19.02.1962
Sameinað þing: 51. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í D-deild Alþingistíðinda. (3646)

116. mál, viðskipti fjármálaráðuneytisins við Axel Kristjánsson

Flm. (Geir Gunnarsson):

Hæstv. forseti. Þáltill. sú, sem hér liggur fyrir, var flutt á siðasta þingi, en hlaut þá ekki afgreiðslu. Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Neðri deild Alþingis ályktar að skipa 5 manna nefnd samkvæmt 39. gr. stjórnarskrárinnar til þess að rannsaka viðskipti fjmrn. og Axels Kristjánssonar, Hafnarfirði, og hlutafétagsins Ásfjalls í sambandi við ríkisábyrgð, sem heimiluð var á 22. gr. fjárlaga 1959, svo og útgerð Axels Kristjánssonar í ábyrgð ríkissjóðs á togaranum Brimnesi. Nefndin skal hafa rétt til að heimta skýrslur, skriflegar og munnlegar, bæði af embættismönnum og einstökum aðilum.“

Í framsögu fyrir þáltill. hinn 27. marz 1961 rakti ég mál þetta, en mun nú rifja upp helztu atriði þess.

Í þáltill. er vísað til ábyrgðarheimildar, sem samþ. var við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1959, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórninni er heimilt að ábyrgjast fyrir Axel Kristjánsson eða væntanlegt hlutafélag í Hafnarfirði, gegn þeim tryggingum, sem hún metur gildar, allt að 4 millj. og 320 þús. kr. lán til kaupa á togara frá Vestur-Þýzkalandi, þó ekki yfir 80% af kaupverði skipsins:

Ríkisábyrgð þessi var síðan, svo sem kunnugt er, veitt á láni til kaupa á togaranum Keili, en forsaga þess skips var í fáum orðum sagt sú, að sá togari, sem þá var 10 ára gamall, 600 tonn að stærð og með aðeins 800 hestafla gufuvél, hafði áður verið boðinn Bæjarútgerð Hafnarfjarðar til kaups ásamt tveimur öðrum togurum, sem sama fyrirtæki í Þýzkalandi átti. Bæjarútgerðin átti þá kost á að kaupa nýlegan togara, sem hún sóttist eftir, gegn því, að tveir eldri togarar fylgdu með í kaupunum. Annar þeirra var sá, sem síðar var nefndur Keilir og áður var getið. Því fyrirtæki, sem átti þessa þrjá togara, leizt ekki ráðlegt að selja nýja skipið án þess að koma hinum eldri út um leið. Hins vegar var hægt að kaupa sérstaklega hvorn hinna eldri sem var. Þar sem forráðamönnum bæjarútgerðarinnar og þeim sérfræðingi, sem hún leitaði til, þótti ekki ráðlegt að kaupa svo gamlan og vélvana togara, varð ekkert af kaupunum. En hinu þýzka fyrirtæki lánaðist samt sem áður að losa sig við annan eldri togarann a.m.k. og það án þess að hann fylgdi þeim nýrri. Hann var keyptur til Íslands með tilstyrk þeirrar ábyrgðarheimildar, sem Axel Kristjánsson eða hlutafélagi hans var veitt á fjárlöguan fyrir árið 1959. Heimildin til ríkisábyrgðar miðaðist við, að ábyrgðin yrði veitt fyrir 4 millj. 320 þús. kr., en þó ekki meiru en 80% af kaupverði skipsins, þ.e.a.s. til þess að hægt væri að nota ríkisábyrgðarheimildina að fullu, þurfti togarinn að kosta a.m.k. 5.4 millj, kr., en 80% af þeirri upphæð er 4 millj. 320 þús. kr. Seljendur skipsins í Þýzkalandi höfðu áður boðið Bæjarútgerð Hafnarfjarðar togarann á 3.6 millj., ef hann væri keyptur með nýrri togaranum, sem var miklu útgengilegri, en hefði fengizt á enn lægra verði einn sér. Í blaðadeilum hélt forráðamaður Ásfjalls h/f því fram í Alþýðublaðinu, að hann hefði líka fengið skipið fyrir 2 millj. 880 þús. kr., en samkv. því hefði ábyrgðin ekki mátt nema meiru en 2.3 millj. kr. í stað 4.3 millj. kr. Samkv. því hafa endurbætur á skipinu kostað 2 millj. 520 þús. kr., eða svo til sömu upphæð og skipið sjálft„ og ríkisábyrgð verið veitt út á þær að fullu.

Það hlutafélag, sem þannig fékk veitta ríkisábyrgð á láni, sem samkv. núv. gengi nemur um 7.8 millj. kr., til kaupa á 10 ára gömlum togara, sem ráðunautur opinbers fyrirtækis hafði ráðið frá að kaupa til landsins, hafði aðeins yfir að ráða 100 þús. kr. í hlutafé, eða 1/54 hluta af þáverandi kaupverði skipsins. Um ábyrgð ríkissjóðs á láni þessu fór, svo sem kunnugt er, þannig, að öll lánsupphæðin lendir á ríkinu, og munu vextir og afborganir, sem ríkissjóður verður að greiða vegna Keilis áður en lýkur, nema samtals 9 millj. kr., og það mun sennilega ofmetið í grg. með þessari þáltill, að upp í þá fjárhæð fái ríkissjóður 2 millj. kr. vegna sölu á skipinu. Samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef síðar fengið, munu þær 2 millj. kr. hafa farið til greiðslu á sjóveðum, sem á skipinu hvíldu, og kostnaði, eftir að ríkið yfirtók það, svo að tap ríkissjóðs af ábyrgðum á lánum vegna togarakaupa Ásfjalls h/f mun verða um 9 millj. kr. samkv. núverandi gengi, eða 90 sinnum hærri upphæð en hlutafé það, sem hluthafar lögðu fram til þess að fá ríkisábyrgðina.

Vegna þess að þeir, sem hafa orðið til þess að bera í bætifláka fyrir þessar ráðstafanir, hafa helzt gripið til þess að skjóta sér bak við aflaleysi og aðra erfiðleika togaraútgerðarinnar, þá vil ég enn einu sinni taka það fram, að þáltill. þessi er ekki flutt vegna þess, að okkur flutningsmönnum hafi þótt óeðlilegt, að Ásfjall h/f hafi orðið gjaldþrota á tímum aflabrests og viðreisnarkjara, né heldur höfum við haldið því fram, að togari fyrirtækisins hafi verið verr rekinn en aðrir. Við teljum jafnvel, að grundvöllur fyrir rekstri þessa gamla, úrelta togara á því verði, sem hann var keyptur á, hafi aldrei verið til. Það er strax fremur hugsanlegt, að aðili, sem keypti hann á 2 millj. kr. út úr skuldahrúgunni, gæti gert hann út.

Það, sem er athyglisvert í þessu máli og rannsóknarskylt, er, hvernig hæstv. fjmrh. hefur farið með þær heimildir, sem Alþ. veitti til ríkisábyrgðar. Af ræðu hæstv. ráðh. hinn 27. marz s.l. var eigi annað að heyra en honum þættu ráðstafanir þessar allar eðlilegar og með felldu. Honum þykir sýnilega nóg aðgæzla varðandi svo til hlutafjárlaust félag að taka einungis veð í tíu ára gömlum togara fyrir milljónafjárhæðum og styðjast aðeins við upplýsingar þess, sem lánið fær. Orðrétt sagði hæstv. ráðh. hinn 27. marz s.l., með leyfi hæstv. forseta:

„Hann (þ.e.a.s. Axel Kristjánsson) hafði látið sérstakan trúnaðarmann, sem mikið hefur fengizt við eftirlit með skipaviðgerðum, athuga skipið fyrir sig. Niðurstaðan varð sú að ráði þessa sérfræðings, að Axel Kristjánsson ákvað að kaupa skipið, eftir að við það hafði verið gert, eins og sérfróður maður hafði tjáð honum að nauðsynlegt væri, og var verð skipsins þá ákveðið 900 þúsund þýzk ríkismörk. Ríkisstj. sneri sér til fjvn., sendi henni upplýsingar um kaupverð skipsins og skipið sjálft“ — væntanlega þá upplýsingar Axels Kristjánssonar.

Það má vera, að hæstv. ráðh, þyki þessi viðskipti öll eðlileg. En hitt er fullvíst, að almenningi í landinu, sem borgar brúsann, í þessu tilfelli 9 millj. kr., þykir þessi viðskipti ekki eðlileg og full þörf á því, að þau verði rannsökuð. Svo sem ég áður sagði, er það athugavert og rannsóknarskylt, hvernig hæstv. fyrrv. fjmrh. hefur farið með þær heimildir, sem Alþ. samþykkti, til þess að ríkisábyrgð yrði veitt Ásfjalli h/f. Alþ, setti það skilyrði, að teknar yrðu gildar tryggingar. Nú er ljóst, að þær tryggingar, sem látnar voru nægja, voru bókstaflega einskis virði. Ríkissjóður fær sennilega ekki eyris virði til baka af þeim 9 millj. kr., sem hann verður að greiða vegna ábyrgðarinnar. Óupplýst er, hvort nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til þess að afla frekari trygginga en þeirra, sem nú hafa reynzt einskis virði, þótt þeir, sem að togarakaupunum stóðu, hættu svo til engu sjálfir og hefðu átt að geta sett frekari tryggingar. Þeir hafa hætt 1/90 af því, sem ríkið tapar. Hlutafétagið er úr sögunni, og ekkert kemur upp í töpin. Hér er ólíku saman að jafna eða þegar bæjarfélagi er veitt ábyrgð, sem það ber síðan áframhaldandi ábyrgð á, jafnvel þótt útgerðin tapi. En þegar þannig er gengið frá ábyrgðum, sem veittar eru í skjóli samþykktar Alþingis, er rétt, að Alþ. sjálft fái að kanna þetta mál frá rótum. Ábyrgð ríkissjóðs var veitt á láni, sem nemur 80% af uppgefnu kaupverði hins gamla togara, og algerlega er óupplýst, hvernig það kaupverð hefur verið sannreynt. Ekki hefur heldur verið upplýst, hver voru vottorð trúnaðarmanna ríkissjóðs um veðhæfi skipsins, heldur aðeins vísað til umsagnar ráðunauta kaupandans sjálfs um ástand þessa 10 ára gamla, vélvana togara. Ríkissjóður hefur verið látinn sjá um ábyrgðina á lánunum, en kaupandinn um vottorðin. Ekki er heldur aðeins um það að ræða, að ábyrgðin hafi verið látin til fjárlauss hlutafélags gegn ónógum eða gagnslausum tryggingum í úreltum togara, heldur hefur ábyrgðin auk þess verið veitt á miklu hærri lánsfjárhæð í íslenzkum peningum en Alþingi nokkru sinni heimilaði.

Í heimild Alþingis er skýrt tekið fram, að ábyrgðin megi nema allt að 4 millj. 320 þús. ísl. kr., og hærri upphæð auk vaxta átti ríkissjóður ekki að geta tapað á ábyrgðarveitingu þessari, þótt ekkert fengist fyrir togarann. En nú liggur fyrir, að tap ríkisins verður ekki aðeins 4 millj. 320 þús. kr., heldur um 9 millj. kr. með núv. gengi, eða meira en tvöfalt hærra. Ákvæði í heimild Alþ. um, að ábyrgðin færi ekki fram úr 4 millj. 320 þús. kr., hefur í engu verið virt og ábyrgðin veitt í þýzkum mörkum, sem þá svaraði til þeirrar upphæðar, en án nokkurrar tryggingar gegn gengisbreytingu, sem vitað var að þeir, sem ábyrgðina veittu, stefndu að. Allir aðrir, sem ríkisábyrgð hafa fengið, hafa orðið að setja sérstaka tryggingu vegna gengisáhættu, og ég minnist þess t.d., að aðilar, sem voru að kaupa ný og svo til ný fiskiskip erlendis, sóttu um og fengu samþykktar bæjarábyrgðir hjá bæjarsjóði Hafnarfjarðar einungis til tryggingar vegna gengisáhættu, þ.e.a.s. einungis vegna hugsanlegrar hækkunar lánanna í íslenzkum krónum. Þar var þó um að ræða skip, sem víst var að hækkuðu í verði í beinu hlutfalli við lækkun krónunnar.

Axel Kristjánsson sótti líka um bæjarábyrgð hjá sama bæjarfélagi, en ekki til þess að tryggja ríkissjóð gegn gengisáhættu, sú krafa virðist ekki hafa verið til hans gerð, heldur sótti hann um ábyrgð vegna annarra lánardrottna, sem ekki sættu sig við veð í togaranum einum, eins og hæstv. fyrrv. fjmrh. lét nægja. Þegar hins. vegar kom í ljós, að kaupendur Keilis vildu engu hætta sjálfir vegna kaupa togarans, þá var bæjarábyrgðin ekki veitt og bæjarsjóður með því firrtur 11/2 millj. kr. tjóni. Tjónið lendir hins vegar á ríkissjóði í svo ríkum mæli; að þar er um að ræða níutíufalt hlutafé Ásfjalls h/f eða 9 millj. kr. Hlutafélag stórríkra aðila hefur hins vegar ekki hætt meiru til kaupanna en 100 þús. kr., ef þær hafa þá nokkru sinni verið greiddar inn. Þar á ofan er ljóst, að veitt ábyrgð er miklu hærri en samþykkt Alþingis leyfir, og fyrir þeim millj., sem umfram eru, hefur alls engin sérstök trygging verið tekin. Hér hefur því sýnilega verið brotið gegn ákvæðum í samþykktum Alþingis, bæði að því er varðar nægar tryggingar fyrir þeirri ábyrgð, sem var heimiluð, svo og hefur verið veitt stórum hærri ábyrgð en nokkur heimild er til fyrir.

Þar sem ráðstafanir þessar hafa valdið ríkissjóði milljónatapi, teljum við flm., að eigi verði hjá því komizt, að Alþ. sjálft kanni þetta mál ofan í kjölinn og rannsaki, hvernig með samþykktir þess og fyrirmæli hefur verið farið. Þar sem bornar hafa verið fyrir ráðstöfunum þessum samþykktir þingsins, sem sýnilegt er þó að brotið hefur verið gegn, er rétt, að Alþ. kanni sjálft, hvernig notaðar hafa verið og misnotaðar heimildir þess. Almenningur hlýtur auk þess að telja, að hér hafi verið svo óvarlega farið og á svo einstakan hátt, að rannsóknar sé þörf í öllu þessu máli. Öll tregða á því, að það sé gert, bendir einungis til þess, að ekki sé allt með felldu um ráðstafanir þessar.

Þá er komið að öðrum þætti þessa máls, sem snýr að sömu aðilum, og er þar einnig um að ræða meðferð hæstv. fyrrv. fjmrh. á samþykktum Alþingis. Í þáltill. þeirri, er hér liggur fyrir, er einnig lagt til, að rannsökuð verði viðskipti fjmrn. og Axels Kristjánssonar í sambandi við útgerð hans á togaranum Brimnesi í ábyrgð ríkissjóðs. Seyðisfjarðarkaupstaður átti togarann Brimnes og gerði hann út þar til snemma á árinu 1959, að útgerð hans stöðvaðist vegna fjárskorts. Minnihlutastjórn Alþfl., sem þá fór með völd, lét rannsaka fjárreiður útgerðarinnar, og á fjárlögum ársins 1959 fékk ríkisstj. samþykkta svo hljóðandi heimild frá Alþingi, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórninni er heimilt að annast og ábyrgjast rekstur togarans Brimness fyrir Seyðisfjarðarkaupstað til 1. sept. n.k. (þ.e.a.s. 1959), með það fyrir augum, að afla skipsins verði landað sem mest á Seyðisfirði, þó þannig, að rekstrarafkomu þess sé ekki stefnt í hættu með löndun aflans þar. Enn fremur að innleysa gegn veði í skipinu áhvílandi sjóveðs- og fjárnámskröfur.“

Hæstv. fyrrv. fjmrh. notaði þessa heimild til þess að taka skipið af útgerðarstjórn þess og fá það einum einasta manni, Axel Kristjánssyni, til rekstrar á ábyrgð ríkissjóðs. Svo mjög óvenjur leg og vafasöm sem slík ráðstöfun var, þá var hitt þó hálfu ámælisverðara af hæstv. ráðh., að halda áfram svo hæpnum ráðstöfunum fram yfir þann tíma, sem Alþ, hafði heimilað að ríkið annaðist rekstur togarans. Fyrirmæli Alþingis um, að heimild þessi gilti aðeins til 1. sept. 1959, voru að engu höfð, heldur var þessi einstaklingur, sem enga útgerðarstjórn hafði yfir sér og enginn samningur hafði verið gerður við, látinn gera út skipið upp á algert eindæmi, en á ábyrgð ríkissjóðs, fram á mitt árið 1960, án þess að þingið eða fulltrúar stjórnmálaflokkanna væru um spurðir.

Í heimild Alþingis var það fram tekið, að útgerð skipsins á ábyrgð ríkissjóðs var samþ. í því skyni, að afla skipsins yrði sem mest landað á Seyðisfirði, en sú viljayfirlýsing Alþ, var einnig að engu höfð. Til Seyðisfjarðar kom Brimnesið aldrei síðan, heldur lagði það aflann upp í frystihús Axels Kristjánssonar í Kópavogi og var gert út samhliða togara Ásfjalls h/f, Keili, sem fyrr er getið, og hefur síðan komið í ljós, svo sem við mátti búast, að reytur þeirra rugluðust saman. Mega þetta heita furðulegar ráðstafanir, þar sem eini hagnaðurinn, sem um gat verið að ræða af rekstri Brimnessins, hlaut að felast í því að fá afla hans til verkunar, en sá afli fór ekki til eigenda hans á Seyðisfirði, heldur í einkafrystihús þess aðila, sem gerði togarann út á ábyrgð ríkissjóðs.

Eftir að Brimnesið hafði verið gert út á ábyrgð ríkissjóðs í tæpt ár án heimildar Alþingis, stöðvaðist útgerð þess vegna taprekstrar, og síðan hefur það legið í reiðileysi í Reykjavíkurhöfn.

Þegar þáltill. þessi var borin fram vorið 1961, höfðu engir reikningar sézt vegna útgerðar Brimness á árinu 1959, þótt ríkisreikningar þess árs hefðu verið birtir. Margsinnis var spurt um útkomuna á rekstrinum árið 1959, en ekkert svar fékkst, hvað þá heldur fyrir árið 1960. Viðbrögðin við flutningi þessarar till. í fyrra voru á þann veg, að fullyrt var, að hér væri um ástæðulausa rannsóknarkröfu að ræða, flutningur hennar væri pólitísk ofsókn og mannhatur, og ég man ekki, hvað meira, — farið með staðlausa stafi og aðdróttanir, og gekk jafnvel svo langt, að grg. till. fékkst ekki lesin í þingfréttum. Með tilliti til þessa og svo að ljóst sé, að fleiri eru þá haldnir þessu innræti en flm. till., þá er í þetta skipti birt greinargerð endurskoðenda ríkisreikninganna fyrir árið 1960 um útgerð Axels Kristjánssonar á togaranum Brimnesi á ábyrgð ríkissjóðs. Sé ég ekki ástæðu til að rekja þá grg. hér. Þær athugasemdir getur hver hv. þm. kynnt sér og metið, hvort þær styðja í nokkru þær ábendingar, sem við flm. gerðum fyrir ári um þetta mál.

Hæstv. fyrrv. fjmrh. fullyrti hins vegar í lok ræðu sinnar hinn 27, marz 1961, þegar till. þessi var rædd, að ekkert væri við rekstur Brimnessins að athuga, og sagði orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Að því er ég bezt veit til, þá hefur þarna ekkert það gerzt, sem gefur tilefni til neinnar sérstakrar rannsóknar.”

Var þó ekki ókunnugleika hans á málinu fyrir að fara, því að fyrr í ræðunni hafði hæstv. ráðh. sagt, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég fylgdist með rekstri skipsins, á meðan ég var í fjmrn., og ég veit með vissu, að eftir að ég fór þaðan, hefur áfram verið fylgzt með rekstri þess:

Hæstv. ráðh. hafði sem sagt fylgzt með hlutunum. Sennilega hefur það átt að koma í stað útgerðarstjórnar, því að hún var ekki til, þar sem allt var lagt í hendur einum manni.

Þetta mál er frá upphafi þannig vaxið og þannig með heimildir Alþingis farið, að meira þarf til rannsóknar í því en þá bókhaldsrannsókn, sem heitið er í athugasemdum við ríkisreikningana, jafnvel þótt hún fari einhvern tíma fram, en stundum hafa viljað dragast framkvæmdir á fyrirheitum, sem fram koma í athugasemdum með ríkisreikningum.

Bæði þau mál, sem hér hafa verið rakin, varðandi viðskipti fjmrn. og meðferð og misnotkun rn. á samþykktum Alþingis, þarf Alþ. sjálft að kanna til hlítar. Þær ráðstafanir, sem gerðar eru í blóra við Alþingi, þarf Alþ. sjálft að rannsaka. Í þessum málum, sem valdið hafa ríkissjóði milljónatjóni, hafa heimildir Alþ. verið bornar fyrir til málsbóta, þótt vitað sé, að þær hafi verið beinlínis misnotaðar eða brotið hefur verið gegn þeim. Einmitt þess vegna þarf þingið sjálft að rannsaka þessi mál bæði, kanna, hvernig farið hefur verið með þær heimildir, sem það hefur veitt, hversu þær hafa verið misnotaðar til þess að veita hærri ábyrgðir en heimilaðar voru, hvernig látin hafa verið nægja einskis nýt veð frá aðilum, sem höfðu full efni á að setja frekari tryggingar, og hver ber ábyrgð á tapi, sem hlýzt af útgerð, sem rekin er á kostnað ríkissjóðs, eftir að útrunninn er sá tími, sem heimild Alþingis tekur til, og hver ber ábyrgð á milljónatjóni af ríkisábyrgðum fram yfir það, sem Alþ. hefur heimilað að ábyrgzt væri.

Ég held, að þeir aðilar, sem sérstaklega finnst brenna á sér þessi hneykslismál, ættu ekki í þetta skipti að hafa í frammi sömu viðbrögðin og í fyrra með reiðiköstum og hótunum í garð flutningsmanna. Það mundi að vísu sem fyrr verða látið sem vindur um eyru þjóta. Málið er bara ekki svo einfalt, að þeir, sem það snýr að, geti afgr. það með þeim hætti. Krafan um fullkomna og undanbragðalausa rannsókn í báðum þessum málum er nefnilega ekki einungis krafa flutningsmanna þessarar þáltill., heldur alls almennings í landinu, þess almennings, sem er látinn taka á sig milljónatöpin, sem af þeim viðskiptum hafa hlotizt, er hér hefur verið lýst.

Hv. forseti. Ég leyfi mér að leggja til, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. fjhn.