27.10.1961
Sameinað þing: 10. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (2963)

48. mál, mótmæli gegn risasprengju Sovétríkjanna

Flm. (Sveinn S. Einarsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 5. þm. Vesturl. (BGr) að bera fram till. þá til þál., sem prentuð er á þskj. 57 og ég skal nú lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að mótmæla eindregið sprengingu Sovétríkjanna á risakjarnorkusprengju og skorar á þau að hætta nú þegar kjarnorkusprengingum sínum, þar sem geigvænleg geislunarhætta af þeim stofnar framtíðarvelferð allrar heimsbyggðar og þar með íslenzku þjóðarinnar í voða. Sérstaklega mótmælir Alþingi neðansjávarsprengingum, er geta stofnað afkomumöguleikum Íslendinga í hættu.

Alþingi skorar enn fremur á kjarnorkuveldi heimsins að gera hið fyrsta samkomulag um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn og öruggt eftirlit með því:

Tillögunni fylgir grg. á nefndu þskj., en ég vil leyfa mér að gera hér nokkru ýtarlegri grein fyrir málinu.

Fáir atburðir hafa vakið jafnalmennan ótta, ef ekki skelfingu, um allan hinn frjálsa heim og sá, að Sovétríkin ákváðu að hefja á ný tilraunasprengingar kjarnorkuvopna fyrir tæpum tveimur mánuðum. Þessar tilraunir voru hafnar 1. sept. s.1., og hafa Rússar síðan sprengt 24 kjarnorkusprengjur eða til jafnaðar eina sprengju rúmlega annan hvern dag. Allar hafa þessar sprengjur verið miklum mun öflugri en þorrinn af þeim sprengjum, sem áður hafa verið sprengdar í tilraunaskyni. Þó keyrði um þverbak s.l. mánudag, þegar Rússar sprengdu fyrst risasprengju, sem talið er að hafi numið að sprengiafli sem svarar 30-50 milljónum lesta af TNT-sprengiefni. Tveimur klukkustundum síðar sprengdu þeir aðra, en minni sprengju neðansjávar. Báðar þessar sprengjur og allar hinar aflmeiri hafa verið sprengdar á tilraunasvæði Rússa á eynni Novaja Semlja í Norður-Íshafinu, í aðeins 2500 km fjarlægð frá Íslandi.

Engum þurfti að koma það á óvart, að Rússar skyldu sprengja umrædda risasprengju, því að skömmu áður hafði Krústjoff forsætisráðherra Sovétríkjanna gumað af því á flokksþingi kommúnista í Moskvu, að Rússar gætu hæglega sprengt vetnissprengju með 100 megalesta sprengiafli og mundu ljúka tilraunum sínum að þessu sinni undir lok þessa mánaðar með því að sprengja 50 megalesta sprengju. Hitt hafði komið mönnum miklu meira á óvart, þegar sovétstjórnin tilkynnti 31. ágúst s.l., að hún mundi hefja tilraunir með kjarnorkuvopn á nýjan leik og rjúfa þannig einhliða það hlé, sem kjarnorkuveldin þrjú höfðu af sjálfsdáðum gert um nærri þriggja ára skeið á öllum slíkum tilraunum.

Kjarnorkuveldin þrjú, Bandaríkin, Bretland og Sovétríkin, urðu ásátt um það seint á árinu 1958 að efna til ráðstefnu í Genf, þar sem leitað skyldi samkomulags um algert bann við öllum tilraunum með kjarnorkuvopn. Bandaríkin og Bretland hættu þegar í stað tilraunum sínum, þegar Genfarráðstefnan kom saman, þann 31. okt. 1958, en Rússar hættu þeim tilraunum fáum dögum síðar, eða 3. nóv. í hartnær þrjú ár sátu fulltrúar kjarnorkuveldana þriggja á fundum í Genf, hvorki meira né minna en 338 fundum. Það var von alls mannkyns, að aðilarnir ynnu að þessum samningum í fullri einlægni og af góðum vilja.

Það kom því eins og reiðarslag yfir þjóðir heims, þegar sovétstjórnin tilkynnti upp úr þurru, að hún mundi nú hefja tilraunir með kjarnorkuvopn á nýjan leik. Menn áttuðu sig þá skyndilega á því, að Rússar hefðu ekki setið með heilindum við samningaborðið, heldur verið að vinna tíma til þess að smíða ný og ægilegri kjarnorkuvopn en áður höfðu þekkzt. Munu vandfundin dæmi um þvílíkar aðfarir í samskiptum þjóða, þar sem um er að tefla líf og öryggi alls mannkyns, enda mun þessum helsprengjusmiðum og áhangendum þeirra ýmsum veitast erfitt að finna hér eftir nægilega auðtrúa sálir til þess að taka verulegt mark á friðarhjali þeirra.

Sovétstjórnin gaf þá langsóttu skýringu á þessu uppátæki, að hún væri nauðbeygð að hefja kjarnorkuvopnatilraunir á ný, vegna þess að Frakkar hefðu sprengt 4 sprengjur í Saharaeyðimörkinni. Á tímabilinu frá 11. febr. 1960 til 24. apríl 1961 sprengdu Frakkar fjórar litlar sprengjur og tilkynntu að því loknu, að þeir hefðu lokið kjarnorkutilraunum sínum í gufuhvolfinu. Samanlagt var sprengiaflið í þessum fjórum sprengjum Frakka ekki nema brot af sprengiafli þeirra kjarnorkuvopna, sem Rússar hafa verið að reyna nú undanfarna tvo mánuði. Rúmum fjórum mánuðum eftir að Frakkar hættu þessum tilraunum þykjast Rússar þurfa að hefja tilraunir aftur. Það er naumast hægt að hugsa sér aumari átyllu en þetta.

Ég dreg ekki í efa, að hv. alþm. geri sér ljósa grein fyrir þeim hættum, sem stórfelldar tilraunir með kjarnorkuvopn fela í sér fyrir mannkynið. Ég vil þó leyfa mér að víkja nokkru nánar að einstökum atriðum þess máls, bæði almennt og með sérstöku tilliti til Íslendinga.

Þegar kjarnorkusprengja springur, myndast geislavirk efni, og fer magn þeirra eftir því, hve öflug sprengjan er. Fari sprengingin fram ofanjarðar, þyrlast mikið magn af vatni, sandi og öðrum tausum jarðefnum upp og mengast af hinum geislavirku efnum frá sprengingunni. Þetta geislavirka ryk stígur tugi kílómetra upp í geiminn og þeim mun hærra sem sprengingin er öflugri. Hin stærri korn falla fljótlega til jarðar, en hin fíngerðari berast með vindum langar leiðir og geta svifið mánuðum og jafnvel árum saman í gufuhvolfinu, áður en þau ná til jarðar aftur. Alvarlegasta geislunarhættan í svipinn er að sjálfsögðu á nokkur hundruð kílómetra löngu svæði frá sprengjustaðnum, og fer lega þess eftir vindstöðu og styrkleika.

Við óheppilegar aðstæður gætu næstu nágrannalönd okkar, Finnland, nyrðri hluti Svíþjóðar og Noregs, orðið hættusvæði í þessum skilningi, þegar kjarnorkusprengingar eru gerðar við Novaja Semlja, en þar hafa Rússar sprengt öflugustu kjarnorkuvopn sín á undanförnum vikum. Þetta hefur vakið þvílíkan ugg á Norðurlöndum, að yfirvöld þar hafa undirbúið neyðarráðstafanir, svo sem umfangsmikið eftirlit með drykkjarvatni og matvælum og jafnvel brottflutning fólks af hættusvæðum, ef til þyrfti að taka.

Eins og fyrr var getið, berast hin fíngerðari efni upp í háloftin og svifa þar yfir jörðu, þar sem þau smám saman falla niður, einkum þar sem úrkoma er mikil. Yfirleitt á úrfallið sér stað á svipuðum breiddargráðum og þeim, er sprengingin var gerð á.

Það er áætlað af sérfræðingum, að hið geislavirka ryk, sem þyrlaðist upp við risasprengingu Rússa s.l. mánudag, hafi numið á milli 15 og 25 millj. lesta. Verulegur hluti af þessu geigvænlega úrfalli mun falla til jarðar á norðlægum slóðum, og mun Ísland vissulega fá sinn skerf af því til viðbótar við úrfallið frá þeim 22 sprengjum, sem Rússar höfðu sprengt áður á undanförnum vikum.

Ísland er sökum legu sinnar í langtum meiri hættu frá geislavirku úrfalli frá kjarnorkusprengjutilraunum Sovétríkjanna við Novaja Semlja og á öðrum stöðum í Norður-Síberíu heldur en frá tilraunum á öllum öðrum stöðum, þar sem þær hafa farið fram til þessa. Ástæðan er sú, að hið geislavirka ryk fellur aðallega á belti, sem liggur m.a. yfir Ísland.

Það sýndi sig líka, að hér á land gætti mjög geislunaráhrifa frá kjarnorkusprengjum Rússa við Novaja Semlja, þegar geislamælingar hófust hér á landi í októberbyrjun 1958. Á tímabilinu frá 10–24. okt. það ár sprengdu Rússar 7 kjarnorkusprengjur á þessum slóðum. Hinn 18. okt. 1958 áttfaldaðist geislun hér á landi snögglega og var að meðaltali 6.6 sinnum hærri síðari hluta mánaðarins en fyrri hluta hans. Sama sagan endurtekur sig nú, og eru þó geislunaráhrif frá kjarnorkusprengjum Rússa að þessu sinni hvergi nærri komin fram enn þá. Það gefur nokkra hugmynd um afleiðingar af þessum sprengingum Rússa, að í vikunni 19.—25. sept. s.l. var mælt geislavirkt úrfall á Norðurlöndum þegar orðið jafnmikið á hvern ferkílómetra og það var mest 1958.

Nákvæmlega sama verður upp á teningnum hér á Íslandi. Prófessor Þorbjörn Sigurgeirsson, forstöðumaður eðlisfræðistofnunar háskólans, hefur nýverið látið hafa eftir sér í fréttum útvarpsins, að sennilegt megi telja, að áhrifanna frá risasprengju Rússa taki að gæta hér á landi upp úr næstu mánaðamótum. Hann telur sennilegt, að geislun frá risasprengjunni aukist svo, að hún verði meiri en mesta geislun, sem mælzt hefur hér á landi, en það var haustið 1958.

Óþarft er að rökstyðja það nánar, hvílík vá hér er fyrir dyrum. Næstu vikur og mánuði mun helrykið sáldrast yfir Ísland og safnast í moldinni. Við horfum fram á það, að á næsta vori verði nýgræðingurinn mengaður geislavirkum efnum. Við stöndum andspænis því, að heilbrigðisyfirvöld landsins verða nú í fyrsta sinn að hafa sérstaka aðgát á mjólk, grænmeti og öðrum matvælum, sem við neytum á næsta sumri. Við vitum líka, að sá hluti þjóðarinnar, sem hér á mest í hættu, eru börnin og unglingarnir, sem í örum vexti safna meira af hinum skaðlegu efnum í bein sín og vefi en þeir, sem fullvaxnir eru.

Þá má ekki gleyma því, að erfðastofnar þjóðarinnar eru í hættu, því að hér sem annas staðar, þar sem geislunarhætta er fyrir hendi, kunna að fæðast andvana eða vansköpuð börn, sem heilbrigð hefðu verið, ef hinar glæpsamlegu kjarnorkuvopnatilraunir hefðu ekki verið teknar upp á ný.

Sem kunnugt er, létu Rússar sér ekki nægja að sprengja risasprengju sína s.l. mánudag, heldur sprengdu þeir einnig minni sprengju neðansjávar. Hér kem ég að máli, sem vel gæti haft hinar alvarlegustu afleiðingar fyrir undirstöðuatvinnuveg Íslendinga, fiskveiðar, einkum ef slíkum sprengingum verður haldið áfram.

Það er alkunnugt, að Austur-Grænlandsstraumurinn og Austur-Íslandsstraumurinn eru, ef svo mætti segja, frárennsli Norður-Íshafsins. Báðir þessir straumar liggja um sum mikilvægustu fiskimið Íslendinga. Haffræðingar telja, að sökum grunnsævis fyrir ströndum Síberíu og umhverfis Novaja Semlja berist sjór af þessum slóðum vegna áhrifa vinda yfir í fyrrnefnd straumakerfi. Ef þetta hafsvæði mengast af geislavirkum efnum vegna sprenginga, leikur ekki á tveim tungum, að þau geta borizt yfir á fiskislóðir Íslendinga. Af þessu er ljóst, að við Íslendingar þurfum nú hið fyrsta að hefja kerfisbundnar athuganir á geislun í sjónum umhverfis Ísland, þannig að hægt sé að fylgjast með, hvað þar gerist.

Herra forseti. Ég hef nú leitt rök að því: Í fyrsta lagi, að Íslendingum stafar sérlegur háski af kjarnorkusprengingum Rússa við Novaja Semlja vegna legu Íslands. Í öðru lagi, að tilraunir Rússa að undanförnu og þá ekki sízt risasprengjan munu valda því, að geislunaráhrif verði meiri hér á landi en nokkru sinni fyrr. Í þriðja lagi, að af þessum sökum verði heilbrigðisyfirvöld landsins að sýna sérstaka árvekni og jafnvel vera viðbúin að gripa til varúðarráðstafana. Og í fjórða lagi, að undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar geti verið hætta búin, ef áframhald verður þarna á. Ég vænti þess, að hv. alþm. geti verið mér sammála um það, að þessi viðhorf séu svo alvarlegs eðlis, að Alþingi Íslendinga geti ekki haldið að sér höndum, heldur hljóti að sameinast um að mótmæla eindregið þeim aðgerðum sovétstjórnarinnar, sem leitt hafa til þessa ástands, og krefjast þess jafnframt, að þeim verði hætt.

Ákvörðun sovétstjórnarinnar að rjúfa grið og hefja tilraunir með kjarnorkuvopn á ný hefur vakið reiði og ugg meðal allra frjálsra þjóða. Hér vofir ekki aðeins geislunarhættan yfir öllu mannkyni af tilraunum Rússanna einna, heldur kann svo að fara, að hin kjarnorkuveldin sjái sig til neydd að fara að dæmi þeirra til þess að dragast ekki aftur úr í hinu skelfilega kapphlaupi um kjarnorkuvopnin. Íslendingar verða að leggjast á sveif með þeim öflum, sem vilja stöðva þessa vitfirringu, og vinna með þeim að því, að gerður verði atþjóðasamningur um að banna allar tilraunir með kjarnorkuvopn. Til þess að slíkt bann verði ekki pappírsgagn eitt, er óhjákvæmilegt, að komið verði á fullkomnu eftirliti með því, að banninu sé framfylgt.

Herra forseti. Ég tel, að þetta mál liggi svo ljóst fyrir, að það sé óþarft að vísa því til n., og vegna eðlis þessa máls og nauðsynjar á, að afgreiðslu þess verði hraðað, þá vildi ég leggja til, að afgreiðslu þess yrði að fullu lokið á þessum fundi hæstv. Alþingis.