27.10.1961
Sameinað þing: 10. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í D-deild Alþingistíðinda. (2979)

48. mál, mótmæli gegn risasprengju Sovétríkjanna

Finnbogi R. Valdimarsson:

Hér er um það að ræða að samþykkja yfirlýsingu af hálfu Alþingis í nafni þjóðarinnar um afstöðu Íslendinga til alvarlegasta stórmáls, sem liggur fyrir öllu mannkyni á vorum dögum, og til þeirrar hörmulegu þróunar mála, sem stærstu stórveldi heimsins eiga sameiginlega sök á. Slíkt stórmál er af hálfu meiri hluta Alþingis neitað að ræða í þingnefnd og afgreiða þannig á venjulegan þinglegan hátt. Felldar hafa verið brtt. þingmanna Alþb., sem stefndu að því, að Alþingi gæti einhuga staðið að yfirlýsingu um mótmæli gegn kjarnorkusprengingum Sovétríkjanna sem annarra kjarnorkustórvelda, og að því, að Ísland verði aldrei notað sem kjarnorkuherstöð. Í þessu felst einnig yfirlýsing, — yfirlýsing, sem mun verða tekið eftir, ekki aðeins meðal íslenzku þjóðarinnar, heldur af miklu fleirum. En meiri hl. Alþ. ber einn ábyrgð á þeirri yfirlýsingu. Þrátt fyrir þetta, sem sýnir ljóslega, hvað vakir fyrst og fremst fyrir flm. þessarar till. og hv. þingmeirihl., og þótt till., eins og hún er flutt og eins og hún liggur fyrir, sé að mínum dómi bæði einstrengingslega og illa orðuð, þá vil ég undirstrika það, að ég er hvenær sem er reiðubúinn til að mótmæla hverri kjarnorkusprengingu, sem framkvæmd er í heiminum, af hverjum og hvar sem hún er gerð, og segi því já.