06.02.1962
Sameinað þing: 42. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í D-deild Alþingistíðinda. (3635)

112. mál, fjárfesting Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna erlendis o.fl.

Lúðvík Jósefsson [frh.]:

Hæstv. forseti. Þegar þingfundi lauk hér í gærdag, hafði ég ekki lokið við ræðu mína að fullu, og mun ég nú halda hér áfram, þar sem fyrr var frá horfið. Ég hafði í fyrri hluta ræðu minnar gert nokkra grein fyrir helztu staðreyndum þessa máls, sem liggja fyrir og deilur eru varla um. Og ég hafði beint því alveg sérstaklega til hæstv. ríkisstj., hvort henni fyndist ekki ástæða til þess, þar sem þetta allt lægi fyrir, að slík rannsókn yrði látin fara fram, sem um ræðir í þessari tillögu, sem hér er nú á dagskrá. Mér fannst það fremur óeðlilegt að heyra ekkert frá hæstv. ríkisstj. varðandi þetta stórmál og innti eftir því, hvort ríkisstj. vildi ekki birta hér sina afstöðu til málsins.

Ég vil ítreka þetta enn, að ég vænti, að hér komi fram í þessum umræðum, nú einmitt áður en till, fer til nefndar, hver afstaða hæstv. ríkisstj. er til þessa máls. Telur hún ekki, að það mikið hafi komið fram af óyggjandi upplýsingum í þessu máli, að það sé full ástæða til þess, að slík athugun verði gerð, sem till. fer fram á?

Í umræðunum hér hafði einn af stjórnarmönnum í Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, hv. 2. þm. Vesturl., tekið til máls. Hann er einnig einn af stjórnarnefndarmönnum í fyrirtæki S.H. í Bandaríkjunum. Ég held, að það sé ekki ofsögum sagt, þó að sagt sé, að í ræðu hans komu fram harla litlar upplýsingar um það mál, sem hér er raunverulega til umræðu. Þær athugasemdir, sem hann gerði við ræðu flm. tili., eins og það, að hann, 2. þm. Vesturl., væri ekki formaður í stjórn fyrirtækisins erlendis, heldur aðeins einn af stjórnarnefndarmönnum, það vitanlega skiptir hér engu máli, ekki heldur hitt, hvort nú á þessu ári eru 3 þm. Sjálfstfl. í stjórn Sölumiðstöðvarinnar, eins og þeir voru hér á síðasta ári, þegar þetta mál var hér rætt á Alþingi, — þar hefur orðið nokkur breyting á. Einn af þm. Sjálfstfl., sem var í stjórn Sölumiðstöðvarinnar, hefur nú gengið úr stjórninni, og annar aðili hefur tekið við hans starfi. Það skiptir heldur engu verulegu máli í sambandi við það, sem hér er rætt um.

Þau atriði, sem vitanlega skipta hér öllu máli og þarf að fá upplýsingar um, — og er auðvitað afar eðlilegt, að einn af stjórnarnefndarmönnum í Sölumiðstöðinni, sem hér tekur þátt í umræðum, upplýsi nokkuð um í tilefni af öllu því, sem fram hefur komið varðandi þetta mál, — það eru atriði m.a. eins og þessi, sem ég skal nú minnast á.

Það er í fyrsta lagi þetta: Er það rétt, að S.H. hafi fjárfest erlendis jafnvel marga tugi millj. kr. af fiskandvirði frystihúsanna í landinu? Er þetta rétt? En allmiklar upplýsingar hafa einmitt borizt um það, að svona sé þessu háttað. í öðru lagi: Er það rétt, að verksmiðja sú, sem S.H. eða dótturfyrirtæki Sölumiðstöðvarinnar í Bandaríkjunum hefur komið þar upp, sé mjög vafasöm eign, eins og fram er haldið, jafnvel af þeim mönnum, sem lengi hafa starfað í þjónustu þessarar stofnunar, að stofnkostnaður þessarar verksmiðju sé orðinn allt of mikill, til þess að hægt sé að reka verksmiðjuna; og verksmiðjan sé reist á mjög vondum stað og hún sé sennilega óseljanleg, ef þurfi að grípa til slíks? Er þetta rétt? Það væri vitanlega mjög nauðsynlegt að fá upplýsingar um þetta. En þetta eru allt atriði, sem fram hafa komið opinberlega eða þannig, að auðvelt hefur verið fyrir menn að kynna sér það, sem fram hefur verið haldið um það. Og er það rétt, að það hafi verið mikið sleifarlag á rekstri þessarar verksmiðju vestanhafs, sem beinlínis hafi orðið til að draga niður fiskverðið hjá frystihúsunum í landinu? Og þó er kannske allra alvarlegasta ásökunin sú, sem nýlega hefur komið fram, einnig frá mönnum, sem starfað hafa í þjónustu fyrirtækisins, að til þess hafi verið nú gripið að lækka beinlínis verð í Bandaríkjunum á fiskblokkum til hags fyrir verksmiðjuna fyrir vestan, sem á í fjárhagslegum erfiðleikum, en hún notar fyrst og fremst það hráefni, en það hefði beinlínis verið hægt að halda uppi hærra verði á þessum fiskpakkningum með því að selja með öðrum hætti.

Hér er vitanlega um mjög alvarlegar ásakanir að ræða. Ég fyrir mitt leyti hef ekki aðstöðu til þess að dæma neitt um það, hvað af þessu er rétt. En það er sem sé staðreynd, að slíkar ásakanir sem þessar hafa komið fram, og þeim hefur verið svarað með því, að sá maður, sem nokkuð hefur dregizt hér inn í þessar umræður, framkvæmdastjóri Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, Jón Gunnarsson, sem haft hefur þetta gífurlega vald að vera framkvæmdastjóri yfir þessum rekstri öllum í Bandaríkjunum, vera auk þess stjórnarformaður og hafa konuna sína með sér í stjórninni og einn mann, sem hann hefur raunverulega valið í Bandaríkjunum sem þriðja aðila, eða m.ö.o. haft þarna nokkurn veginn einræðisvald varðandi þessi mál, að hann hefur snúizt þannig við þessum ásökunum, að hann hefur rekið umsvifalaust þá menn, sem borið hafa fram þessar ásakanir.

Er það rétt, að S.H, hafi þegar byrjað á allmiklum fjárfestingum í Hollandi og tapað þar allmiklu fé, eins og málin standa nú? Er það rétt, að hliðstæður rekstur á vegum Sölumiðstöðvarinnar og fjárfesting, sem átt hefur sér stað í Englandi, gangi þar mjög illa? Og er það rétt, að sá mikli dráttur, sem menn þekkja hér almennt, að orðið hefur á greiðslu fyrir útfluttan fisk til fiskframleiðenda í landinu, hafi átt sér fyrst og fremst stað vegna þessarar starfsemi Sölumiðstöðvarinnar erlendis?

Það eru þessi atriði, sem hér vitanlega skiptir mestu máli að fá upplýsingar um, sé málið rætt hér eitthvað efnislega á hv. Alþingi, eða þá að samkomulag geti orðið um það, að þessu öllu verði visað til rannsóknarnefndar á vegum Alþingis, er vitanlega gengur þá nánar til botns í því, hvernig þessu öllu er varið. En það er sem sé gefið mál, að séu þessar ásakanir allar réttar, sem fram hafa verið bornar, og aðfinnslur í sambandi við rekstur S.H., þá gripur þetta auðvitað mjög tilfinnanlega inn í rekstur og afkomu frystihúsanna í landinu almennt séð.

Ég hygg líka, að það sé staðreynd, að sá háttur hafi verið hafður á hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna að taka fé fyrir útfluttan og seldan fisk, sem seldur er með þeim hætti, að hann er greiddur staðgreiðslu, að taka það fé og nota það meira og minna í sambandi við rekstur sinn erlendis, þ.e.a.s. að sá fiskur, sem fluttur hefur verið út úr landinu og seldur gegn staðgreiðslu, hefur ekki verið gerður upp og greiddur strax til fiskeigenda, heldur hefur andvirðinu fyrir hann verið blandað saman við andvirði annars útflutts fisks og allt sett þar í eina púlíu, sem gerð er upp löngu síðar.

Ég hef fyrr í þessum umræðum sagt það, að ég tel um samtök svipuð og Sölusmiðstöð hraðfrystihúsanna, að þau þurfi að vera, það yrði sízt til hóta að ætla að tvístra með öllu slíkum samtökum og láta útflutninginn á fiski lenda í höndum margra og misjafnra aðila, sem sennilega mundu einkum koma hér fram sem umboðsmenn stórra erlendra fyrirtækja. Ég tel, að slíkt væri síður en svo til bóta. En ég óttast að sumu leyti, að til slíks geti dregið, ef forustumenn S.H. halda uppteknum hætti í þessum efnum, að því leyti til sem þeir hafa starfað ranglega, og ef þeir reyna að standa gegn því, að opinber og hlutlaus athugun fari fram á þessum atriðum öllum, því að það er vitanlega einasta leiðin til þess bæði að leiða það í ljós, hvað af þessu er rétt, sem fram hefur komið, og til þess að komast fyrir gallana og leiðrétta þá og koma samtökunum inn á þá braut, sem þau áttu að starfa og eiga að starfa á.

Það er ekkert um það að villast, að það fyrirkomulag, sem ríkt hefur í þessum efnum, er stórgallað. Það hefur af ýmsum frystihúsaeigendum í landinu verið margsinnis spurt: Hvernig er raunverulega með eignarrétt og ábyrgð í sambandi við þessi fyrirtæki erlendis? Hvernig fer t.d. með þá aðila innan Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, sem ganga úr þeim samtökum, t.d. nú í dag? Hvað eiga þeir aðilar að fá út úr þeim miklu eignum, sem skráðar eru sem eignir Sölumiðstöðvarinnar erlendis? Þessu hefur enginn getað svarað í dag. Engar upplýsingar eru fáanlegar um það, hvernig eigi að gera þetta dæmi upp. Það vantar í rauninni öll skilríki til slíks. Hvernig yrði farið að, ef eitthvert frystihús, sem nú er í S.H., yrði gjaldþrota? Hvernig fer þá í sambandi við þessar erlendu eignir? Og síðast, en ekki sízt: Hvað mundi gerast, ef þessi erlendu fyrirtæki færu sjálf á höfuðið eða yrðu gerð gjaldþrota erlendis? Hvað þá? Hver á þá að borga og í hvaða hlutfalli?

Allt er þetta mjög óljóst, og aðilar að S.H. í dag geta ekki svarað þessu, af því að þeir hafa ekki fengið um það upplýsingar. Þannig hefur í rauninni, eins og ég hef bent á hér áður, alveg óskyldum verkefnum á vegum þessara aðila verið hrært saman á mjög óeðlilegan hátt. S.H. á að starfa fyrst og fremst sem umboðssölustofnun, sem tekur framleiddar vörur hraðfrystihúsanna í landinu til sölumeðferðar, selur þær út úr landinu á föstu verði eða gegn öruggri greiðslu og ekki öðruvísi og á að skila frystihúsunum í landinu fullu verði, eins og varan hefur selzt á. Hitt er svo í rauninni allt annað mál, hvort þeir aðilar, sem eru meðlimir í S.H., koma sér saman um að mynda önnur sjálfstæð félög, sem annist þennan eða hinn reksturinn, erlendis eða hérlendis. Þarna verður að skilja greinilega á milli. En að ætla sér þá leið að nota framleiðsluvörur frystihúsanna í landinu, sem eru veðsettar bönkum landsins, sem rekstrarfé í fyrirtækjum erlendis eða annars staðar, á þann hátt sem nú hefur verið gert, slíkt er vitanlega óframkvæmanlegt til lengdar og nær engri átt.

Að mínum dómi er það svo, að það hefur verið horfið inn á þessa braut hjá S.H. í allt of mörgum tilfellum, og gallarnir í þeim tilfellum eru mjög mismunandi. Varðandi reksturinn erlendis, þá er þetta mjög sérstætt og kannske stórkostlegast af því öllu. En því er ekki heldur að neita, að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sem raunverulega á að vera hér umboðssölufyrirtæki, hefur á beinan eða óbeinan hátt staðið fyrir því að koma upp öðrum fyrirtækjum, hliðarfyrirtækjum við Sölumiðstöðina, sem eru rekin í mjög vafasömum tengslum við eðlilega umboðssölustofnun.

Í umræðunum um þetta mát í fyrra á Albingi var það upplýst, að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, þessi umboðssölustofnun, ætti í kringum 5 millj. kr. hjá einu af dótturfyrirtækjum Sölumiðstöðvarinnar, Tryggingamiðstöðinni, en það er venjulegt vátryggingarfélag, sem er að verða eitt stærsta vátryggingarfélag í landinu, vegna þess að það tekur svo að segja sjálfkrafa að sér allar vátryggingar á framleiðsluvörum frystihúsanna í landinu. En þá kemur í ljós, að S.H., sem í rauninni á ekki að hafa neinn sérstakan pening með höndum annan en þann, sem er í höndum hennar til bráðabirgða, en á að skilast fiskeigendum. hún hefur lánað þessari stofnun, eins og upplýst var hér í fyrra, 5 millj. kr. Hitt var svo ekki upplýst, en þó er vitað, að þetta fyrirtæki, Tryggingamiðstöðin, lánaði aftur út nokkrum dögum á eftir sömu upphæð, m.a. til stjórnenda S.H. Slík starfsemi nær vitanlega engri átt heldur. Þarna á að skilja á milli á allt annan hátt en nú er gert. Það er auðvitað engin von til þess, að ríkisvaldið geti þolað það, að slíkur misbrestur eigi að líðast í jafn þýðingarmiklum samtökum og S.H. er, og það á sama tíma sem ríkisvaldið þarf, eins og ég hef bent hér á áður, eða telur sig þurfa að skerast í leikinn til þess að rétta hag útflytjenda í landinu, hraðfrystihúsaeigenda, með allharðvítugum ráðstöfunum.

Ég skal nú ekki fara nm þetta öllu fleiri orðum hér að þessu sinni. Ég vil aðeins segja það, að ég er því meðmæltur, að sú rannsókn fari fram, sem lögð er til í þessari tillögu. En ég tek það skýrt fram, að ég álít, að það eigi ekki á nokkurn hátt að líta á þessa rannsókn sem neina árás á samtök frystihúsamanna í landinu, síður en svo. Og ég fyrir mitt leyti tel það mjög vafasamt og í rauninni alrangt að ætla að draga þá ályktun af þeim mistökum, sem þarna hafa orðið, og þeim víxlsporum, sem þarna hafa verið stigin, að það eigi að leggja niður eða tvístra slíkum samtökum, sem Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna er, og taka upp það söluskipulag á útflutningi á hraðfrystum fiski, að þar geti svo að segja allir komið inn í og hvers kyns umboðsmenn erlendra fyrirtækja, sem óneitanlega eru okkur ekkert vinsamlegir í þessum efnum, þegar málin eru skoðuð niður í kjölinn. Ég tel, að það væri hættulegt að draga þá ályktun af þeim mistökum, sem þarna hafa orðið, að það eigi að leggja niður Sölumiðstöðina og skipta þarna um grundvallarskipulag. En það þarf að kippa því í lag, sem aflaga hefur þarna farið, og það held ég að verði gert bezt einmitt upp úr því að láta þá athugun fara fram, sem lagt er til með þessari tillögu að gerð verði.