15.11.1961
Sameinað þing: 15. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í D-deild Alþingistíðinda. (3340)

47. mál, innlend kornframleiðsla

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Hv. 1. flm. og frummælandi hélt hér svo rökfasta ræðu og greinargóða um þetta málefni, að það er í raun og veru óþarfi af mér að koma hér upp, því að hann tók flest það fram í málinu, sem grundvallarþýðingu hefur. En ég vildi leyfa mér samt sem áður að minna á það, að tilraunir með kornrækt hafa farið fram hér á Íslandi um þriggja áratuga skeið ag yfirleitt hafa þessar tilraunir borið góðan árangur. Ég vil enn fremur minna á annað, sem hefur stórkostlega þýðingu, þegar menn hugsa um þessa hlið landbúnaðarins eða þennan atvinnuveg, að það hefur gerzt á s.l. 20 árum í landi okkar, að meðalhitinn á Íslandi hefur hækkað um 1 stig á s.l. 20 árum. Þetta orsakar það, að við getum verið bjartsýnir á framtíð kornræktar í landinu. Ef meðalhitinn hefði aðeins lækkað, þótt það hefði ekki verið nema um svo sem 1/2 stig, þá hefði sennilega verið til lítils að hugsa til kornyrkju í landinu. En nú er það skemmtilega fyrirbrigði að gerast, að meðalhitinn í landi okkar er að hækka, og þess vegna getuan við vænzt þess, að ræktunarstarf eins og t.d. kornrækt geti átt sér góða og glæsilega framtíð fyrir höndum í landi okkar.

En þá þarf þessi atvinnuvegur vissulega, eins og hv. flm. og frummælandi ræddi um, að búa við þau skilyrði, að hann geti þrifizt, búa við þau skilyrði af öðrum ásteeðum, hafa samkeppnisaðstöðu við erlendar kornvörutegundir sams konar, sem fluttar eru inn í landið. Og þess vegna finnst okkur flm., að fyrsta skilyrði til þess sé það, að þessi innlenda framleiðsla geti notið sömu kjara og erlent korn, sem flutt er inn, og til þess er nú till. flutt. Ég vil leggja alveg sérstaka áherzlu á þetta og það með, að við, sem sífellt erum í vandræðum af gjaldeyrisleysi og þurfum að horfa í hvern eyri, við eigum að nýta sem bezt alla þá möguleika, sem fyrir hendi eru til framleiðslu í landinu sjálfu, á hvaða sviði sem það er, sem getur hvort tveggja í senn aukið atvinnu og sparað okkur erlendan gjaldeyri. Og ég er sannfærður um það t.d. í sambandi við kornræktina, að verði það svo, að íslenzkt náttúrufar versni ekki frá því, sem nú er, heldur kannske haldi áfram að batna, eins og verið hefur undanfarna tvo áratugi, að meðalhitinn hefur vaxið, þá á þessi atvinnurekstur mikla framtíð fyrir höndum, og ég tel, að þá muni rísa upp bændur í landinu, sem verði eingöngu kornyrkjubændur, eins og t.d. á síðustu áratugum hafa risið upp þó nokkuð margir bændur í þessu landi, sem eru eingöngu garðyrkjubændur og stunda ekkert annað en garðyrkju og virðist ekki farnast verr en öðrum við þann atvinnuveg.

Ég stóð nú upp og kom hér í ræðustólinn eingöngu til þess að undirstrika það, sem frummælandi sagði, ag til þess að vekja athygli á þessum vissu atriðum, sem ég hef nefnt í sambandi við kornræktarmálin.