18.12.1961
Sameinað þing: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

1. mál, fjárlög 1962

Frsm. meiri hl. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Síðan 2. umr. fjárlagafrv. lauk, hefur fjvn. haldið nokkra fundi, farið yfir frv., brtt., sem teknar voru aftur til 3. umr., og erindi og bréf, sem við bættust.

Meiri hl. n. leggur til á þskj. 244, að gerð verði ein brtt. við tekjuhlið frv., en nefndin öll gerir tillögur til breyt. á frv. samkv. þskj. 243 og öðru þskj., sem er ekki komið úr prentun. Hv. þm. Framsfl. og Alþb. hafa þó áskilið sér rétt til að flytja eða fylgja brtt., er fram kunna að koma.

Mun ég fara nokkrum orðum um tillögurnar til breytinga.

Við 2. gr. frv. er ein brtt. frá meiri hl. n. um, að 3. töluliður hækki um 4.5 millj. kr., í 239 millj. 100 þús. kr. Athugun, sem fram fór, leiddi í ljós, að rétt væri að hækka þennan lið.

Við 10. gr. er brtt. I, 2. e. undirliður b, fálkaorðan hækki um 20 þús. kr. Þetta er leiðrétting vegna verðlagsbreytinga, frá því að áætlunin var samin.

Við 11. gr. A. 10 eru tvær brtt., að liðirnir k og r hækki, sá fyrri um 150 þús. kr., en hinn um 180 þús. kr. Þessir liðir eiga að ganga til löggæzlu í sveitum og ýmiss annars lögreglukostnaðar. Nefndinni höfðu borizt mörg erindi um aukna löggæzlu, bæði í sveitum og annars staðar, vegna vertíða eða annarra sérstakra ástæðna. Nefndin sendi þessi erindi til dómsmrn. til athugunar og leggur til, að þessi hækkun sé gerð að ósk rn. Er það von nefndarinnar, að þessar upphæðir nægi til þess, að hægt sé að koma til móts við eðlilegar óskir um aukna löggæzlu.

Við 23. lið, til húsameistara ríkisins, er ein leiðrétting. Liðurinn tekjur af vinnu, 500 þús. kr., lækki í 300 þús. Er það samkv. reynslu undanfarinna ára talið réttara.

Við 12. gr. Liðurinn VII hækki um 800 þús. kr. og jafnframt verði orðalagsbreyting, sem felur það í sér, að styrkur til St. Jósefsspítalans í Reykjavík verði framvegis 20 kr. á legudag, en hinir fái 10 kr. á legudag eins og verið hefur.

Við 13. gr. A. II. 72, fyrir 100 þús. komi 150 þús. kr. Þetta er leiðrétting vegna skekkju, sem þarna varð.

Við 13. gr. D. IV. 6, liðurinn hækki um 120 þús. kr. vegna flugumferðar og öryggisþjónustu. Það hafði fallið niður af vangá. Þetta er leiðrétting, en ekki til þess að auka starfið frá því, sem nú er.

13. gr. F. 2, landkynning, liðurinn hækki um 250 þús. kr., en það er hluti ferðaskrifstofunnar af starfsemi og skrifstofuhaldi í London, sem láðst hafði að taka með í áætlun skrifstofunnar.

Á 14. gr. A. 1 komi nýr liður, 150 þús. kr. vegna 50 ára afmælis háskólans.

Á 14. gr. A. 2, til styrktar íslenzkum námsmönnum, liðurinn hækki um 775 þús. kr., í 8 millj. og 53 þús. kr., þar af til lánasjóðs íslenzkra námsmanna samkv. lögum 5 millj. 555 þús. kr. Það er sumpart vegna gengisbreytingar, sem talið er eðlilegt að hækka nokkuð þennan lið, og einnig er nokkur hækkun til samræmis. Vegna launabreytinga innanlands er talið eðlilegt, að hækkun verði á styrk til íslenzkra námsmanna.

14. gr. A. X. 22, liðurinn hækki um 276 þús. kr. Þetta er talin óhjákvæmileg leiðrétting vegna fjölgunar nemenda og beinnar lagaskyldu um sundkennslu í skólum.

Við 14. gr. A. X. 23. b. 1 eru nokkrar breytingar. Hamrahlíð í Reykjavík: fyrir 1957 280 kr. komi 520 þús. kr., vegna þess að ákveðið er að taka minni áfanga í byggingu þessa skóla en upphaflega var ætlunin. Við bætast tveir nýir liðir: Álftamýrarskóli í Reykjavík 700 þús. kr. og Reykdælaskólahverfi 144 þús. kr.

Á 14. gr. A. XI bætast tveir nýir liðir, gagnfræðaskóli verknáms í Reykjavík, fyrsti áfangi, 700 þús. kr. og gagnfræðaskóli Langholtsskóla, fyrsti áfangi, 620 þús. kr. Þessar breytingar eru taldar leysa betur úr brýnustu þörfum vegna fjölgunar barna og þrengsla í skólum, er leiðir af sér rúmlega 700 þús. kr. hækkun á þessum lið.

Þá er nýr liður, námskeið fyrir gagnfræðaskólakennara, 25 þús. kr. Þessi liður er endurveiting, en hafði fallið niður úr frv.

Liður XV, íþróttakennaraskólinn, liðirnir e og g hækki um samtals 32 þús. kr. Það eru leiðréttingar, vegna þess að talið var, að áætlunin væri of lág þar.

Þá kemur á þessari grein nýr liður, yfirbygging sundlaugar, íþrótta- og fimleikahúss á Siglufirði 300 þús. kr. Þetta er fyrsta greiðsla af fimm til þess mannvirkis.

Á 14. gr. B. XIII, til skálda, rithöfunda og listamanna, liðurinn hækki um 290 þús. kr. Það er vegna þess, að talið er eðlilegt að hækka þetta framlag nokkuð frá því, sem verið hefur, vegna kauphækkana.

Þá er nýr liður á þessari grein: til listsýningar í Danmörku 100 þús. kr., og hækkun til Leikfélags Reykjavíkur 50 þús. kr., auk þess til vísinda- og fræðimanna, nýs leikfélags og til ritstarfa og útgáfustarfsemi, samtals 75 þús. kr. hækkanir.

Á 16. gr. A bætist við fyrirhleðsla í Fjarðará í Borgarfirði eystra vegna flóða, er nýlega urðu þar, og er óhjákvæmilegt að forða frekari skemmdum að dómi vegamálastjóra. Bætast þar við 20 þús. kr. — Liðurinn 33 hækki um 305 þús. kr. í 400 þús. kr., það er til mjólkurbúa og smjörsamlaga. — Við bætist nýr liður: til sóttvarnastöðva vegna hreinræktunar holdanauta 500 þús. kr.

16. gr. B. 1 hækki um 120 200 kr., þ.e. til Fiskifélags Íslands. Þessi hækkun er til þess að auðvelda félaginu að mæta sívaxandi óskum um rannsóknir og leiðbeiningar vegna vaxandi áhuga á niðursuðu fiskafurða og nauðsyn þeirrar starfsemi til að efla vöruvöndun á þessu sviði.

16. gr. D. XI, nýr liður, til jarðborana á Lýsuhóli í Staðarsveit 75 þús. kr.

16. gr. E, liðurinn tekjur frá happdrætti háskólans lækki úr 500 þús. kr. í 250 þús. kr., en gjaldaliðurinn hækki um þá upphæð. Þetta mun vera samkvæmt samningum, sem gerðir voru í fyrra um að fella smám saman niður í áföngum þetta gjald happdrættis háskólans í ríkissjóð.

Á þessari grein komi nýr liður: til rannsókna á kísilgúr á Mývatni 350 þús. kr.

17. gr. I, nýr liður: til vatnsöflunar í Kelduhverfi 125 þús. kr. Þessi liður var tekinn aftur við 2. umr. vegna nýrra upplýsinga, og er þessi upphæð ákveðin samkv. þeim. Þá er nýr liður, annar á þessari grein, til skipulags Reykjavíkur vegna samkeppni 350 þús. kr. Samkeppnin var ákveðin í samráði við félmrn., og var ætlazt til, að ríkissjóður greiddi helming kostnaðar.

17. gr. V. 8. b, liðurinn hækki um 35 þús. kr. og er bundinn jafnmiklu framlagi annars staðar að. Þetta er skóli fyrir konur, er starfa á barna- og dagheimilum, og vegna mikillar aðsóknar er talið nauðsynlegt að auka skólann, enda mikil þörf á starfskonum fyrir þær stofnanir, og langt frá því, að hægt sé að fullnægja eftirspurn eftir þeim.

Þá kemur 18. gr. Þar hefur verið fylgt svipuðum reglum og undanfarin ár, enda naumast annað fært, á meðan ekki er breytt gildandi löggjöf um elli- og eftirlaun. Hækkun á greininni er um 600 þús. kr. Það er rétt að taka fram í sambandi við 18. gr., að upphæðirnar, sem þar eru, eru ekki sambærilegar einar sér. Margir hafa eftirlaun úr eftirlaunasjóðum eða frá almannatryggingum, en upphæðin á 18. gr. er oftast miðuð við að jafna mun, sem orðið hefur af ýmsum ástæðum og ekki er unnt að leiðrétta öðruvísi.

Næst er 20. gr. IV. liður: til bygginga á jörðum ríkisins, hækki um 200 þús. kr. — Þá kemur 27. liður, hækki um 130 þús. kr. Þetta er starfsmannahús á Bessastöðum, leiðrétting vegna meiri kostnaðar en talið var að yrði, er frv. var samið.

Við 22. gr. eru þessar breytingar: IV. liður falli niður. Ríkissjóður er ekki lengur eigandi lóðanna í Vestmannaeyjum, og á því þessi liður ekki lengur heima þarna. — Þá er í öðru lagi nýr liður: Ríkisstj. er heimilt að gefa eftir aðflutningsgjöld af hljóðfæri, er Slysavarnafélagi Íslands var gefið. — Í þriðja lagi nýr liður: heimild til að gefa eftir aðflutningsgjöld af asdictæki í vélbátinn Mími. Tæki þetta var keypt með bátnum, en var ekki tilbúið, þegar hann sigldi heim, og varð því að sendast á eftir. Aðrir bátar, sem keyptir voru á sama stað, fengu tækin með sér og þurftu því ekki að greiða af þeim gjöld. Af þessum ástæðum þykir rétt að veita heimild til að gefa aðflutningsgjöldin eftir. — Í fjórða lagi er lagt til, að Norðausturland bætist við í grein um heimild til að bæta hlustunarskilyrði á Austurlandi. — Í fimmta lagi heimild til að veita ríkisábyrgð fyrir síldarverksmiðjuna Rauðku á Siglufirði, að upphæð ein millj. kr., með venjulegum skilyrðum. þetta er endurveiting. Verksmiðjan mun hafa notið svipaðrar fyrirgreiðslu á undanförnum árum. — Þá er í sjötta lagi: ríkisstj. er heimilt að veita ríkisábyrgð fyrir lánum að upphæð 35 millj. kr. vegna síldarverksmiðja á Austurlandi og til byggingar umhleðslustöðva fyrir síld, með venjulegum skilyrðum gagnvart öðrum en ríkisfyrirtækjum. — Í sjöunda lagi heimild til að veita síldarverksmiðjunum í Krossanesi og Hjalteyri 650 þús. kr. ríkisábyrgð fyrir láni til síldarflutninga með venjulegum skilyrðum. — Í áttunda lagi heimild fyrir ríkisstj. til að taka að láni 25 millj. kr. og endurlána upphæðina Ræktunarsjóði Íslands og Byggingarsjóði sveitabæja. — Þá er níunda till.: ríkisstj. skal heimilt að taka lán að upphæð 2 millj. kr. vegna bruna skólans á Eiðum. — Þá er í tíunda lagi till. við lið XXXI á þessari grein á þskj. 211. Þetta er brtt. til leiðréttingar á orðalagi, sem fallið hafði niður úr greininni þar.

Verði þessar tillögur, er ég nú hef lýst, samþykktar, hækka tekjur um 4½ millj. kr., en gjöld um 7 739 718 kr. En greiðslujöfnuður verður 3 342 390 kr.

Þá vil ég geta þess, að það er von á tillögum frá nefndinni til viðbótar þessum, sem hefur ekki verið unnt að afgreiða enn, en ég mun gera grein fyrir, þegar þær liggja fyrir.

Ég legg til, að þessar till. n. og meiri hl. n., sem ég hef nú lýst, verði samþykktar og frv. svo breytt samþykkt.