02.02.1962
Neðri deild: 40. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í C-deild Alþingistíðinda. (2837)

60. mál, hefting sandfoks

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki á þessu stigi málsins ræða hin einstöku atriði þess frv., sem hér er til umr., en ummæli hæstv. landbrh. gáfu mér tilefni til að gera hér nokkrar athugasemdir. Hann lýsti því yfir, að sú tekjulind, sem farið er fram á í frv., að það yrðu álögur á vínsölu í landinu, sé heppileg sem tekjustofn fyrir sandgræðslu í landinu og hann fyrir sína parta sé því samþykkur, að sá tekjustofn sé lögfestur, ef ég skildi hann rétt. Hann lýsti því yfir í sambandi við það, að hann hefði verið andvígur því, að þetta fé yrði tekið af fóðurvörum eða bústofni bænda. Hann sagði að vísu ekki ákveðið, að þetta segði hann hér sem hæstv. landbrh. og þá í nafni ríkisstjórnarinnar, en hins vegar varð það ekki skilið öðruvísi en að hann teldi, að ekki væru á því nein sérstök vandkvæði að fá hæstv. ríkisstj. til að samþykkja þennan sérstaka tekjustofn.

Ég vil í sambandi við þetta benda á, að ég tel þetta óheppilegasta og rangasta tekjustofn, sem hægt er að skapa fyrir sandgræðsluna í landinu, og skal færa fyrir því nokkur rök. Í fyrsta lagi gera þeir menn sér ekki ljóst, hvað stórkostlegt böl áfengisneyzla í landinu er, sem leggja það til, að ákveðnu fé af þeim ágóða, sem fari í ríkissjóð, skuli varið til að standa undir einhverjum ákveðnum útgjöldum hjá þegnum þjóðfélagsins, — þeir gera sér það ekki ljóst frá mínu sjónarmiði, að ef til er nokkurt fé afgangs fyrir ríkissjóð af þeim gróða, sem kemur frá áfenginu, þá ber fyrst og fremst að verja því fé til áfengisvarna í landinu. Það verður ófrávíkjanleg krafa þeirra manna hér á Alþ., sem hafa opin augu fyrir því stórkostlega tjóni og því stórkostlega böli, sem ofneyzla áfengis í landinu hefur í för með sér. Og það hafa ekki verið gerðar hærri kröfur til þessa dags en raun ber vitni um vegna þess, að þeir aðilar hafa litið svo á, að ríkissjóður hafi ekki ráð á því að leggja miklu meira fé til framkvæmda þeirra mála í sambandi við tekjur, sem fást frá áfengissölunni. En komi fram nýjar till. um það að taka af þeim sjóði fé til þess að byggja upp hvort heldur er sandgræðslu, landbúnað á öðru sviði eða einhverjar aðrar framkvæmdir, þá er óhjákvæmilegt, að upp rísi þeir menn, sem líta svo á, að það fé eigi fyrst og fremst að fara til áfengisvarna.

Önnur meginástæðan fyrir því, að ég er á móti þessari fjáröflun til sandgræðslu, er sú, að því fleiri aðilar sem njóta góðs af ágóða af vínsölu í landinu fjárhagslega, því veikari verður mótstaðan í landinu gegn áfengisflóðinu, því fleiri aðilar sem hafa áhuga á því, að meira öl eða meira vín seljist og meiri gróði verði af áfengisneyzlu. Þetta er stórkostlegt siðferðilegt atriði í málinu og stórkostlegt atriði fyrir þá, sem enn þá hafa skilning á því, að það eigi að minnka áfengisgróðann, en ekki auka hann.

Ég vona því, að hæstv, ráðherra viðurkenni, að þetta hafi verið hans sérstaka einkaskoðun í málinu, það sé ekki skoðun hæstv. ríkisstj. og það sé ekki heldur skoðun allra þeirra manna, sem styðja nú hæstv. ríkisstj.

Það þýðir ekki fyrir hæstv. ráðh. að brosa að þessu máli, það er miklu alvarlegra en það. Ég sé ekki, að enn hafi ríkissjóður gert skyldu sína við þá vesalinga, sem hann hefur annars vegar tekið af stórkostlegt fé, með því að stuðla að því með áfengissölunni, að það yrðu vesalingar í landinu. Hann hefur ekki bætt fyrir þær sakir eins og skyldi. Og það er stórkostleg þörf á að veita miklu meira fé, annaðhvort beint úr ríkissjóði eða af tekjum áfengisverzlunarinnar, til þess að byggja upp fullkomið hæli fyrir afbrotaunglinga, bæði drengi og stúlkur, sem hefur verið vanrækt, þrátt fyrir það að ákveðið sé með lögum, að það skuli gert, og hefði átt að vera búið að koma því í framkvæmd. En það hefur alltaf staðið á því, að ekki hefur verið til nægilegt fé til þess að koma upp þessum stofnunum og koma þeim málum á þann grundvöll, sem lagður hefur verið, til þess að vinna á móti því böli, sem hér er um að ræða. Og það verður að vera alveg ófrávíkjanleg krafa þeirra manna, sem skilja þessi mál, að hverjum einasta eyri, sem ríkissjóður geti séð af af ágóða af áfengisverzluninni, sé fyrst og fremst varið til þessara hluta, til að byggja upp aftur það, sem áfengisnautnin í landinu rífur niður. Það er einnig þörf á því að byggja hér upp drykkjumannahæli í miklu stærri stíl, drykkjumannavarnir á ýmsum sviðum, bjarga þeim sjúklingum, sem lenda í fangelsunum af ölæði. Þetta er miklu meira aðkallandi mál en öll sandgræðsla á Íslandi, og því verður áreiðanlega mótmælt harðlega af þeim mönnum, sem vilja berjast fyrir þessum málum og skilja þau, að það sé ekki einn einasti eyrir látinn til að standa undir hvorki sandgræðslu í landinu né öðru, fram yfir það, sem tekið er beint inn í ríkissjóð.

Ég vil einnig benda á, að ég tel það alveg fjarstæðu, þó að þar sé raunverulega allt öðru máli að gegna, að leggja á sérstakan benzíntoll til að standa undir slíku máli sem hér er á ferðinni, og það er krafa frá sömu mönnum sem gera það að ófrávíkjanlegri kröfu, að allur benzín- og bílatollur í landinu skuli renna til þess að byggja upp vegi og brýr í landinu, sem á miklu meira skylt við hann en þetta mál hér. En það er önnur saga og snertir miklu meira efnishlið málsins. Hitt er mál, sem Alþ. og ríkisstj. geta ekki lokað augunum fyrir og er nauðsynlegt að bæta úr, og ekki má taka neitt fé af þessum gróða, sem hér er, til annarra framkvæmda, fyrr en búið er að bæta það tjón, sem áfengisneyzla í landinu hefur í för með sér og fer vaxandi — svo mjög vaxandi í landinu, að það er orðið langsamlega mesta böl þessarar þjóðar.