14.02.1962
Sameinað þing: 35. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í D-deild Alþingistíðinda. (3474)

143. mál, aðstaða bænda til ræktunarframkvæmda

Flm. (Bergþór Finnbogason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér á hv. Alþingi til. til þál. á þskj. 277, ásamt 3. þm. Vesturl. Tillaga sú til þál., sem hér liggur fyrir og er til umræðu, gerir ráð fyrir því, að skipuð verði þriggja manna nefnd til þess að rannsaka og gera tillögur um, hvernig jafna megi aðstöðumun bænda til ræktunarframkvæmda.

Eins og kemur fram í grg. till., er aðstaða bænda ærið misjöfn til ræktunarframkvæmda eftir landslagi og staðháttum. Það getur verið allt að því helmingsmunur á ræktunarkostnaði, án þess að það komi nokkuð sérstakt til greina, t.d. grjótflutningur úr svæðinu eða slíkt. Þó að það sé ekki fyrir hendi, þá getur verið allt að helmingsmunur á kostnaði við ræktunarframkvæmdir.

Nú eru búskaparhættir smám saman að breytast, og menn gera orðið kröfur til aukinnar ræktunar, og þær kröfur munu fara ört vaxandi á næstu árum og áratugum, eða þær þurfa að fara ört vaxandi og verða helzt að gera það, því að bústærð hér þarf helzt að tvöfaldast á næsta áratug, ef við eigum að nálgast það að geta orðið samkeppnisfærir með afurðir búanna á heimsmarkaðnum, en til þess þarf að stórauka framleiðni búanna með bættum starfsskilyrðum við fóðuröflun og við hirðingu alla. En nú er því yfirleitt þannig háttað, að þeir, sem stytzt eru á veg komnir með ræktun, hafa minnstu búin. Það gefur því auga leið, að sá litli bústofn er ekki fær um að standa undir fjárfrekum útgjöldum af ræktunarframkvæmdum, þegar það bætist svo við, að þetta eru yfirleitt þeir bændur, sem búa við erfiðust ræktunarskilyrði. Það hefur nú um tangan tíma verið talinn sjálfsagður hlutur, að tekið væri af opinberu fé til að styrkja bóndann í því þjóðnytjastarfi að rækta landið. En aldrei hefur sá hlutur verið svo stór, að hann hafi nægt til að bera allan ræktunarkostnaðinn. Ef við hugleiðum þetta, þá sjáum við kannske bezt, hversu erfitt hlutskipti þeirra er, sem er að fást við að rækta mýrlendin. Það væri þeim miklu hagkvæmara fjárhagslega, ef þeir ættu þess kost að rækta harðvellismóa án þess að fá nokkurn styrk til þess. Misræmið er þarna svo mikið frá löggjafans hálfu, að það verður vart unað við það öllu lengur. Það nær vitanlega engri átt að greiða sömu krónutölu í styrk á hvern ræktaðan hektara, án þess að tekið sé tillit til kostnaðarins við að rækta hann.

Það er út af fyrir sig undrunarefni, hversu bændur hafa verið þöglir um þetta misræmi í skiptingu þess fjár, sem ætlað er til ræktunarframkvæmda. Það er þó ekki meining mín eða okkar flm. þessarar þáltill., að hlutur þeirra, sem bezta hafa ræktunaraðstöðu, sé of góður, heldur hitt, að þeir, sem erfiðast eiga um vik, þarfnist meiri aðstoðar. Það er ekki ólíklegt, að eitthvað mætti lækka ræktunarkostnað bænda með bættri vinnutilhögun. Af því að jarðræktin er stór og erfið í meðförum, ber brýna nauðsyn til þess, að unnið sé eftir fyrir fram gerðri áætlun, er miðist meir við samfellda vinnslu en óskir einstaklinga, enda er ég sannfærður um, að einstaklingarnir mundu verða fljótir að sjá kosti þessa og haga óskum sínum fremur eftir því.

Nú er mikið um það talað og það með réttu, að auka þurfi notagildi landsvíðáttunnar með því að græða upp sandauðnir í byggð og óbyggð. Margar stoðir renna undir það, og ýmis rök eru fram borin og þ. á m. þau, að búsmala vanti betri bithaga, bæði í byggð og afrétt, og víða eru komnar fram raddir um það, að kroppþungi dilka fari minnkandi af þeim sökum. Þessi uggvænlega þróun á eflaust eftir að koma betur í ljós með fjölgandi fénaði. Það getur því svo farið, að stytta verði þann tíma, sem fénaður gengur frjáls á fjöllum, og þá þrengist að sama skapi í heimahögum. Þessari þróun verðum við að mæta með því að auka beitarþol heimahaganna. En erum við viðbúnir að gera það? Víða hagar svo til, að það verður ekki gert á skömmum tíma. Það eru til heilar sveitir og víðáttumiklar, sem eru samfelldir mýrarflákar og brokmóar, sem fáar skepnur lita við, sé annars kostur. Beitarþol þeirra verður ekki aukið án framræslu og þurrkunar, og það tekur mörg ár og jafnvel áratugi. Það er engin von til þess, að íbúar þessara sveita komi því í framkvæmd með núverandi fyrirkomulagi á framræslunni. Hér er mikið verkefni, sem biður úrlausnar, og má ekki dragast öllu lengur, að farið sé að vinna skipulega að því. Það er alveg víst, að framræslu- og ræktunarkostnaður hefur oft orðið mjög miklum mun hærri en hann hefði þurft að vera fyrir það eitt, að ekki var unnið eftir fyrirframgerðri áætlun.

Það er von flm. þessarar þáltill., að hv. alþm. skilji nauðsyn þessa máls fyrir bændur og þjóðfélagsheildina og sýni það í verki með því að samþykkja hana.

Að svo mæltu vil ég leyfa mér að fara þess á leit við hæstv. forseta, að að umr. þessari lokinni verði þáltill. vísað til síðari umr. og fjvn.