06.12.1961
Sameinað þing: 19. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í D-deild Alþingistíðinda. (3426)

89. mál, upphitun húsa

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt með tveimur öðrum þingmönnum Alþýðubandalagsins till. til þál. á þskj. 128 um rannsókn á aðferðum til upphitunar húsa. Lagt er til í þessari þáltill., að Alþingi kjósi fimm manna nefnd, sem taki að sér að rannsaka þetta efni sérstaklega og það með sérstöku tilliti til þess, hvort ekki muni reynast hentugt eða hagkvæmt fyrir okkur að hita meir hús okkar upp með rafmagnshitun heldur en gert hefur verið fram til þessa.

Með þessari þáltill. fylgir ýtarleg grg. um þetta mál, sem æði oft áður hefur verið minnzt á og nokkuð um fjallað. Ég sé ekki ástæðu til að fara að rekja hér ýtarlega það, sem fram kemur í grg., en vildi víkja að nokkrum öðrum almennum atriðum varðandi efni tillögunnar.

Við vitum, að hitun íbúðarhúsa er alltaf að verða meira og meira vandamál fyrir okkur Íslendinga. Hvort tveggja er, að íbúðarhúsum fjölgar eðlilega mjög og þau stækka með batnandi lífsafkomu, en einnig er hitt, að kröfur almennings til upphitunar hafa aukizt alveg stórkostlega frá því, sem áður var. Við eyðum því alltaf ár frá ári hærri og hærri fjármunum til upphitunar íbúðarhúsa í landinu.

Það leikur auðvitað enginn vafi á því, að það á að stefna að því að nota jarðhitann til húsahitunar í landinu, þar sem hann er nærtækur, og að sjálfsögðu verður unnið að því eins og tök eru á, og mætti þó gera í þeim efnum allmiklu betur en gert hafur verið á þeim svæðum á landinu, þar sem auðvelt ætti að vera að nota jarðhitann til húsahitunar. En víða á landinu háttar þannig til, að það er ekki hægt að ná til jarðhita, og þá hefur ekki verið um annað að ræða til húsahitunar en að nota olíu til brennslu eða þá kol.

Reynslan hin síðari ár hefur sýnt það, að kolanotkunin er allmiklu óhagkvæmari og í rauninni dýrari, þegar á allt er litið, heldur en olíunotkunin, og því hefur notkun olíu farið stórlega í vöxt. En þrátt fyrir það, að ráðizt hefur verið í allmargar myndarlegar raforkuvirkjanir, vatnsaflsvirkjanir í landinu, þá hefur tiltölulega lítil aukning orðið á því að hita upp hús með raforku. Því hefur allajafna verið haldið fram, að það þætti ekki borga sig að virkja til þess að hita upp híbýli manna á þann hátt, og verðlag hefur verið sett það hátt á raforku, sem gengið hefur til húsahitunar, að aukning á hitun á þann hátt hefur orðið sáralítil. En þær raddir hafa gerzt háværari nú eða komið skýrar og betur fram nú upp á síðkastið, að hér væri ekki að öllu leyti rétt á haldið. Þegar borinn er saman kostnaður við upphitun húsa með olíukyndingu og raforku, þá dugir vitanlega ekki að bera einvörðungu saman það verðlag, sem ákveðið hefur verið á raforku til húsahitunar, og það verðlag, sem á olíunni hefur verið. Það verður einnig að taka tillit til þess, þegar málið er athugað frá þjóðfélagslegu sjónarmiði, að dreifingarkostnaðurinn á olíunni til þeirra, sem þurfa að nota hana til upphitunar húsa víða úti í dreifbýli landsins, er alveg gífurlega mikill. Eigi að vera hægt að hita upp híbýli manna, eins og kröfur standa nú til, úti í sveitum landsins, þá verður að vera bílfært heim á bæi svo að segja alla daga ársins, og þá verður oft að leggja í mikinn kostnað til þess að koma olíunni heim á bæina. Það er enginn vafi á því, að dreifingarkostnaðurinn á olíu í þessum efnum er gífurlega mikill og hefur farið vaxandi nú síðari árin, eftir að menn fóru að gera kröfur um það að fá olíuna, til þess að hægt væri að kynda upp íbúðarhúsin úti í dreifbýlinu á þann hátt, sem menn gera nú kröfur til.

Í samanburði hins raunverulega kostnaðar á milli upphitunar með rafmagni og aftur með olíukyndingu verður því að taka fyllilega tillit til þess, hvað við leggjum mikinn kostnað í það að halda vegum opnum, halda við vegum og í mannafla og í kostnaði við bifreiðar, sem verða að aka olíunni út til manna vítt úti um dreifbýlið. Einnig er svo það að athuga í þessum samanburði, að það þarf að taka fullt tillit til þess, hvaða möguleikar eru hjá þeim raforkuverum, sem annars er ráðizt í að koma upp, til þess að nýta raforku þeirra í sambandi við húsahitunina betur en tekst að nýta orkuna á þann hátt, sem orkuverin hafa verið rekin fram til þessa, en þá hefur rekstur þeirra fyrst og fremst byggzt á almennri heimilisnotkun og á notkun smáiðnaðar. Þessir aðilar taka fyrst og fremst sína orku að deginum til og í rauninni aðallega á vissum tímum dagsins, en hins vegar er sáralítið notað af raforkunni yfir nóttina, og flutningakerfið, sem annars er ráðizt í að koma upp í sambandi við dreifingu raforkunnar, er ekki notað nema að litlu leyti.

Þetta þarf allt saman að taka vel með í reikninginn, þegar samanburður er gerður á því, hvort stefna beri að því í vaxandi mæli á komandi árum að hita upp híbýli manna með raforku fremur en að halda við olíukyndingunni, sem hefur verið að ryðja sér til rúms hin síðari ár.

Það er auðvitað enginn vafi á því, að það getur verið nokkur munur á því í þessum samanburði, hvort um er að ræða húsahitun í kaupstöðum, fjölbyggðum kaupstöðum, og í vissum þorpum eða aftur í sveitum eða í dreifbýll. Kostnaðurinn við dreifingu t.d. á olíu er allt annar í dreifbýli en hægt er þó að koma við í stærri kaupstöðum. Aftur á móti vitum við, að dreifingarkostnaðurinn á raforkunni er sérstaklega lítill, þar er fyrst og fremst um stofnkostnað að ræða, en um daglegan eða árlegan kostnað er þar ekki að ræða nema að litlu leyti borið saman við hinn gífurlega mikla kostnað, sem fylgir dreifingu eða útkeyrslu á olíu og öðrum brennsluefnum.

Við flm. þessarar tillögu lítum svo á, að það sé nauðsynlegt að fá fram ýtarlega athugun á þessum málum. Við álítum, að þær rökstuddu skoðanir, sem komið hafa fram hjá ýmsum þeim, sem ættu að þekkja mjög vel til í þessum efnum, þar sem því er beinlínis haldið fram, að upphitun húsa með raforku ætti að vera frá sjónarmiði Íslendinga miklum mun hagkvæmari en upphitun með olíu, þegar á allt er litið, — við álítum, að það beri að fá úr þessu skorið með ýtarlegri athugun og það eigi að leggja fyrir Alþingi greinargerð um þá athugun sem fyrst. Það er vitanlega mikið þ,jóðhagslegt vandamál, hvernig leysa á á komandi árum þetta atriði, sem hér er rætt um. Hér er um það að ræða, hvort við getum raunverulega sparað okkur árlega stórar fúlgur í erlendum gjaldeyri, því að ef við getum horfið að verulegu leyti frá notkun á olíu til upphitunar á húsum og byggt í auknum mæli á upphitun húsa með raforku, þá mundi það að sjálfsögðu spara okkur mikinn erlendan gjaldeyri. Það á einnig að hafa það í huga í þessum efnum, að reynslan er sú af rafvirkjunum, bæði til þessarar orkunotkunar og annarrar, að þar er fyrst og fremst um að ræða mikinn stofnkostnað og virkjanirnar eru allþungar fyrstu árin, en síðan lækkar kostnaðurinn raunverulega, borið saman við annað verðlag. Hins vegar hefur þróunin verið sú, að verð á olíu og öðrum brennsluefnum virðist aftur á móti fara jafnt og þétt hækkandi, og það má því fyllilega búast við því, að það verðtag á olíu, sem lagt er nú til grundvallar í þessum samanburði, verði orðið allt of lágt eftir nokkur ár, ef miða má við reynsluna í þessum efnum. Einnig er það, að flutningsgjöld af olíum yfir hafið hingað norður til Íslands fara jafnt og þétt hækkandi, svo að það má slá því nokkurn veginn föstu að olían muni vera allmiklu dýrari hér eftir tuttugu ár en hún er í dag. En hins vegar er líklegt, að sé tekið tillit til þess eða ef rétt þætti að fara til í húsahitun með raforku og tillit væri tekið til slíks í sambandi við byggingu nýrra raforkuvera nú, að nokkur hluti orkunnar ætti að notast í því skyni, þá má búast við því, að þó að stofnkostnaður virkjunarinnar yrði allþungur nú í bráð og kannske nokkru óhagstæðara fyrir upphitunina í samanburðinum við verðlagið í dag, þá yrði hins vegar hér um allhagstæðan hitunarkostnað að ræða aftur eftir 20 ár. Öll þessi atriði þurfa vitanlega að takast til athugunar í sambandi við þetta mál.

Ég skal svo ekki ræða þetta frekar, en vænti þess, að það efni, sem hér er drepið á, fái hér góðar undirtektir og að Alþingi fallist á að kjósa þá nefnd til rannsóknar á þessu máli, sem lagt er til að kosin verði samkvæmt þessari till. Ég óska svo eftir því, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn. til athugunar.