29.11.1961
Sameinað þing: 18. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í D-deild Alþingistíðinda. (3366)

63. mál, héraðsskóli á Snæfellsnesi

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Till. þessi um héraðsskóla á Snæfellsnesi var flutt seint á síðasta þingi, var þá nokkrum dögum fyrir þingslit vísað til nefndar og varð því ekki útrædd. Hún er hér flutt óbreytt öðru sinni.

Tilgangurinn með því að flytja þessa till. er tvíþættur. Í fyrsta lagi er henni ætlað að benda á, að tímabært sé orðið að halda áfram byggingu héraðsskóla í landinu. Héraðsskólahreyfingin var einn af merkilegustu þáttunum í skólamálum okkar á nokkrum síðustu áratugum, en nú hefur bygging slíkra skóla að mestu fallið niður. Hins vegar er reynslan sú við þá héraðsskóla, sem fyrir eru, og raunar við aðra heimavistarskóla unglinga í sveit, sem reknir eru af einstaklingum eða samtökum, að aðsókn að slíkum skólum er mjög mikil og vaxandi. Er talið, að þeir unglingar skipti hundruðum, sem gjarnan vildu fá rúm í slíkum skólum, en hafa ekki getað fengið það. Þörfin fyrir heimavistarskóla í sveit fyrir unglinga er því augljós, og mér virðist, að allar höfuðröksemdir fyrir héraðsskólahreyfingunni, eins og hún var á sínum tíma, séu enn í fullu gildi og því ástæða til að leitast við að byggja þessa grein skólakerfisins upp áfram.

Í öðru lagi er með tillögunni bent á mjög æskilegan stað fyrir einn slíkan skóla á Snæfellsnesi. Færa má fram ýmsar röksemdir fyrir því, að þar væri slíkur skóli vel staðsettur og þörf fyrir hann mikil, að öllum öðrum stöðum ólöstuðum. Þarna eru hentugir staðir fyrir slíkan skóla, og á vestanverðu Snæfellsnesi eru þrjú stór og vaxandi þorp, þar sem unglingaskólar eru enn engir.

Herra forseti. Ég vil leggja til, að þessari tillögu verði vísað til hv. allshn.