., sem um þetta fjallar, eigi auðveldara með að átta sig á málinu, þær tillögur, sem gerðar hafa verið um breytingar af Lögmannafélaginu, héraðsdómurunum og lagadeildinni, og svo loks álitsgerðir hæstaréttardómaranna um, þessar brtt., sem fram hafa komið. Auk þess gera þeir svo nokkrar brtt. við frv., eins og það var 1955, miðað við breytta löggjöf á þessum tímum.

Það er ljóst, að það er allmikið verk fyrir þingnefnd að fara í gegnum þennan lagabálk. En það er á það að líta, að hann er nú búinn að eiga langan aðdraganda, sem sagt frá 1952, og hefur verið lagður fyrir þingið 1955, og síðan hafa þeir aðilar, sem ég gat um áðan, fjallað um málið og höfundar frv. upphaflega tjáð sig um þær brtt., sem fram hafa komið, þannig að þingnefndir geta nú gengið rakleitt að afgreiðslu málsins eða athugun þess, þar sem þessir aðilar hafa allir tjáð sig um málið og þeirra greinargerðir eða álitsgerðir liggja fyrir.

Ég vona þess vegna, að þegar á allt þetta er litið, muni auðnast að afgreiða þetta mál á þessu þingi. En mér þykir ekki ólíklegt, að það kynni að teljast hagræði í því, að nefndirnar, allshn. þessarar hv. deildar og Nd., sem málinu yrði væntanlega vísað til, hefðu þegar í upphafi samvinnu við athugun málsins, eins og oft tíðkast, og mundi, að ég hygg, vera vinnuhagræði í þessu sambandi. Að sjálfsögðu er það á valdi allshn. eða þeirrar nefndar þessarar hv. deildar, sem fær málið til meðferðar, að athuga það, en þó þykir mér rétt að benda á, að ég held., að það væru ekki óskynsamleg vinnubrögð. Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og allshn.