16.04.1962
Sameinað þing: 56. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í D-deild Alþingistíðinda. (3199)

99. mál, raforkumál á Snæfellsnesi

Fram. (Jón Árnason):

Herra forseti. Á þskj. 155 er till. til þál. um rafmagnsmál á Snæfellsnesi og í Dalasýslu. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um, að hraðað verði tengingu raforkuvirkjana á Snæfellsnesi við aðalraforkukerfi landsins, og skal því lokið eigi síðar en árið 1966. Enn fremur skal hraða tengingu rafveitna í Dalasýslu við aðalorkuveitur landsins.“

Till. þessi er flutt af öllum þm. Vesturlandskjördæmis og fram komin, eins og segir í grg. fyrir till., vegna þess, hve brýn nauðsyn er að sjá þeim, sem þegar hafa fengið rafmagn, fyrir nægilegri orku, og ekki síður til þess, að fleiri njóti raforkunnar en nú á sér stað.

Svo sem alkunnugt er, er á Snæfellsnesi mjög mikið atvinnulíf, fiskimið góð og ræktunarlönd víðáttumikil. Þar hefur fólki fjölgað ört, enda mjög mikil og sívaxandi framleiðsla til sjós og lands.

Fjvn. leitaði umsagnar raforkumálastjóra nm þetta mál og fékk svar við því, þar sem hann gerir ráð fyrir, að þessum málum muni verða komið áfram á svipuðu tímabili og till. felur í sér, og nú nýlega hefur okkur verið skýrt frá, að samþykkt hafi verið að tengja suðursveitirnar við orkuveituna frá Ólafsvík, Fossárvirkjunina, og er það vissulega mikill áfangi, sem næst af því, sem hér er um að ræða.

Þessi þáltill. nær einnig til Búðardals. Þar er engin vatnsaflsstöð enn sem komið er og aðeins um dísilrafstöð að ræða í Búðardal, sem nær aftur til þess að sjá sveitunum þar í kring fyrir rafmagni. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að tengd verði býli í norðurhluta sýslunnar við virkjunina í Steingrímsfirði, og er það allt samkv. 10 ára áætluninni.

Fjvn. er á einu máli um að mæla með þessari till., og vænti ég, að þm. verði henni sammála.