04.04.1962
Sameinað þing: 48. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í D-deild Alþingistíðinda. (3489)

150. mál, endurskoðun skiptalaganna

Flm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Sú till., sem hér liggur fyrir, er um það, að fram fari endurskoðun á skiptalögunum, sem eru frá árinu 1878 og því liðnir rúmir 8 áratugir frá því að lög þessi öðluðust gildi. En eins og hv. þm. er kunnugt, er hér um allmikinn lagabálk að ræða, sem er í fimm þáttum, sem skiptast í 101 grein. Nýlega hafa verið afgreidd hér frá Alþingi erfðalög, en eins og kunnugt er, þá eru tengslin á milli erfðalaganna annars vegar og skiptalaganna hins vegar allnáin, og finnst mér það mæla mjög með því, að skiptalögin verði nú tekin til endurskoðunar. Margt er breytilegt og m.a., að þegar um skipti á dánarbúum hefur verið að ræða er síður en svo, að gilt hafi á sama tíma alls staðar sömu matsreglur. Þetta finnst mér m.a. að þurfi að samræma í nýrri löggjöf um skiptalögin og ótalmargt annað að sjálfsögðu, sem þar kann inn í að grípa. Þá ber á það að lita, að margs konar mannréttindi hér á landi hafa breytzt, frá því að skiptalögin öðluðust gildi, og þá ekki sízt réttur kvenna, sem nú má heita á flestum sviðum til jafns við okkur karlmenn, en var á þeim árum, sem skiptalögin öðluðust gildi, mjög takmarkaður. Þá ber einnig á það að líta, að mörg löggjöf hefur breytzt allmikið á þessum áratugum, sem liðnir eru frá því að skiptalögin öðluðust gildi, og ber að hafa það í huga við endurskoðun skiptalaganna. Þó hygg ég, að stórfelldasta breytingin hafi átt sér stað í verðlags- og efnahagsmálum þjóðarinnar á þessu tímabili og margs konar fyrirtæki risið upp, sem löggjafinn gerði sér þá ekki grein fyrir. Þá er ekki veigaminnst, finnst mér, að þessi löggjöf verði gerð nokkru skýrari en nú er og fastar mótuð, bæði fyrir þá, sem eiga að framkvæma löggjöfina, og ekki síður fyrir hina, sem þurfa að sækja rétt sinn gagnvart þessari löggjöf.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að færa fleiri rök fyrir till. þessari og mér skilst, að hér geti ekki verið um neitt ágreiningsmál að ræða. Hæstv. forseti hefur þegar ákveðið eina umræðu, og það er alllangt liðið á þingtíma og því ekki líklegt, ef tillaga þessi færi til nefndar, að hún hlyti afgreiðslu. Þess vegna vil ég mælast til þess, herra forseti, að tillaga þessi verði látin ganga til atkvgr. þegar nú að þessari umr. lokinni.