02.02.1962
Neðri deild: 40. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í C-deild Alþingistíðinda. (2836)

60. mál, hefting sandfoks

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Þetta mál hefur verið talsvert rætt hér í Alþingi, þar sem málið hefur verið flutt fjórum sinnum Og það má því segja, að það vanti ekki umr um málið, heldur miklu fremur raunhæfar aðgerðir.

Það er rétt, sem hér var sagt, að þetta mál var fyrst flutt í ársbyrjun 1958 af fyrrv. ráðh., Steingrími Steinþórssyni. Það var í dálítið öðru formi en nú. Þá var gert ráð fyrir að skattleggja búpeninginn til þess að fá tekjur handa sandgræðslunni og einnig að leggja skatt á allar seldar tóbaksvörur, 3% skatt. Það hefði nú mátt ætla, að frv. næði fram að ganga 1958, því að þá höfðu þeir flutningsmenn, sem flytja frv. í ár og í fyrra, vissulega tækifæri til þess að vinna að framgangi málsins, þar sem þeir studdu þáv. ríkisstj. En af einhverjum ástæðum dróst það úr hömlu og frv. dagaði uppi. Ég vil ekki halda því fram, að það hafi verið af viljaleysi þessara hv. tveggja flm., heldur vegna þess, að það hefur verið einhver stífla eða einhver fyrirstaða, sem hefur ekki verið yfirstíganleg. 1958 var jafnmikil nauðsyn á að efla sandgræðslu og gróður lands og í dag. En sú ríkisstj., sem var við völd 1958, kom frv. ekki fram, enda þótt milliþn. hefði skilað því. Ég taldi óheppilegt að afla fjárins með skatti á búpening og tel, að frv., eins og það er nú endurbætt, sé miklu vænlegra og betra en upphaflega frv. En ég skal ekki fara nánar út í það. En það er ekki nema ágætt, að það kemur greinlega í ljós, að þótt hv. 4. þm.. Sunnl. og hv. 3. þm.. Norðurl. e. hafi haft áhuga 1958, þá hefur sá áhugi fyrir þessu máli vaxið stórum síðan. Er ekki nema sjálfsagt að taka því vel.

Árið 1959 flytja þessir hv. þm.. frv. hér um bil eins og það var í þeim búningi, sem Steingrímur Steinþórsson flutti það. Það var haldið áfram að gera tillögur um skatt á búpening, en tóbaksskatturinn var lækkaður úr 3% niður í 11/2 % Að því leyti til var frv. allmiklu lakara en það frv., sem Steingrímur Steinþórsson flutti. Vegna þess að mér líkaði ekki skatturinn á búpeninginn, óskaði ég eftir því, að mþn. ynni starfið upp og gerði nýjar tillögur til tekjuöflunar í þessu máli. Og nefndin kom sér saman um það, og það er rétt, það var að mestu eða kannske öllu leyti í samráði við mig, að breyta tekjuöfluninni, hverfa frá því að skattleggja búpeninginn, sem var mjög óvinsælt meðal bænda, og breyta tekjuöfluninni þannig m.a. að leggja skatt á allt selt áfengi og fella niður þann toll, sem tekinn er af innfluttum fóðurbæti, þannig að hann gengi til sandgræðslunnar.

Og hv. 4. þm.. Sunnl. og hv. 3. þm.. Norðurl. e. fluttu þetta frv., sem ég lét semja 1960, þeir fluttu það í fyrra, vegna þess, eins og þeir sögðu, að það væri orðið þreytandi að bíða eftir því frá ríkisstj. Ég skildi það ekki í fyrra, hvers vegna þeim datt í hug að taka þetta frv., sem lá hjá ríkisstjórninni í athugun, til flutnings, því að báðir þessir hv. þm. eru það þingvanir, að þeir vita, að ríkisstj. eða stuðningsmenn hennar fylgja ekki fremur tillögum, sem stjórnarandstæðingar flytja, heldur en þeim tillögum, sem stjórnin sjálf ber fram, þátt málið sé í sjálfu sér gott. Og það er vitað mál, að frv. var ekki flutt sem stjórnarfrv. í fyrra vegna þess, að ríkisstj. hafði deildar meiningar um það, hvernig tekjuöfluninni skyldi hagað. Það er fullkominn samhugur innan ríkisstj. um það að efla sandgræðslu og gróður lands, en það eru deildar meiningar um það, hvernig beri að afla fjárins. Málið er enn í athugun hjá ríkisstj. Og til þess að bæta fyrir það, að enn hefur ekki verið flutt frv. um sandgræðslu, til aukinna fjárframlaga til hennar, hefur verið aukið framlag á fjárlögum, bæði ársins 1961 og 1962, til sandgræðslunnar, auk þess sem ráðstafanir hafa verið gerðar til þess, að aðstaða til búrekstrar í Gunnarsholti hefur batnað og allverulegar tekjur hafa verið af búinu, sem gengið hafa til sandgræðslunnar, þannig að sandgræðslan hefur haft mun meira úr að spila 1961 og 1962 heldur en áður, enda þótt ekkert frv. hafi enn verið lagt fram eða lögfesting til nýrrar fjáröflunar. Þetta vil ég taka fram og tel ástæðu til, vegna þess að þetta mál er enn hjá ríkisstj. í athugun, og ég veit, að hv. flm. skilja það, að þótt þeir hafi brennandi áhuga fyrir málinu, þá er það ekki leiðin til þess að koma því fram til sigurs að taka stjórnarfrv., sem er ekki tilbúið, og flytja það, á meðan ríkisstj. er ekki búin að koma sér saman um, hvernig tekjuöfluninni skuli hagað. Það verður vitanlega ekki samþykkt frv. um þetta, fyrr en stjórnarflokkarnir eru búnir að koma sér saman um það. Þetta veit ég að jafnþingvanir menn og þessir tveir flm. eru vita og skilja.

Við þurfum ekki að halda langar ræður hér í hv. Alþingi um nauðsynina á að efla sandgræðsluna og auka gróðurlendið. Við þurfum þess ekki, vegna þess að við vitum þetta allir, og ég þekki engan þingmann, sem skilur þetta ekki, sem betur fer. Ég þekki engan hv. þm.., sem veit það ekki, að þegar þjóðinni fjölgar jafnört og á Íslandi, þá þurfi jafnframt að auka bústofninn til þess að hafa nóga mjólk, til þess að hafa nóg gras og til þess að hafa nægilegar landbúnaðarvörur handa þjóðinni til neyzlu. En eigi að síður, þótt við vitum þetta öll, þá tökum við okkur oft tíma til þess að ræða um nauðsynina eigi að síður innbyrðis, og skal það síður en svo lagt illa út. En það er þó ljóst mál, að það er miklu nauðsynlegra að stíga stórt skref til framsóknar í þessu máli en að halda langar ræður um það.

Hv. 4. þm.. Sunnl., sem talaði hér áðan, sagðist vita, að ég væri innilega sammála þeim tillögum, sem hér er verið að ræða um, og mig undrar ekkert, þó að hann viti það, vegna þess að þetta frv. var samið í samráði um mig. T.d. tillagan um það að skattleggja áfengissöluna, ég er þeirrar skoðunar, að það sé heppileg tekjuöflunarleið og að áfengið mundi að öllum líkindum seljast alveg eins vel, þó að það væri eitthvað lítillega hækkað í þessum tilgangi. En það eru ýmsir fleiri möguleikar, eins og sagt hefur verið, sem menn eru að velta fyrir sér í þessu málí, og það er nauðsynlegt að koma sér saman um það. En ríkisstj. í heild hefur sínar afsakanir í þessu, vegna þess að hún hefur lagt fram aukið fé til þessara mála, á meðan málið er í undirbúningi, þannig að sandgræðslustarfið er sízt minna nú en það hefur verið, og það geta menn fengið gleggstar upplýsingar um með því að tala við sandgræðslustjóra um þessi mál.

Ég tel ekki ástæðu til að tala langt mál um þetta. Hv. frsm, sagði hér áðan, að hann treysti ríkisstj. til þess að finna leiðir í þessu máli, ef ekki yrði samkomutag um þær leiðir, sem á er bent í frv., og ég er alveg samþykkur því. Ég er viss um, að ríkisstj. finnur leiðir í því efni, og einmitt vegna þess, að hv. 4. þm.. Sunnl. veit þetta, að ríkisstj. finnur leiðir, sem hún kemur sér saman um, þá er náttúrlega miklu síður þörf á því fyrir þennan hv. þm.. að taka það frv., sem lá hjá ríkisstj., á meðan ríkisstj. var ekki búin að samræma þær leiðir, sem skyldi fara, og flytja það. Einmitt þessi fullyrðing hjá hv. frsm. og þessi viðurkenning á núverandi ríkisstj. sýnir, að það var enginn tilgangur með því að flytja þetta frv. Ég skil þann áhuga, sem þessi hv. þm. hefur og báðir hv. þm.., og ég skal meta hann, en það er bara ekki leiðin til þess að koma þessum málum fram, sú sem þeir hafa valið. Leiðin til þess að koma málinu fram er það að samræma skoðanir manna og finna þau spor, sem menn geta sameiginlega gengið í málinu.

Hv. þm.. talaði um, að það hefði verið nokkurt karp viðvíkjandi flutningi málsins í fyrra. Ég man nú ekki, hvort það var svo mikið, en ég hef sennilega bent á hað, að hv. þm. hefðu flutt frv., sem var hjá ríkisstj. og ekki tilbúið að því leyti, að ríkisstj. var ekki enn búin að samræma sínar skoðanir. Ég mun hafa talið, að vinnubrögðin kæmu ekki að gagni með þessu móti, eins og reynslan sýndi. Ég vil ekkert fullyrða um það, nema það geti komið fram frv. frá ríkisstj, á þessu þingi um málið, vitanlega breytt frá því, sem það er nú, því að ef ríkisstj. hefði verið á einu máli um að flytja það í því formi, sem það er, þá hefði það verið fyrir löngu gert. Það gæti vel farið svo, að enda þótt fjárveiting til sandgræðslu hafi verið hækkuð, þá yrði flutt frv. frá ríkisstj. á þessu þingi. Ég skal þó ekkert um það fullyrða, um leið og ég fullyrði þó, að ríkisstj. hefur áhuga á aukinni sandgræðslu.

Ég tel ekki ástæðu til að láta öllu fleira koma fram um þetta. Það er nú svo og raunar augljóst, að jafnvel þótt stjórnarandstæðingar vilji láta í það skína, að ríkisstj. sé ámælisverð fyrir að hafa ekki lögfest þær tekjur, sem æskilegastar eru fyrir sandgræðsluna, þá verða þessir hv. þm.. að minnast þess, að frv. líkt þessu var flutt, á meðan þeir studdu ríkisstj., og það náði þá ekki fram að ganga. Og ef hv. þm.. stjórnarandstöðunnar færu að hafa stór orð í garð ríkisstj. út af þessu máli, þá náttúrlega væri óhjákvæmilegt að rifja það upp og spyrja að því, hvers vegna þeir með sínum mikla áhuga hafi ekki komið málinu fram, á meðan þeir studdu ríkisstj. En það er ekki víst, að til þess þurfi að koma. A.m.k.. komu áðan engin stóryrði fram eða fullyrðingar í öfgum hjá hv. frsm. Það skal metið, þegar menn sýna áhuga, og það er engin ástæða til að vera með neinar getsakir um, að það sé ekki vel meint, þessi flutningur frv. En leiðin til þess að koma málinu fram er ekki þessi. Hún er sú, að hinn samfelldi þingmeirihluti finni hinar raunhæfu leiðir í þessu, og það mun hann gera.