14.02.1962
Sameinað þing: 35. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í D-deild Alþingistíðinda. (3453)

105. mál, landþurrkun

Flm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt fjórum öðrum hv. alþm. að flytja till. þessa til þál., sem hér er til umr. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að lána vélasjóði ríkisins allt að 3 millj. kr. vaxtalaust til að endurlána búnaðarfélögum, ræktunarsamböndum og ræktunarfélögum, sem hug hafa á því að hefja skipulagða framræslu á félagssvæðum sínum:

Í grg., sem prentuð er með till., er rakið það, sem hvatt hefur okkur flm. til þess að gerast flytjendur þessa máls. En það er sú mikla þörf, sem er og verða mun enn um alllangan tíma á því að þurrka mýrar til ræktunar eða beitar. Á landi okkar eru tiltölulega víðáttumikil mýrlendi, sem lítt notast, nema þau verði ræst og þurrkuð. Flest þessi mýrlendi eru mjög auðug af frjóefnum.

Við Íslendingar hljótum að vera allir á einu máli um það að byggja matvælaöflun til handa þjóðinni á okkar eigin landi og nýta gæði þess í því efni á hinn hagkvæmasta hátt. Búskapur landsmanna hlýtur að vera í nútíð og framtíð byggður á ræktun jarðar, en ekki á rányrkju, enda mundu gæði landsins endast þjóðinni til skamms tíma, ef á rányrkju ætti að byggja, þar sem Íslendingum fjölgar nú mjög hratt. Sú ískyggilega staðreynd liggur nú fyrir, að síðan 1958 hefur landþurrkun dregizt mjög saman, og á árinu 1961 mun hún ekki hafa orðið nema 65% af því, sem hún var 1958, og hefð farið niður í 45%, ef vélasjóður ríkisins hefði ekki getað hlaupið undir bagga með tveimur ræktunarsamböndum, svo að þau gátu haldið áfram fyrirhuguðum framkvæmdum. Útlit er fyrir, að samdráttur verði á þessu sviði áfram, ef ekkert er að gert.

Mér er kunnugt um, að allverulegur hugur er í ýmsum bændum um það að hefja nú talsverðar framkvæmdir í þessu efni, en fé skortir. Mér er kunnugt um, að í Haganes- og Holtshreppi í Skagafjarðarsýslu mun vera áhugi fyrir að hefja framfærsluframkvæmdir, ef þeir gætu fengið lán til þess. Þeir munu þegar hafa snúið sér til vélasjóðs um fyrirgreiðslu í þessu efni. Það er eins og menn vita og alkunnugt er, að það er ákjósanlegast, að land fái að standa framræst a.m.k. í fimm ár, áður en ræktun hefst á því það getur þess vegna valdið allt að fimm ára töfum í ræktunarframkvæmdum hjá þeim, sem ekki hafa annað en mýrar til ræktunar, ef framræslan stöðvast.

Það, sem veldur samdrættinum í framræslunni, er fjárskortur bændanna, eins og ég drap á. En ef þeir hins vegar gætu fengið lán, þar til ríkisframlagið á skurðgröftinn kæmi, þá er þýðingarmesti þáttur þessa máls leystur. Áhætta ríkisins vegna þeirrar aðstoðar, sem hér er gert ráð fyrir að veitt yrði, er nánast engin, því að ríkisframlagið væri auðvitað sjáifsagt veð fyrir lánunum og gengi til greiðslu á þeim. Á fjárlögum yfirstandandi árs eru áætluð 12 millj. kr. útgjöld til framræslu, vegna framkvæmda, sem voru unnar á árinu 1961. Vegna samdráttar á þessu sviði, sem ég gat um, má gera ráð fyrir, að ekki muni þurfa nema um 9 millj. kr. til þessara framkvæmda, og eru þá 3 millj. þarna afgangs. Ég álít, að sanngjarnt væri að nota þetta fé til lána, eins og hér er gert ráð fyrir, og á þann hátt verði reynt að koma í veg fyrir frekari samdrátt á því sviði, sem hér er um rætt.

Hér er gert ráð fyrir mjög auðveldri og ódýrri hjálp. Í rauninni má segja, að þessi aðstoð kosti ríkið ekki neitt. Við flm. væntum þess vegna góðra og skjótra undirtekta hv. alþm. í þessu máli, þar sem varla þarf heldur að efa skilning þeirra á málinu í heild og þeirri þörf, sem enn er fyrir hendi um landþurrkun í heild.

Ég læt þá þessi fáu orð nægja sem framsögu fyrir þessari till. og leyfi mér að leggja til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. að þessari lokinni og til hv. fjvn.