18.12.1961
Sameinað þing: 30. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í D-deild Alþingistíðinda. (3015)

94. mál, átta stunda vinnudagur verkafólks

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Við fyrri umr. þessa máls stóðu hér upp tveir þm., hæstv. forsrh. og hv. 3. þm. Sunnl., og fögnuðu því, að þessi till. væri fram borin. Ég vil taka undir orð þeirra og fagna því, að þessi till. er fram komin, og mun ég aðeins víkja að því síðar. En út af orðum, sem féllu hjá 3. þm. Sunnl. við fyrri umr. þessa máls, vil ég, að það komi hér fram, að það mál, er hann minntist á, þátttaka sjómanna í útgerðar- eða rekstrarkostnaði fiskiskipa, þetta hefur þekkzt hér hjá okkur á Íslandi fyrir nokkrum árum, en því miður sáu sjómenn sér ekki annað fært en að hætta þessari þátttöku, ekki vegna þess, að þeim þætti ekki rétt, að þeir tækju þátt í þessum kostnaði, heldur vegna hins, að við þetta fyrirkomulag fór svo margt á milli mála reikningslega séð, svo að ekki séu fleiri orð um það höfð, að þeim þótti ógerlegt að búa við þau skipti, er þeir menn, sem höfðu með reikningshaldið að gera, höfðu upp á að bjóða. Ég vil að gefnu tilefni, að þetta komi fram.

En út af þessari till. sé ég sérstaka ástæðu til þess að fagna henni, einfaldlega vegna þess, að ég kannast nokkuð við efni hennar. Þannig stóð á, að á síðasta Alþýðusambandsþingi skiptist að venju það þing í tvo hluta, minni hl. og meiri hl. Minni hl., sem var skipaður þeim mönnum, sem eru kallaðir lýðræðissinnar, flutti fram ákveðnar tillögur, sem ég einmitt sé í þessari tillögu að hafa vakið þó nokkra athygli, því að þáltill. á þskj. 144 flytja fjórir hv. þm., sem allir áttu sæti á síðasta Alþýðusambandsþingi. En á því sama þingi greiddu þeir atkv. gegn öllum tillögum, sem minni hl. bar fram. Bent var á í formála eða byrjun þessara tillagna minni hl., hvaða höfuðþætti ætti að leggja áherzlu á í sambandi við væntanlegar kjarabætur og kröfur íslenzks verkalýðs. Þá komu fram í seinni hluta eða miðhluta ákveðnar tillögur um það, hvernig ætti að ná þessu marki, og með leyfi hæstv. forseta, þá vil ég draga þær hér fram.

Í fyrsta lagi, undir gr. 1. var talið æskilegt, að hafin yrði skipulögð starfsemi, er stefndi að því að auka hagkvæmni í íslenzku atvinnulífi í þeim tilgangi að örva framleiðslustarfsemina, auka og bæta framleiðsluna, nýta betur vinnuafl, hráefni og fjármagn. Tryggt yrði, að framleiðsluaukningin leiddi til raunverulegra kjarabóta fyrir launþega og þeim yrði fenginn réttur til íhlutunar um rekstur og stjórn atvinnutækja.

Í öðru lagi, að tekin yrði upp ákvæðisvinna í öllum þeim starfsgreinum, þar sem slíkt hentaði. Þar sem eigi væri unnt að koma við ákvæðisvinnu, yrði verkamönnum tryggt fast vikukaup í stað tímakaups, eftir því sem við yrði komið.

Í þriðja lagi, að almenn vinnuvika yrði 44 klukkustundir í stað 48 án skerðingar á kaupi, enda yrðu jafnframt gerðar ráðstafanir til, að stytting vinnuvikunnar leiddi ekki til minnkandi framleiðslu.

Þetta eru þrjár fyrstu tillögurnar, sem ég minntist á hér að framan. Og þegar hv. þdm. lesa svo þá till., sem liggur hér frammi á þskj. 144, mun að sjálfsögðu engan undra, þó að ég mæli mjög fast með því, að þessi þáltill. verði samþykkt.

Ég fagna því mjög, að þessir menn, sem fyrir nokkrum mánuðum greiddu atkv. á njóti tillögum okkar á Alþýðusambandsþingi, skuli nú flytja tillögu sama efnis hér á hv. Alþingi um, að þetta mikilsverða mál fyrir íslenzka launþega nái fram að ganga. Og ég vona og vænti þess, að þessi till., eins og hún kom fram frá hv. allshn., eigi stuðning allra hér á þinginu og nái fram að ganga.