28.03.1962
Sameinað þing: 46. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í D-deild Alþingistíðinda. (3269)

104. mál, sjónvarpsmál

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Það er áberandi, að því er mér virtist, hvað veikar voru varnir hins rökvísa hæstv. utanrrh. í þessu máli. Mér hefur virzt það oft vera íþrótt líkast, hvað hann er góður varnaraðili, þó að veik sé aðstaða, en svo veik er aðstaða hans í þessu máli, að jafnvel bregzt honum þar gáfan, hún hrekkur ekki til.

Hann virtist vilja ræða um það sem aðalatriði, hvernig hefði verið ástatt, þegar upphaflegt sjónvarpsleyfi var veitt, og hann virtist jafnvel gefa í skyn, að þar hefði verið illa á málum haldið. En hins vegar vill hann þó færa í aukana það leyfi, sem veitt var, og hafa það fyrir grundvöll í sínu starfi. Hann virðist byggja t.d. sérstaklega á því, að ekki hefðu fyrirfundizt möguleikar á því að inniloka sjónvarp 1954–55 og þess vegna hefði verið gefið út leyfi, eins og það var orðað 7. marz 1955, en hleypur yfir það, að nú eru skilyrði fyrir hendi til þess að inniloka sjónvarp, tæknilega fullkomin skilyrði og reynsla um það víða.

Annars virðist mér það einkennilegt, að hæstv. ráðh. vill koma því á mig að hafa sagt það, að sjónvarpsleyfið hafi verið gefið út í nóv. 1954, hafi þá verið formlega veitt. Ég las þó upp í ræðu minni áðan endanlega leyfisbréfið frá 7. marz 1955, en sýndi jafnframt fram á, að grundvöllurinn fyrir því leyfi var lagður í nótu frá 26. nóv. 1954. Hæstv. ráðh. sagði, að ekkert væri nema leyfið í bréfinu frá 7. marz 1955. En ég las þó upp bréfið, sem er í tveim liðum, í íslenzkri þýðingu, og ég hef það hér í höndum á frummálinu í þessum tveim liðum, og ef hæstv. ráðh. vill rengja það, sem ég hef sagt um, að vitnað hafi þar verið til þess, sem áður hafði verið rætt í málinu, þá þykir mér hann ganga nokkuð langt. En það gerði hann þó raunar í ræðu sinni. En ég vil gjarnan gefa honum tækifæri til þess að leiðrétta það. Grundvöllurinn fyrir leyfinu var lagður í nótum milli rn. og varnarliðsins. Sú nóta, sem er efnismest, er nótan frá 26. nóv., þess vegna las ég hana og þess vegna er vitnað í hana í till. En þyki nú einhverjum, að það væri formlegra að vitna við afgreiðslu málsins í bréfið frá 7. marz 1956, þá er auðvelt að laga það í n., en ég hef lagt það til, að málinu verði vísað til nefndar.

Hæstv. utanrrh. vildi láta liggja að því, að þeir, sem fóru af Íslands hálfu með málin 1954, hefðu uppgefizt á því að gera kröfur til varnarliðsins um sjónvarpstakmörkun vegna þess, að tæknilegur möguleiki hafi ekki verið fyrir hendi, og einnig skildist mér vegna þess, að svo torveldlega hefði gengið með samkomulag um útivistarleyfi varnarliðsmanna utan vallarins. Ég veit ekki betur, eftir því sem mér hefur verið sagt, en að frá þeim málum hafi verið gengið vorið 1954, eða nokkrum mánuðum áður en sá samningagrundvöllur var lagðir um sjónvarpið. sem kemur fram í bréfinu, sem ég hef mest vitnað til, frá 26. nóv. 1954. Þess vegna álit ég, að þetta tvennt hafi ekki blandazt saman.

Hæstv. ráðh. lýsti þessum málagangi nú þannig, eins og varnarliðið hefði algerlega farið, sinna ferða að því er snertir reglurnar um útivistir utan vallarins hjá setuliðinu, og hann sagði: Varnarliðið setti sjálft reglur, sem voru algert leyndarmál. — Ég veit ekki betur en þessar reglur hafi verið niðurstaðan af viðræðum, kannske nokkuð erfiðum og ströngum, sem áttu sér stað milli stjórnvalda og þeirra, sem fóru með þessi mál fyrir hönd varnarliðsins. Og að kalla það algert leyndarmál, eins og hæstv. utanrrh. gerði, stenzt ekki, m.a. ekki af því, sem hann sagði sjálfur, vegna þess að hann sagði, að lögreglustjórinn í Reykjavík hefði fengið þessar reglur. Þetta sýnir aðeins það, hvað málsvörnin er veik, að jafnvel fatast þessum slynga varnarbaráttumanni, með því að hann kallar það algert leyndarmál, sem lögreglufulltrúi veit. En auðvitað vissu reglurnar miklu fleiri.

Það skiptir satt að segja ekki ýkjamiklu máli, hvað liðni tíminn ber í skauti sínu, þegar við erum að ræða um það, sem á að gilda fyrir framtíðina. Þegar við erum að ræða sjónvarpsstækkunina, þá skiptir það framtíðina mestu máli. Og það er skylda okkar að finna bót á því, að um þetta sjónvarp setuliðsins, sem öllum kemur saman um, — ja, ég veit ekki um hæstv. utanrrh., — að sé mjög hættulegt fyrir íslenzka menningu, ef það nær inn á íslenzk heimili, séu settar þær reglur, sem binda það algerlega sem dvalarsvæðistæki. Og þegar svo er komið, að háskólabæir erlendis hafa lokað sjónvarp, þá er engin ástæða að segja lengur, að það sé ekki hægt að þráðbinda þetta sjónvarp, og það er engin ástæða til þess fyrir þá, sem fara með málin fyrir hönd Íslendinga, að telja, að það eigi að hlífa Bandaríkjunum við því að leggja í þann kostnað, sem slíku sjónvarpi fylgir.

Ég tel þess vegna, að það eigi að afturkalla þetta hömlulausa leyfi, sem veitt var til stækkunar á stöðinni, og þó að hæstv. utanrrh. segi, að þessi stækkun skipti litlu máli, þá eru til fróðir menn í þessum efnum, sem segja allt annað. Og víst er það, að eins og nú standa sakir, þá er jafnvel þessi stöð, sem utanrrh. sagði að væri nú sama sem ónýt, svo sterk, að hún teygir sig hingað til Reykjavíkur. Það má vera, að það sé af því, að hún sé ekki í sama ástandi og hún var, þegar hún var sett upp, að því leyti, að það hefur ekki verið staðið við þann samning að skyggja fyrir útsendingargeislana, eins og ætlazt var til. Flogið hefur fyrir, og ég hef það raunar eftir manni, sem fylgist nokkuð vel með í þessum málum, að sá skermur, sem settur var upp — og nefndur hefur verið á vissan hátt í þessu bréfi — til þess að skyggja af, hann sé úr sögunni, hann hafi í fárviðri laskazt og ekki verið settur upp aftur. Ef það er rétt, hefur hæstv. utanrrh. sannarlega verið þar illa á verði, ef skermurinn hefur verið látinn falla niður fyrir fullt og allt.

Mér liggur við að halda, eftir því sem hæstv. utanrrh. talaði, að hann hafi þá skoðun, að það skipti ekki máli, þó að hersjónvarpið komi inn í það, sem ég vil kalla menningarhelgi Íslands. Þetta minnti mig, þegar hann var að tala, hvernig hann hagaði orðum, á frásögnina í Paradísarheimt Halldórs Kiljans, — minnti á það, hvernig konuvesalingurinn í Hlíðum undir Steinahliðum tók því, þegar Björn hinn ríki kom með stóð sitt og beitti túnið. Hún sagði eitthvað á þá leið: „Hann Björn minn borgar fyrir sig.“ Hún gerði meira en að lána honum túnið. Hún átti líka dóttur, sem hún lét þjóna honum til sængur. Það er líka hliðstætt einhverju, sem gerist í þessum málum hjá okkur. Svo fóru nú þarna leikar, að því er túnið snertir, — ég ætta ekki að tala um hitt, — að þegar bóndinn Steinar kom heim að Hlíðum, þá var túnið komið í örtröð, algerlega í örtröð, garðarnir hrundir og þetta, sem var heimilinu dýrmætast, töðuvöllurinn, var orðið hagi „fyrir ókunnugt fé.” Ég vil vænta þess af hæstv. utanrrh., að hann skoði hug sinn, áður en hann vinnur að því að gera íslenzka menningarhelgi að nokkurs konar haga fyrir annarlega þjóð. Og ég vil vænta þess, að þó að honum hafi e.t.v. ekki fallið allt, sem ég hef sagt um forsögu þessa máls, þá styðji hann að því, að till. verði samþ., og vinni, meðan hans starfstími er á þessu sviði, ötullega að því að tryggja íslenzka menningarhelgi fyrir hersjónvarpinu á Keflavíkurflugvelli. Og mér finnst ekkert lítilmótlegt í því fyrir hann — síður en svo — að reyna að bæta úr því, sem mistekizt hefur. Það er skylda hvers manns að gera það, og það vex hver maður af því að gera það.