19.10.1961
Efri deild: 5. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í C-deild Alþingistíðinda. (2926)

29. mál, bústofnsaukning og vélakaup

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Þar sem ég á ekki sæti í þeirri nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, voru örfá atriði, sem mig langaði til að minnast á, áður en frv. færi í nefnd.

Ég dreg það á engan hátt í efa, að það sé áhugamál þeirra manna, sem flytja þetta frv., að stuðla að lausn vandamáls, sem vissulega er stórt, og sá þáttur í uppbyggingu landbúnaðarins, sem hér er sérstaklega um rætt, er vissulega þess eðlis, eins og hv. 1. flm. sagði, að á því veltur fyrir afkomu margra bænda, að hér takist sæmilega til og sé hægt að finna úrlausn á þeirra vandkvæðum að þessu leyti. Hins vegar er því ekki að leyna, að það eru auðvitað, eins og hv. flm. reyndar viðurkenndi, ýmsar hliðar á þessu máli, og spurningin er sú, hvernig bezt verði að því unnið. Það hafa oft komið fram hugmyndir um ýmiss konar sjóði í sambandi við landbúnaðinn, bæði aðstoð til frumbýlinga og bústofnsaðstoð, smábýlaaðstoð og ýmis önnur sérstök mál í því sambandi. Allt getur þetta verið góðra gjalda vert. En ég vil þó láta í ljós þá meginskoðun, að það velti á miklu, þegar út í slíka aðstoð er farið, að sjóðir séu ekki settir á stofn meira og minna til þess eins að setja á stofn sjóð, heldur sé þá séð fyrir því, að sjóðirnir geti leyst þau verkefni, sem þeim er ætlað að vinna. Það er ljóst mál og eðlilegt, að þegar einhver slíkur sjóður er á stofn kominn, reikna menn með því, að sjóðurinn reynist þess umkominn að leysa þann vanda, sem honum er ætlað að leysa, og því miður hefur það of oft viljað brenna við, að sjóðir hafa verið settir á stofn án þess að hafa nokkra möguleika til þess að leysa vandkvæði manna, og hefur það leitt af sér margvíslega erfiðleika og vonbrigði.

Með þessum orðum mínum er ég ekki að segja, að ekki sé séð sæmilega fyrir fé til þessa bústofnlánasjóðs, sem hér er um að ræða, en ég held hins vegar, þrátt fyrir að það sé svo, að þá sé það a.m.k. athugunarefni, hvort ekki sé það heppilegri lausn á þeim vanda, sem hér er við að fást, að undirbyggja betur þá stofnlánasjóði, sem landbúnaðurinn nú hefur. Það er þannig með reglur þessara sjóða, bæði veðdeildar og ræktunarsjóðs, að þeir sjóðir hafa samkvæmt sínu hlutverki heimild til þess að veita lán, sem hér er gert ráð fyrir, bæði til bústofnskaupa og vélakaupa. Þetta hefur hins vegar ekki verið gert nema að litlu leyti, vegna þess að þessir aðalstofnlánasjóðir hafa verið fjárvana. Þó hefur nokkur aðstoð verið veitt í þessu skyni, þó að í nokkru öðru formi hafi verið, þ.e.a.s. það hefur verið veitt oft og tíðum smávægileg aðstoð í gegnum veðdeild bankans, sem hefur verið hugsuð til vélakaupa eða bústofns, þó að í smáum stíl hafi verið, og sannleikurinn er sá, að eitt vandkvæði í sambandi við slíkar lánveitingar er það, að erfitt er um vik að taka fullgild veð, ef um lán er að ræða, sem eru til nokkurs tíma að ráði, og það hefur einnig valdið erfiðleikum í þessu sambandi og því raunverulega ekki verið hægt að veita aðstoðina, nema hægt hafi verið að taka veð í jörðum.

Þessi lánasjóður, sem hér er settur á stofn, sýnist mér að raunverulega þjóni tvenns konar hlutverki. Annars vegar er honum ætlað að taka á sig það hlutverk, sem veðdeild. og ræktunarsjóður nú hafa, að lána til bústofnskaupa og vélakaupa, og hins vegar sé honum ætlað að vera nokkurs konar bjargráðasjóður fyrir bændur, þar sem þeir geti jafnvel fengið styrki eða lán, sem lúti ekki venjutegum lánakjörum og séu fyrst og fremst hugsuð til þess að létta undir með þeim í almennum erfiðleikum þeirra. Ekki skal ég á nokkurn hátt vera því mótfallinn, að einhver sjóður hafi slíkt hlutverk, og það kann að vera mjög erfitt, að hinir venjulegu stofnlánasjóðir landbúnaðarins hafi þá skyldu á sínum herðum, því að þar kemur til greina annað mat en beinlínis venjulegt bankamat. En ég vildi nú varpa því fram a.m.k. til athugunar, hvort það væri ekki óheppilegt að fara að mynda sérstakan sjóð eða fela þessum sjóði einnig að lána til bústofnskaupa og vélakaupa. Með því móti er létt af öðrum stofnlánasjóðum. landbúnaðarins þessu hlutverki, sem vissulega er mjög stórt hlutverk og mjög slæmt, að ekki hefur verið hægt að sinna því sem skyldi, og það er brýn nauðsyn í sambandi við uppbyggingu þeirra sjóða að sjá svo fyrir þeirra fjármagni, að þeir geti sinnt þeim skyldum. Ég er hins vegar hræddur um, að ef á að fara að fela þessum sjóði, sem hér er hugsaður, einnig það hlutverk að lána almennt til véla- og bústofnskaupa, þá mundi það verða strikað út sem hlutverk hinna sjóðanna, enda í rauninni ógerlegt að láta sjóði, sem hafa mismunandi stjórn og því ekki neitt samstarf sín á milli, lána mönnum til nákvæmlega sömu þarfa, því að hér er gert ráð fyrir því, að þessi sjóður hafi sérstaka stjórn, en sé ekki undir yfirstjórn Búnaðarbankans, eins og stofnlánasjóðir landbúnaðarins þó eru. Mér sýnist raunar, að það sé næsta óeðlilegt, að sjóður, sem er smásjóður, ef miða skal við þá sjóði, sem eru nú stofnlánasjóðir landbúnaðarins, skuli hafa sérstaka stjórn, en hins vegar sé talið vera hægt að fela Búnaðarbankanum og bankastjórn hans yfirstjórn hinna stóru sjóða. Í þessu finnst mér ekki alls kostar samræmi, að öðru leyti en því, að það kann að mega segja, að að svo miklu leyti sem hlutverk þessa sjóðs sé styrktarstarfsemi, þá geti vel verið, að færa megi rök fyrir því, að rétt sé, að það sé í höndum annarra aðila. En varðandi þann þátt í starfi sjóðsins, sem er ætlaður til almennra útlána eftir sömu sjónarmiðum og stofnlánasjóðir landbúnaðarins að öðru leyti lána út, þá held ég, að það sé mjög óráðlegt og verði ekki til bóta fyrir bændur að hafa það undir annarri stjórn en aðalstofnlánasjóðirnir eru.

Það situr sízt á mér að hafa á móti því, hvort sem það heitir nýr sjóður eða aukið fjármagn til þeirra sjóða, sem nú eru, sem ég þó hefði talið æskilegri lausn, að slíkar hugmyndir komi fram, að efla á einhvern hátt lánsfé það, sem til lánveitinga er til stofnlána í landbúnaði.— En ég teldi rétt, að það væri íhugað, hvort ekki væri hægt að kljúfa þetta mál í sundur, þannig að þessi sjóður yrði fyrst og fremst hugsaður til þeirra bjargráða, sem hann að öðrum meginstofni til á að vera og gert er hér ráð fyrir, einkanlega vegna þess, að mér sýnist eftir ýmsum þeim atriðum, sem hér eru fram sett um skilyrði fyrir lánveitingum og ýmsu öðru, að hér blandist svo mikið saman þetta tvíþætta verkefni sjóðsins, að það muni reynast æði erfitt í framkvæmd. Ég skal aðeins nefna sem dæmi, þar sem það er orðað svo, að skilyrði til lánveitinga til vélakaupa sé m.a. það, að maður hafi ekki efni á að festa kaup á nauðsynlegum búvélum. Ég veit ekki, hvað vakir fyrir flutningsmönnum með þessu orðalagi: að hafa ekki efni á. Maður getur verið ríkur maður, þó að hann skorti skotsilfur til að leggja í að kaupa dýra búvél. En það má líka eins skilja þetta atriði þannig, að maðurinn hafi raunverulega ekki fjárhagslegt bolmagn að neinu leyti til þess að kaupa slík tæki. Á móti því stríðir þó það atriði, sem síðar kemur, að það er gert ráð fyrir því, að menn verði að setja fullnægjandi tryggingu fyrir láni og það verði að koma fram, að lántakandi geti staðið undir árlegum greiðslum af láninu. Ég nefni þetta ekki til neinnar sérstakrar gagnrýni, að öðru leyti en því, að mér sýnist, að þarna rekist nokkuð á þær tvíþættu hugsanir, sem liggja að baki þessu máli, og sé því hreint og beint spurning, hvort ekki ætti að sundurgreina þetta, og ef hugsunin væri að setja upp sérstakan bjargráðasjóð, sem hefði það hlutverk að veita mönnum styrki, breyta lausaskuldum þeirra eða veita aðstoð, sem venjulegir lánasjóðir landbúnaðarins alls ekki veita, þá kunni að vera eðlilegt, að slíkur sjóður hefði sérstaka stjórn, og rétt væri að setja á stofn slíkan sjóð, en að öðru leyti væri afhugandi að fella niður hið almenna hlutverk sjóðsins, af því að ég sé ekki með góðu móti, eins og þetta er upp byggt, að sjóðurinn geti sinnt nema að litlu leyti því hlutverki, miðað við fjármagn hans, því að það er alveg rétt, sem hv. 1. flm. sagði, að það er auðvitað óhjákvæmilegt skilyrði til búskapar, að menn hafi vélakost, sem til þarf, og að menn hafi þann bústofn, sem geti skapað þeim þann fjárhagsgrundvöll, að búreksturinn geti borið sig. Ég er ákaflega hræddur um, að þetta sé stærra mál en það, að það verði leyst í gegnum sjóð sem þennan, með ekki meira fjármagni, þannig að þá mundi það koma fram, sem ég gat um í upphafi, að mönnum væru jafnvel gefnar hér meiri vonir en unnt væri að uppfylla.

Þá vil ég leyfa mér að vekja athygli á því, að í þessu frv. er gert ráð fyrir, að meira en helmingur af stofnfé sjóðsins sé fengið að láni. hað er gert ráð fyrir því í senn, að sjóðurinn hafi möguleika til þess að veita styrki, og í annan stað er gert ráð fyrir, að vextirnir af lánum sjóðsins megi ekki vera yfir 5%. Ég er ákaflega hræddur um, að ekki liði á löngu, þangað til þessi sjóður, ef hann er hugsaður að byggjast upp að svo stórum hluta af lánsfé, muni komast í mjög svipað ástand og stofnlánasjóðir landbúnaðarins nú eru í. Sannleikurinn er sá, að uppbygging þeirra hefur verið með þeim hætti, — og skal ég þar ekki vera að deila á einn né neinn, — en staðreyndin er sú, að uppbygging sjóðanna hefur verið með þeim hætti, að það hefur verið stefnt út í fullkomna ófæru, og furðulegt, að menn skuli ekki hafa haft opnari augu fyrir því, að hér var beinlínis veríð að stefna út í öngþveiti, sem fyrr eða síðar gat orðið þess valdandi, eins og raunar er orðið nú í dag, að þessir sjóðir væru þess alls kostar ófærir að gegna hlutverki sinu og væru raunverulega miklu verr staddir en eignalausir. Hér mundi verða um að ræða vafalaust mjög verulegan vaxtahalla á þessu lánsfé, sem hér er um að ræða, og hann yrði auðvitað að borgast þá af hví fé, sem sjóðurinn fær í framlag frá ríkissjóði, og mundi það skerða mjög verulega það framlag.

Þetta eru þau atriði, sem ég vildi koma að til íhugunar, þegar þetta mál færi til nefndar. Ég fagna því, þegar fram koma tillögur og ábendingar um að leysa þetta mikla vandamál, og ég efa ekki þann góða hug, sem hér liggur að baki. En ég teldi þó ástæðu til, að þessar ábendingar minar yrðu teknar til athugunar, þegar málið verður rannsakað í nefnd, og það íhugað í fullri alvöru, hvort ekki væri ástæða til þess að aðskilja þetta tvíþætta verkefni, sem hér er gert ráð fyrir, og leggja þá aftur áherzlu á eftir öðrum leiðum, sem vafalaust koma til kasta bæði stjórnar og þings, áður en langt um liður, að leggja frambúðargrundvöll að lánamálum landbúnaðarins yfirleitt, því að það er vissulega mjög stórt og mikilvægt viðfangsefni, sem bíður úrlausnar og getur ekki dregizt lengi úr þessu að verði að taka fyrir til alvarlegrar meðferðar.

Ég skal alveg stilla mig um að fara út í að svara þeim rökstuðningi hv. 1. flm., að það, sem geri þetta mál sérstaklega brýnt nú, séu þær búsifjar, sem núv. stjórnarstefna hafi valdið bændum. Slíkar fullyrðingar eru auðvitað meira og minna út í hött, en skiljanlegar, þegar þess er gætt, að stjórnarandstæðingur á hlut að máli, sem segir þetta. Þetta vandamál er gamalt og hefur hvorki minnkað né vaxið við tilkomu einnar né annarrar ríkisstj., heldur er þetta, eins og hann raunar upplýsti, vandamál, sem lengi hefur verið til meðferðar og, því miður hefur aldrei tekizt, hverjir sem hafa í stjórn setið, að finna viðunandi lausn á, og væri vissulega vel, ef tækist að gera það nú.

Ég skal ekki á þessu stigi heldur ræða aðstoðarlánin, — það gefst tækifæri til þess að ræða þau á öðrum vettvangi, þegar þau bráðabirgðalög koma hér til meðferðar, enda mörg atriði í því enn þá mjög óljós, eins og 1. flm. þessa frv. réttilega gat um. Það er hins vegar rétt að gera sér grein fyrir því, að út á þá braut, sem hér er farið út á með að breyta lausaskuldum bænda í föst lán, verður ekki oft farið, m.a. vegna þess, að það er ljóst, að lánsstofnanir munu, ef á að gera það oft, neita algerlega slíkri fyrirgreiðslu, vegna þess að það er engin von til þess, ef komið er þannig aftan að lánsstofnunum, sem veitt hafa víxla, og þeim fyrirskipað að breyta þeim í föst lán, að þær vilji við það una. Það er hægt að gera þetta einu sinni til þess að reyna að koma málum manna í viðunandi horf, og ég skal fúslega játa, að einmitt þessi aðstoð, sem þarna er veitt, ef hún nær tilgangi sínum, eykur þörfina á því, að lánamálum landbúnaðarins verði komið í það horf, að hér eftir eigi menn aðgang að svo miklum lánum, sem eðlilegt megi teljast, að ekki þurfi að safnast vegna framkvæmda bænda stórfelldar lausaskuldir. Annars hleðst þetta auðvitað upp á nýjan leik og sama vandamálið blasir við eftir nokkur ár. Það er því alveg rétt, að það atriði þarf að takast til sérstakrar meðferðar og úrtausnar einmitt í sambandi við endurskipulagningu á lánasjóðum landbúnaðarins.

Ég skal svo ekki, herra forseti, eyða lengri tíma við þessa umr. málsins, en vildi koma þessum hugleiðingum að, áður en málið færi til nefndar.