01.02.1962
Sameinað þing: 32. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í D-deild Alþingistíðinda. (3434)

92. mál, hveraorka

Björn Jónsson:

Herra forseti. Á þskj. 137 höfum við tveir þm. Alþb. leyft okkur að flytja till. til þál. um rannsókn á nýtingu hveraorku til fóðurframleiðslu. Fyrri flm. till. situr nú ekki lengur á þingi, og vil ég því leyfa mér að fara um till. nokkrum orðum. Till. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta hið fyrsta rannsaka, hvort hagkvæmt sé að nýta hvera- og jarðhitaorku, sem fyrir hendi er í Reykjahverfi í Suður-Þingeyjarsýslu, til fóðurframleiðslu í sambandi við ræktanleg landssvæði, sem þar eru nálæg:

Eins og fram kemur í till. og grg. þeirri, sem henni fylgir, háttar svo til í Reykjahverfi í Suður-Þingeyjarsýslu, að þar fara saman þau náttúrugæði, sem annars vegar eru fólgin í mikilli, óbeizlaðri hveraorku og hins vegar í viðáttumiklum landssvæðum, sem eru sérstaklega vel fallin til ræktunar í stórum stíl. Þar er jörð frjósöm og þarfnast lítillar eða jafnvel engrar framræslu, til þess að hún verði ræktuð. Þetta hefur leitt hugi manna þar norður frá að þeim möguleikum, sem á því kynnu að vera að nýta þessi náttúrugæði samhliða og þá einkanlega með þeim hætti að taka mikið land til ræktunar og nýta síðan orku hveranna til að vinna gras ræktarlandanna í heymjöl, heyköggla eða aðra svipaða framleiðslu á fóðri fyrir búfé. Nokkur framleiðsla hefur verið tvö síðustu árin á slíku fóðri í tveim litlum heymjölsverksmiðjum á Suðurlandi, og hef ég fyrir satt, að starfsemi þeirra hafi mjög svarað vonum manna og gefið góða raun, þótt ég hafi hins vegar ekki kunnugleika á að fjölyrða um það. En það mun nú vera svo komið, að framleiðsla þessara verksmiðja tveggja fullnægi innanlandsþörfinni fyrir slíkt fóður til hænsna- og svínabúa, en enn þá mun ekki hafa verið teljandi notað af framleiðslunni til blöndunar á innfluttu kjarnfóðri, en það mun vera talið, að blanda megi slíkt fóður með allt að l/3 hluta af heymjöli og verði blandan þó ekki lakari en það kjarnfóður, sem algengast er að nota. Það virðist því ekki fráleitt að hugsa sér, að innanlandsmarkaður þoli verulega framleiðsluaukningu á þessu sviði, og þá ekki sízt ef það þætti hagkvæmt að nota hana til þess að svara t.d. þörfum einstakra byggðarlaga, sem illa verða úti um heyöflun í slæmu árferði. Þá virðist einnig, að það væri fullrar rannsóknar vert, hvort hér getur ekki orðið um arðbæra útflutningsframleiðslu að ræða, ef takast mætti að þrýsta framleiðslukostnaði niður við sérstaklega góð skilyrði. Í því efni hlýtur orkuþörf verksmiðjanna og kostnaður við framleiðsluna að skipta mjög verulegu máli. Ef athuganir þættu ótvírætt benda til, að notkun hveraorku gæti orðið til verulegs sparnaðar á þessum þætti framleiðslukostnaðarins, þá þykir mér líklegt, að varla yrði fundinn öllu hentugri staður fyrir framleiðslu af þessu tagi heldur en í Reykjahverfi. Þar er, eins og ég áður sagði, til staðar nægilegt landrými og auðræktað, gnægð af orku og stutt er þaðan til ágætrar útskipunarhafnar og einnig til blómlegustu landbúnaðarhéraða á Norðurlandi.

Ég skal að sjálfsögðu ekkert um það fullyrða að svo komnu máli, hvort sú athugun, sem till. gerir ráð fyrir, kynni að leiða til jákvæðrar niðurstöðu eða ekki. En hugmyndin, sem liggur að baki henni og er í fyrstu fram komin frá frændum þar nyrðra, virðist a.m.k. í leikmanns augum vera allar athugunar verð, og þess vegna er hún flutt hér í formi þáltill. En vissulega væri það mjög ánægjulegt, ef hægt væri að finna nýjar og færar leiðir til þess að nýta, þótt ekki væri nema lítið brot af þeim miklu, ónotuðu viðáttum, sem þarna eru fyrir hendi og gætu áreiðanlega skilað þjóðinni miklum arði, ef rétt væri á haldið.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.