01.11.1961
Sameinað þing: 11. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í D-deild Alþingistíðinda. (3308)

31. mál, tjón af völdum vinnustöðvana

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Flm. þessarar till., hv. 9. landsk. þm., vill láta fela hagstofunni að reikna út eða áætla tjón af völdum vinnustöðvana, verkfalla og verkbanna. Skal hagstofan samkv. því reikna þetta tjón út á hverju ári og sérstaklega ekki sleppa árinu í ár, en niðurstöðurnar skulu síðan birtar almenningi opinberlega jafnharðan. Þetta felst í till., sem hér liggur fyrir. Hins er ekki getið í sjálfri till., í hvaða skyni þetta skuli gert, en það kemur fram í grg. og eins í því, sem hv. fim. sagði nú hér áðan. Þar segir, að þjóðin þurfi að fá glögga vitneskju um það tjón, sem af vinnustöðvunum hlýzt, til þess að geta metið það réttilega til frádráttar þeim ávinningi eða kjarabótum, sem þær færa í aðra hönd. Það á m.ö.o. að gefa þjóðinni kost á að setja hér upp reikningsdæmi, og þetta reikningsdæmi er frádráttardæmi. Hagstofan á að láta almenningi í té annan liðinn í þessu dæmi, í þessum frádrætti. Um útreikning á fyrri liðnum í dæminu, kjarabótunum, sem tapið á að dragast frá, er ekkert rætt, hvorki í till. né í grg. né í því, sem hv. flm. sagði hér áðan. Sú stærð virðist gefin af sjálfsdáðum hverju sinni og ekki þurfi heilabrota við um það efni. Þá stærð á þjóðin líklega að taka hjá sjálfri sér eða upp úr dagblöðunum, og fái hún aðeins taptöluna frá hagstofunni, þá getur hún reiknað dæmið út örugglega — eða þannig skilst mér að hv. flm. líti á málið.

Nú veit ég, að hv. 9. landsk. þm. er mjög góður skákmaður, en hvort hann er jafnslyngur reikningsmaður, það er mér ókunnugt um. En hvað sem því líður, finnst mér það á skorta í þessari till., að sama óhlutdræga stofnunin, hagstofan, skuli ekki eiga að áætla eða reikna út báða liði frádráttardæmisins, heldur aðeins annan þeirra. Ég er þeirrar skoðunar, að þær kjarabætur eða sá ávinningur, sem verkfall færir launþegum, liggi engan veginn alltaf í augum uppi, sízt í byrjun, og ég álit, að það sé þannig ekki auðvelt að reikna hann út í krónum og aurum. Það má stundum gera það vafalaust, en ekki nærri alltaf. Og mesti ávinningurinn af verkföllum getur verið fólginn í því, sem aldrei er unnt að meta til fjár. Ég vil nefna tvö dæmi eða þrjú til þess að skýra þetta betur.

Árið 1913 var háð verkfall í Reykjavík. Ég held, að það hafi verið fyrsta verkfall Dagsbrúnar. Danskur verktaki vildi ekki viðurkenna 10 stunda vinnudag, sem þá hafði verið nýsamið um hér. Hann heimtaði 12 stundir fyrir dagvinnukaup. Þetta verkfall stóð í 5 daga og náði til 100 verkamanna, sem þá fengu 30—35 aura í tímakaup. Verkamenn sigruðu í þessu verkfalli. Ef við reynum nú að reikna tjónið af þessu, hvernig litur þá dæmið út? 5000 vinnustundir fóru forgörðum og um eða yfir 1500 kr. töpuðust í vinnulaunum, en það var ekki lítið fé þá. Þetta er nú í frádráttinn, þetta gat hagstofan gefið upp. En hver var ávinningurinn? Hann var lítils háttar hækkun í daglaunum, ef sá danski hefur þá látið vinna nokkra eftirvinnu, ella varð ávinningurinn enginn í krónum og aurum. Útkoman hefði þannig orðið, að öllum líkindum, stór mínus í dálkum Morgunblaðsins. Enda þarf ég varla að taka það fram, að dagblöðin tóku yfirleitt málstað hins danska verktaka í þá daga, svo að dæmið hefði örugglega verið sett upp þannig opinberlega. Nei, ávinningurinn af þessu fyrsta verkfalli var sá fyrst og fremst, að ofbeldi við verkamenn varð afstýrt, að nýfengnum sigri þeirra tókst ekki að breyta í ósigur og að þeir sýndu og sönnuðu alþjóð, hvers samtakamátturinn er megnugur. Þessi ávinningur verður áreiðanlega seint metinn til fjár.

Annað dæmi: Eitt sinn á kreppuárunum reyndi hlutafélagið Kveldúlfur að nota sér atvinnuleysi í Vestmannaeyjum og braut taxta verkalýðsfélaganna og lækkaði kaupið. Þessu var svarað með sigursælu verkfalli. Hagstofan hefði áreiðanlega getað reiknað út vinnutapið og skerðinguna á verðmæti útflutningsafurðanna. En það hefði orðið erfiðara að reikna út ávinninginn af þessu verkfalli. Hann var m.a. sá, að sennilega var með þessu verkfalli komið í veg fyrir víðtæka kauplækkun um gervallt landið.

Þriðja og síðasta dæmið skal ég nefna. Fyrir mörgum árum stóð Félag bifvélavirkja í 5 vikna verkfalli í því skyni einu að knýja atvinnurekendur til að viðurkenna félagið sem samningsaðila. Hér varð mikið vinnutap í krónum, en ekki einn eyrir í kauphækkun. — Góð niðurstaða til upplýsingar almenningi um skaðsemi verkfalla. — Ávinningur var samt þarna og hann var augljós, en það var erfitt að reikna hann, en ávinningurinn var fyrst og fremst sá af þessu verkfalli, að með því sköpuðu bifvélavirkjar sér aðstöðu, sem síðan hefur gert þeim fært að berjast fyrir kjarabótum, á öllum þeim árum, sem síðan eru liðin.

Ég skal ekki telja upp fleiri dæmi. Verkföll hafa reynzt launþegum ómetanlegt tæki í sókn þeirra til bættra lífskjara og meiri menningar. Þau hafa langoftast verið til góðs fyrir verkfallsmenn og þó einkum fyrir launþegastéttirnar í heild og fyrir alþjóð, að mínum dómi. Ég hygg, að hvenær sem frádráttarliðurinn er reiknaður út og hvort sem hann er stór eða smár, hafi hann hverfandi litla þýðingu hjá kjarabótunum og öðrum ávinningi í sambandi við verkföllin fyrr og síðar. En ég skal taka það fram, að mín vegna má gjarnan reikna þetta tap út árlega.

Það er fróðlegt að lesa grg., sem þessari till. fylgir. Þar er svar við því, til hvers á að nota þessa væntanlegu útreikninga. Ég þykist geta lesið það út úr lokaorðum grg., að hv. 9. landsk. þm. gefi það þar í skyn, að þessa útreikninga eigi að nota sem lið í öflugri rannsóknar- og upplýsingastarfsemi, en sú starfsemi á að vera eitt ráðið til að draga úr því tjóni, sem vinnustöðvanir valda, m.ö.o.: þessi upplýsingastarfsemi á að verða til þess að afstýra verkföllum í framtiðinni sem mest. Á þennan veg er þetta orðað í grg.: „Öflug rannsóknar- og upplýsingastarfsemi.” En er það orðalag í munni stjórnmálamanns ekki nokkuð sama og öflugur áróður? Og þá erum við hér líklega komin að kjarna málsins, höfuðtilganginum með till. þessari. Hagstofan á að reikna út það tjón, sem leiðir af hverju verkfalli, og útreikninginn á síðan að nota einhliða til þess að hræða launþega frá því að beita sínu eina vopni, verkfallsvopninu. Í höndum atvinnurekenda og þeirra stjórnmálamanna, sem vinna að þeirra hagsmunum, yrði þetta kærkomið baráttutæki, og verður þá skiljanlegt, að ekki er hirt um, að hagstofan áætli ávinninginn af verkföllunum, því að það mundi óneitanlega slæva þetta áróðursvopn allmjög. Þá fullyrðingu, að verkfall borgi sig ekki, hafa málpípur atvinnurekenda notað í hverju einasta verkfalli á Íslandi frá fyrstu tíð. Nú skal reynt að styðja við bakið á þeirri veiku fullyrðingu með hagstofutölum, er sýna tapið. En um hagnaðinn skal engu slegið föstu frekar nú en hingað til. Áætlun um hann skiptir ekki máli í augum þeirra, sem endilega vilja fá þá útkomu, að verkfali borgi sig ekki.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um þessa till. nú, en vænti þess, að hv. nefnd, sem hana fær til athugunar, skoði hana ofan í kjölinn og einnig í því ljósi, sem ég nú hef reynt að bregða upp.