06.04.1962
Sameinað þing: 50. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í D-deild Alþingistíðinda. (3172)

113. mál, útflutningur á dilkakjöti

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Þessi till. er búin að vera oft á dagskrá hér í sameinuðu þingi, og hafa þegar orðið nm hana töluverðar umr. Tveir af flm. till. hafa talað um málið og a.m.k. einn flokksbróðir þeirra að auki.

Hv. 1. þm. Vestf. (GíslJ), sem flutti ræðu um málið í fyrradag, sagði í lok ræðu sinnar, að þessa till. mætti ekki daga uppi og þyrfti að komast sem fyrst til n. En ég held, að ræða hans sjálfs hafi ekki verið vel til þess fallin að greiða fyrir því, að málið komist sem fyrst til n. Hún var ekki þannig að efni til. Hann lét þar ýmis ummæli falla, sem tæplega verður komizt hjá að gera aths. við, eins og þegar hefur verið gert að nokkru leyti af hv. 1. þm. Austf. (EystJ).

Í umr. um þetta mál, útflutning á kjöti, hefur því verið haldið fram af hæstv. fjmrh. á fundi í desember í vetur hér í Sþ., að svo virtist sem allt hafi staðið í stað nú líklega helming aldar eða jafnvel síðan á nítjándu öld um útflutning á kjöti, og hv. 1. þm. Vestf. hafði miður falleg orð um þetta í ræðu sinni hér í fyrradag. Hann talaði um skrælingjahátt í sambandi við útflutning á kjöti og allt hefði staðið í stað í langan tíma o.s.frv. Þessi ummæli gefa tilefni til þess að fara nokkrum orðum um þetta mál og rifja upp, hvernig háttað hefur verið útflutningi á kjöti frá landinu.

Útflutningur sauðfjár frá Íslandi var veigamikill þáttur í viðskiptum þjóðarinnar á síðasta fjórðungi nítjándu aldarinnar. Á árunum 1880—1890 munu hafa verið fluttir út frá landinu um 18 þús. sauðir að meðaltali á ári. Á síðasta áratug aldarinnar var þessi útflutningur töluvert meiri. Þá voru fluttir út að meðaltali rúmlega 32 þús. sauðir á ári. Útflutningur lifandi fjár var töluverður fyrst eftir aldamótin, en fór ört minnkandi og var að mestu lokið í upphafi fyrri heimsstyrjaldarinnar. Þegar kom fram yfir aldamótin, var mönnum ljóst, að til annarra ráða varð að grípa til þess að koma sauðfénu í verð, og þá voru það bændur landsins, sem mynduðu félög, sem höfðu það að markmiði m.a. að koma upp sláturhúsum til þess að geta flutt út saltað kindakjöt. Það voru þessi samvinnufélög bændanna, sem höfðu forgöngu um þetta mál á fyrsta tug aldarinnar. Það voru kaupfélög bændanna á Norðurlandi, Austur- og Vesturlandi og á sumum stöðum sérstök sláturfélög, sem komu upp sláturhúsum. Hér á Suðurlandi var Sláturfélag Suðurlands stofnað á fyrsta tug aldarinnar. Þessi félög tóku að flytja út saltkjöt og unnu að bættri meðferð á þeirri vöru. Kjötið var aðallega flutt til Noregs og líkaði þar vel. En mönnum varð það ljóst, þegar kom fram yfir fyrri heimsstyrjöldina, að ekki var gott að treysta á saltkjötsútflutninginn eingöngu, heldur varð að reyna nýjar leiðir.

Samband ísl. samvinnufélaga hóf tilraunir með útflutning á kældu kjöti árið 1922 og hélt þeim áfram næstu árin. Á aðalfundi Sambandsins vorið 1923 var þetta mál til umr. Þar var samþ. ályktun, þar sem fundurinn lýsti því yfir, að það væri vilji hans, að stjórn Sambandsins ynni að því af fremsta megni, að komið yrði upp sem fyrst hæfilegu flutningaskipi með kæliútbúnaði til að flytja út nýjar afurðir landsmanna. Það var ekki einskorðað við kjötútflutning í þessari ályktun. Snemma árs 1924 skrifaði Jón Árnason, þáv. framkvæmdastjóri útflutningsdeildar hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga, grein í Tímann um þetta mál og benti þar á nauðsyn þess að rýmka kjötmarkaðinn með því að flytja kjötið út frosið, en til þess þurfti kæliskip. Skorar hann á Alþingi að láta mál þetta til sín taka. Mál þetta var tekið upp hér á Alþ. í fjvn. Nd. þetta ár, 1924. Þá voru fjárl. afgreidd í deildum þingsins, en ekki í Sþ., og því voru fjvn. í báðum þd. Tryggvi Þórhallsson, síðar forsrh., átti sæti í fjvn. Nd. á þessu þingi. Hann sat þá í fyrsta sinn á Alþingi. Eftir uppástungu hans bar n. fram till. um að skora á ríkisstj. að skipa fimm manna n. til að rannsaka verkefni fyrir kæliskip. Till. fjvn. var samþ. í þinginu. Samkv. þeirri till. skyldi skipa 5 manna n., og verkefni hennar átti að vera: 1) að rannsaka verkefni fyrir kæliskip og skilyrði fyrir því, að það gæti borið sig fjárhagslega, 2) að beita sér fyrir fjárútvegun til kaupa á skipi, ef rannsóknin leiddi til viðunandi niðurstöðu, 3) að láta undirbúa fyrir næsta þing áætlun um stærð skipsins, byggingarkostnað, rekstrarkostnað og annað, er máli skipti í því efni.

Þetta var efni þeirrar till., sem samþ. var hér á þingi 1924. Þá um vorið var endurtekin ályktun um þetta mál á aðalfundi Sambands ísl. samvinnufélaga. Þá var stjórn Sambandsins falið að halda áfram tilraunum og látin í ljós von um, að ríkisstj. og Eimskipafélag Íslands hefjist handa um útvegun kæliskips.

Kæliskipsnefndin starfaði á þessu ári, sú sem skipuð var samkvæmt ályktun Alþingis. Hún var skipuð 5 mönnum. Í henni áttu sæti m.a. Jón Árnason, framkvæmdastjóri útflutningsdeildar Sambandsins, og Tryggvi Þórhallsson alþm., síðar forsrh., auk þeirra þrír aðrir menn, kaupsýslumenn. En nm. urðu ekki sammála. Tveir þeirra höfðu verið skipaðir, annar eftir tilnefningu Verzlunarráðsins og hinn eftir tilnefningu Fiskifélags Íslands og sá þriðji skipaður formaður af atvmrh. Þessir þrír menn mynduðu meiri hl. og töldu tormerki á því að gera nokkuð í málinu að sinni a.m.k. Kæliskipið yrði dýrt og ekki annað með það að gera en flytja frosið kjöt í tvo mánuði, sögðu þeir í sínu áliti, þar eð vér höfum einmitt hina tíu mánuðina nægilegan skipakost. Þessum nm. kom ekki til hugar á því ári, að það yrðu flutt út fryst matvæli önnur en kjöt. Þeir höfðu ekki komið auga á, að það gæti verið þörf fyrir slíkt skip til að flytja út frosinn fisk.

En minni hl. n., Tryggvi Þórhallsson, sem skipaður hafði verið í n. eftir tilnefningu Búnaðarfélags Íslands, og Jón Árnason, sem tók þar sæti eftir tilnefningu Sambands ísl. samvinnufélaga, þeir tveir menn skiluðu ýtarlegu áliti um málið og lögðu til, að þegar yrði hafizt handa um framkvæmdir. Minni hl., Jón Árnason og Tryggvi Þórhallsson, samdi frv. um lánveitingar til frystihúsabyggingar á útflutningshöfnum og annað um kaup eða smíði á fullkomnu kæliskipi í sambandi við Eimskipafélag Íslands, ef samkomulag næðist. Og málið kom fyrir Alþ. árið 1925. Á heimildagrein fjárl. var sett heimild handa ríkisstj. til að lána úr viðlagasjóði allt að 100 þús. kr. til þess að reisa íshús á kjötútflutningshöfnum með ákveðhum skilyrðum. Á því ári, 1925, var byrjað á byggingu kjötfrystihúsa hjá kaupfélögunum. Fyrsta kjötfrystihúsið, sem byggt var í því skyni að frysta kjöt til útflutnings, var reist á því ári hjá Kaupfélagi Vestur-Húnvetninga á Hvammstanga, og næstu árin risu upp fleiri kjötfrystihús hjá kaupfélögum á Norður- og Austurlandi. Árin 1925 og 1926 leigði Samband ísl. samvinnufélaga útlend kæliskip til þess að flytja frosið kjöt til útlanda, vegna þess að Íslendingar áttu þá ekki slíkt skip.

Mál þetta var enn til athugunar á Alþingi 1926. Þá bar landbn. Nd. fram till. um framlag til kæliskipskaupa. Samkv. því frv. var ríkisstj. heimilað að veita Eimskipafélagi Íslands allt að 350 þús. kr. styrk til byggingar á nýju millilandaskipi gegn því, að skipið hafi fullkominn kæliútbúnað. Einnig var stjórninni veitt heimild til að ábyrgjast lán í sama skyni. Frv. þetta var samþ. á þinginu 1926. Brúarfoss kom 1927, en hann hafði frystivélar og var útbúinn til að flytja frosin matvæli.

Það, sem ég hef hér nefnt, sýnir, að það voru samvinnufélögin, sem höfðu alla forgöngu í þessu máll. Það voru bændurnir, sem komu upp sláturhúsunum á fyrsta tug aldarinnar, tóku að flytja saltkjöt á erlendan markað. Þeir stofnuðu sín félög í því skyni, og það voru félög þeirra, sem höfðu forgöngu um að koma upp kjötfrystihúsum og flytja frosið kjöt á erlendan markað á þriðja tug þessarar aldar. Þessi félög bændanna byrjuðu á því að flytja út frosið kjöt a. m, k. einum áratug áður en hv. 1. þm. Vestf. skrifaði grein sína um útflutning á lambakjöti, sem hann var að segja okkur í ræðunni í fyrradag, að hann hefði ritað fyrir um það bil aldarfjórðungi, og kaupfélögin hófu útflutning á frosnu kjöti um það bil áratug áður en farið var að flytja út frosinn fisk að nokkru ráði. Landbúnaðurinn var þannig heilum áratug á undan sjávarútveginum í þessu efni, undan sjávarútveginum í því að flytja út frosin matvæli til sölu á erlendum markaði. Útflutningur á frystum fiski hófst ekki að neinu ráði, fyrr en fiskimálanefndin var sett á stofn samkv. lögum frá 1934, en það voru Framsfl. og Alþfl., sem stóðu að þeirri lagasetningu. Eitt af fyrstu verkefnum fiskimálanefndar var að hefja tilraunir með hraðfrystingu á fiski og sölu á honum erlendis. Að vísu hafði verið flutt út örlítið af frystum fiski áður. 1930 mun hafa verið fluttur út frystur fiskur fyrir tæplega 200 þús. kr., og á árunum 1931-1934 var þessi útflutningur innan við 100 þús. kr. hvert árið fyrir sig. Það hafa verið fluttar út svona tilraunasendingar, má segja, á þessum árum. En eftir að fiskimálanefndin hóf sitt starf að þessu, fór útflutningur á frystum fiski jafnt og þétt vaxandi, og eins og við vitum nú, er það langstærsti liðurinn í útflutningi okkar.

Samband ísl. samvinnufélaga hefur haft með höndum fyrir kaupfélögin útflutning á frystu kjöti. En það hefur aldrei haft neina einkasölu á kjöti, hefur aldrei haft neinn einkarétt til þess og mun aldrei hafa sótzt eftir slíku. Ummæli hv. 1. þm. Vestf. um einkaaðstöðu í þessu efni hafa því ekki við rök að styðjast. Það sést glöggt, þegar það er athugað, að sláturleyfishafar samkv. afurðasölulöggjöfinni, aðrir en kaupfélög innan Sambands ísl. samvinnufélaga, munu nú vera fast að því 30 í öllum landsfjórðungum. Það er vitanlega meginhlutinn af slátruninni hjá kaupfélögunum og sérstökum sláturfélögum bændanna, vegna þess að bændur hafa talið sér hentugast að hafa þessi mál í sínum eigin höndum, í sínum félagsskap, en hitt er eigi að síður staðreynd, að þarna er ekki um neina einkaaðstöðu að ræða. Framleiðsluráð landbúnaðarins, sem veitir sláturleyfi, hefur haldið frjálslega á þeim málum. T.d. er það kunnugt; að nýlega stofnuð viðskiptafyrirtæki hafa fengið sláturleyfi, og þeir, sem höfðu fengizt við slík viðskipti, þegar afurðasölulögin voru upphaflega sett 1934, hafa haldið þeim. Og hafi þeir aðilar selt fyrirtæki sín, hefur náttúrlega rétturinn til þess að taka fé til slátrunar og verzla með afurðir af því fylgt þar með. Eins og ég sagði áðan, munu þeir vera fast að því þrjátíu sláturleyfishafarnir, aðrir en kaupfélög innan Sambands ísl. samvinnufélaga.

Ég skal taka dæmi hér af Suðurlandi. Þar er þessi starfsemi að langmestu leyti hjá Sláturfélagi Suðurlands. Á svæðinu frá og með Kjósarsýslu og austur í Vestur-Skaftafellssýslu, að þeim báðum meðtöldum, er ekkert Sambandskaupfélag, sem hefur sláturleyfi. En hins vegar munu vera a.m.k. 6 einkafyrirtæki á þessu svæði, sem hafa sláturleyfi og verzla með kjöt, auk Sláturfélags Suðurlands, sem hefur náttúrlega langmest af þessum viðskiptum á því svæði.

Það er því alveg rangt, sem hv. 1. þm. Vestf. hélt fram, að hér hefði engin samkeppni komizt að. Hitt er annað mál, að þessir einkaaðilar virðast hafa haft takmarkaðan áhuga á því margir að leggja mikið í kostnað við þessa starfsemi. Nokkrir þeirra hafa að vísu frystihús og geta fryst kjöt, en yfirleitt munu þau frystihús hafa verið reist fyrst og fremst í þeim tilgangi að frysta þar fisk. En mjög margir af þeim hafa engin frystihús, þó að þeir hafi sláturhús. Þeir virðast því yfirleitt ekki hafa verið framtakssamir í þessum efnum þrátt fyrir það, þó að hv. 1. þm. Vestf. skrifaði blaðagrein fyrir 25 árum og benti þar á, að hér þyrfti að vinna sem bezt á þessu sviði.

Kaupfélögin í landinu hafa hins vegar varið miklum fjármunum til þess að koma upp nýjum sláturhúsum og frystihúsum, til þess að bæta kjötverkunina og til þess að geta tekið á móti ört vaxandi framleiðslu. Þau hafa, eins og ég hef bent á, algerlega haft frumkvæðið í þessum efnum.

Á síðasta þingi var sett löggjöf um stofnlánadeild sjávarútvegsins, og m.a. var þar ákveðið, að fyrirtæki, sem hafa komið upp fiskvinnslustöðvum, — fiskfrystihúsum og öðrum fiskvinnslustöðvum, — skyldu fá lán hjá stofnlánadeildinni, ef þau hefðu ekki á undanförnum árum fengið nægilega mikið fé að láni til þessara framkvæmda til langs tíma. Þá var gerð tilraun til þess að láta fyrirtæki landbúnaðarins, sem hafa komið upp vinnslustöðvum fyrir landbúnaðarafurðir, njóta slíkrar fyrirgreiðslu einnig. Því var hafnað. Málið var tekið upp aftur í vetur á þingi í sambandi við stjórnarfrv. um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán. Þá var því sanngirnismáli hreyft, að félög bændanna og önnur fyrirtæki, sem hefðu komið upp vinnslustöðvum fyrir landbúnaðarafurðir, t.d. kjötfrystihúsum, og lagt í það milljónatugi á undanförnum árum, gætu fengið lán til lengri tíma út á þessar stöðvar, eins og útgerðarfyrirtækin eða fiskvinnslufyrirtækin hafa fengið. En stjórnarflokkarnir hér á þingi, þm. þeirra, vildu ekki láta landbúnaðinn og fyrirtæki hans njóta hér jafnréttis við sjávarútveginn. Þeir gengu allir á móti þessum sanngjörnu tillögum og hæstv. landbrh. þar fremstur í flokki. Ég kalla þetta ömurlega framkomu hjá þeim. Virðist það benda til þess, að þeir kunni lítt að meta það starf, sem unnið hefur verið á þessu sviði á liðnum áratugum, þó að þeir telji sig nú mikla áhugamenn um það að bæta kjötverzlunina.

Framkvæmdastjóri búvörudeildar hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga, Helgi Pétursson, birti í blöðum í vetur grein um þessi mál. Tilefni þess, að hann birti þessa grein, voru ummæli Morgunblaðsins 6. des. í vetur og einnig ummæli hæstv. fjmrh. í þingræðu 12. des. svo og sú till., sem hér liggur fyrir, og grg., sem henni fylgir. í þessari grein framkvæmdastjórans var brugðið upp mynd af því, hvernig Sambandi ísl. samvinnufélaga hefur tekizt að vinna markað fyrir íslenzkt dilkakjöt í öðrum löndum. Þar voru einnig gefnar upplýsingar um útflutningsuppbætur á dilkakjöt, samanborið við niðurgreiðslur á þeirri vöru á innanlandsmarkaði. Og í greininni var einnig birtur athyglisverður verðsamanburður. Þar kom það fram m.a., að á mörkuðum utan Englands hefur tekizt að fá hærra verð fyrir íslenzkt freðkjöt en aðrar þjóðir fá þar fyrir frosið lambakjöt, og einnig, að samanborið við verð á öðru kjöti á Englandsmarkaði hefur fengizt þar gott verð fyrir íslenzka kjötið.

Með skýrslu sinni kvað Helgi Pétursson niður hin óhrjálegu ummæli Morgunblaðsins um þetta mál.

Tillögumenn þeir, er standa að þessari þáltill., sem hér liggur fyrir, segjast vilja láta reyna nýjar aðferðir við pökkun og verkun á kjöti. Í því efni hefur það tafið fyrir og valdið erfiðleikum, að bæjaryfirvöldin hér í höfuðstaðnum hafa verið að velta því fyrir sér síðustu áratugina, hvar ætti að koma fyrir kjötsölu og kjötiðnaðarstöð í bænum. En slík stöð þarf vitanlega að komast upp hér, þar sem innanlandssalan er langmest. Og enn hafa þeir ráðamenn Reykjavíkur ekki komizt að niðurstöðu um þetta. Þó birtist frásögn í blaði hér í borginni í vetur, sem bendir til þess, að þeir muni nú e.t.v. reyna innan skamms að komast að niðurstöðu í þessu máli, og munu margir mæla, að það hefði þurft að gerast löngu fyrr.

Í sambandi við ummæli hæstv. núv. fjmrh. í þingræðu 12. des. í vetur, þar sem hann deildi á kjötsöluaðila og hélt því fram, að þeir hefðu ekki tekið upp nýjar aðferðir við frágang og vinnslu á kjöti, er ástæða til að minna á, að hann var lengi borgarstjóri í Reykjavík, án þess að koma því í framkvæmd að ákveða stað fyrir slíka starfsemi, svo að unnt væri að fá leyfi til að setja upp nýjar og fullkomnari vinnslustöðvar.

Eins og ég sagði áðan, gefa nýlegar fregnir af þessu máli von um, að nokkur skriður sé að komast á það, og er þess fastlega að vænta, að forráðamenn höfuðborgarinnar láti ekki lengur dragast að ákveða stað í bænum fyrir þessa þýðingarmiklu starfsemi.

Hv. 1. þm. Vestf. sagði m.a. í ræðu sinni í fyrradag, að með lögum hefði verið veitt heimild til að ábyrgjast lán til þess að koma upp kjötfrystihúsum. Þetta mun rétt vera. Mér finnst þetta ekkert óeðlilegt, því að það hefur þá jafnframt verið veitt heimild til þess, að ríkið ábyrgðist lán fyrir þá, sem hafa komið upp fiskfrystihúsum. En mér er ekki kunnugt um það, að ríkið hafi nokkurn tíma tapað á ábyrgðum, sem það hefur gengið í fyrir lánum til kaupfélaganna til þess að koma upp kjötfrystihúsum. Og ég hygg, að hv. 1. þm. Vestf. geti ekki bent á dæmi um það.

Ég hef sýnt fram á það í þessum orðum, sem ég hef látið hér falla, að það er ekki rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði hér á þingi 12. des. í vetur, að allt hefði staðið í stað í helming aldar eða jafnvel síðan á 19. öld um útflutning á kjöti. Hæstv. ráðh. hefði aldrei átt að láta sér þessi orð um munn fara, því að þau eru ekki sannleikanum samkvæm. Hitt er gott að heyra, að hæstv. ráðh. hefur látið í ljós áhuga um það að vinna sem bezt að þessum málum í framtíðinni og reyna að finna nýja markaði erlendis fyrir íslenzkt kjöt. Hann ritaði grein um þetta í blað hér í borginni nú í febrúar og segir þar m.a., að hér sé mikið verk að vinna og mikið í húfi fyrir íslenzku þjóðina, og hann segir einnig, að ríkisstj. sé reiðubúin til þess að leggja fram fé til tilrauna og fyrirgreiðslu í þessu efni.

Í tillgr. segja hv. flm., að þeir vilji láta Alþ. skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að tilraunir verði gerðar um útflutning á dilkakjöti, þar sem reyndar væru nýjar aðferðir með pökkun og verkun á kjötinu og verði kannaðir til þrautar hugsanlegir markaðsmöguleikar fyrir kjötið. En það er ekki vel ljóst og kemur ekki fram í grg. með till., svo að ljóst sé, hvernig þeir vilja láta vinna að þessu. Þeir segja að vísu í grg., að þeim virðist, að nýja krafta þurfi að kalla fram í þessu máli. Er það e.t.v. stefna flm. og flokksbræðra þeirra, að ríkið eigi að fara að annast útflutning og sölu á kjöti, það eigi að setja upp kjötverzlun ríkisins? Ég veit það ekki. Það hefur ekki komið glöggt fram, hver stefna þeirra er í þessu. En ég hefði talið, að öðrum væri betur treystandi en ríkisstj. til að annast þessi viðskipti og þá fyrst og fremst þeim, sem mesta reynslu og þekkingu hafa í þessum efnum.

Hv. flm. segja einnig í grg., að erlendis hafi fengizt óviðunandi verð fyrir fryst kjöt t heilum skrokkum þrátt fyrir rétta gengisskráningu. Ég veit ekki, hvernig ber að skilja þessi ummæli. Það má e.t.v. segja, að bændur þyrftu að fá hærra verð fyrir kjötið en þeir hafa fengið, til þess að mæta framleiðslukostnaði. En það er líka hægt að lesa út úr þessum ummælum í grg. það, að hér sé verið að ásaka þá, sem hafa unnið að þessum útflutningi og sölu á kjöti erlendis, fyrir það, að þeir hafi unnið slælega að þeim málum og því fengið óviðunandi verð fyrir kjötið erlendis. En það hygg ég, að öllum, sem fara að kynna sér þessi mál, m.a. með því að lesa þá skýrslu, sem Helgi Pétursson framkvæmdastjóri birti í blöðum í vetur, verði ljóst, að verðið, sem fengizt hefur fyrir íslenzka dilkakjötið erlendis, er fyllilega sambærilegt við það verð, sem fengizt hefur fyrir bezta dilkakjöt framleitt í öðrum löndum. Því verður því ekki haldið fram með neinni sanngirni eða neinum rökum, að illa hafi verið að þessum málum unnið eða að íslenzka dilkakjötið hafi verið óhrjálegt, eins og kom fram í Morgunblaðsgreininni í vetur, því að þá hefði ekki tekizt að skipa því sæti á mörkuðum erlendis við hliðina á því bezta, sem framleitt er annars staðar á hnettinum af slíkri vöru.

Eins og ég hef þegar sagt, er ekki og hefur ekki verið nein einokun á þessu sviði. Enginn sérstakur aðili hefur einkarétt til þess að vinna að kjötsölu og hefur ekki haft. En áhuginn hefur verið fram að þessu mjög takmarkaður hjá öðrum en samvinnufélögum bændanna sjálfra.

Tillögumenn munu hafa lagt til, að till. færi til nefndar, og hún fer þangað sjálfsagt til athugunar. Ég tel æskilegt, að við framhaldsmeðferð málsins komi það glöggt fram, hvað flm. ætlast fyrir í þessum efnum, hvort þeir vilja, að ríkið komi upp kjötverzlun, eða hvort þeir vilja styðja markaðsleitir annarra fyrir kjötið. Og ef ályktun verður gerð um málið hér á þinginu, þá tel ég, að hún ætti að vera fyrst og fremst um það að skora á hæstv. ríkisstj. og veita henni heimild til að styðja með framlagi frá ríkinu markaðsleitir fyrir þessa vöru. Og eðlilegt verður það að teljast, að um þetta mál verði haft samráð við þá, sem mest hafa að þessum málum unnið undanfarið, og einnig framleiðsluráð landbúnaðarins, sem samkv. lögum fer með þessi mál.