14.02.1962
Sameinað þing: 35. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í D-deild Alþingistíðinda. (3204)

100. mál, jarðboranir að Lýsuhóli

Flm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 156 höfum við allir þm. Vesturlandskjördæmis flutt till. til þál. um jarðboranir að Lýsuhóli á Snæfellsnesi.

Á síðasta Alþingi voru sett lög um jarðhitasjóð og jarðboranir ríkisins. Í 3. gr. þeirra laga er gert ráð fyrir því, að ríkið láti á vegum jarðhitasjóðsins framkvæma jarðboranir eftir heitu vatni og gufu í rannsóknarskyni og til vinnslu víðs vegar um landið til að hagnýta jarðhitann með hitaveitu til almenningsþarfa og til ræktunar, raforkuveitu og iðnaðar. Í 4. gr. þessara laga er einnig gert ráð fyrir því, að ríkið geti látið framkvæma slíkar jarðboranir og samið um það við sveitarfélög eða einstaklinga, að greiðsla komi til, þegar farið er að hagnýta þann jarðhita, sem fæst með jarðborunum.

Till. okkar gerir ráð fyrir því, að fram fari á vegum jarðhitasjóðs borun eftir heitu vatni að Lýsuhóli á Snæfellsnesi. Á Lýsuhóli er kunnugt um, að nokkurt heitt vatn er í jörðu, en ekki er vitað, hversu mikið það er. Fyrir allmörgum árum fór þar fram borun eftir heitu vatni, en þá voru jarðboranir mjög á frumstigi hér og tæki þau, sem notuð voru við jarðborunina, voru litt nothæf, og reyndist framkvæmdin því að litlu gagni. Þó er vitað, að þarna er nokkurt vatnsmagn um 44–50 gráðu heitt. Það er mikill áhugi fyrir því vestra að fá úr því skorið, hvort þarna er um verulegt vatnsmagn að ræða af heitu vatni í jörðu eða eigi, og að hagnýta það, ef svo reynist vera sem menn dreymir um. Hins vegar er vitanlegt, að það sveitarfélag, sem þarna á hlut að máli, getur ekki staðið undir þeim kostnaði, sem þarf til að fá úr því skorið. Þar sem lítið er um jarðhita á Snæfellsnesi, þykir okkur réttmætt, að jarðhitasjóður komi til og láti framkvæma þessa borun, sem hér er um að ræða. Ef hins vegar heita vatnið reynist svo sem vonir standa til, mun hagnýting á því verða slík, að endurgreiðsla gæti komið til.

Það er von okkar, að hv. alþm. vilji standa að því að láta gera þessa tilraun á vegum jarðhitasjóðsins og afgreiði þess vegna þessa till. okkar á þessu þingi.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði vísað til fjvn. að lokinni þessari umræðu.