18.12.1961
Sameinað þing: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í B-deild Alþingistíðinda. (373)

1. mál, fjárlög 1962

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég mun ekki fara hér neinum almennum orðum um afgreiðslu fjárlaganna, enda hefur skoðun mín komið fram í nál. 1. minni hl. fjvn., sem ég hef undirritað, og tel því ekki ástæðu til að fara um það mörgum orðum. Hins vegar stend ég að nokkrum brtt. ásamt samflokksmönnum mínum í Norðurl. e. Þessar till. eru á þskj. 247 og 244. Hv. 3. þm. Norðurl. e. (GíslG) hefur gert grein fyrir allmörgum og flestum af þessum till., en ég mun ræða hér örlítið þær till., sem hann kom ekki inn á í sinni ræðu.

Það er þá fyrst hér að nefna till. á þskj. 247, en þar leggjum við til, að hækkað verði framlag til þriggja vega í Eyjafjarðarsýslu af fjórum, sem nefndir eru í fjárlagafrv. Þessir vegir eru Ólafsfjarðarvegur, við leggjum til, að hann fái 50 þús. kr. hækkun, hækki úr 150 þús. í 200 þús., og eins, að Múlavegur, sem tengir saman Ólafsfjörð og Dalvík, fái 650 þús., og er það um 150 þús. kr. hækkun, eins, að Hörgárdalsvegir hækki nokkuð, úr 130 þús. í 160 þús.

Þá leggjum við einnig til á þessu sama þskj., undir IV, að framlag til hafnarmannvirkja í Hrísey verði hækkað úr 300 þús. í 500 þús. Það er ástæða til að minnast aðeins frekar á þessa till. Þannig er ástatt nú í Hrísey, að hafnarmannvirki, sem þar eru orðin allgömul, eru orðin mjög hrörleg og þurfa verulegra endurbóta við. Hefur verið gerð áætlun um það, hvað kosta muni að gera við það, sem sérstaklega brýnt er að laga í bráð, og nemur sú áætlun 3 millj. kr. Nú háttar þannig með þessa endurbót, að talið er, að gera þurfi sem allra mest í einu af henni, ef hún eigi að koma að notum. Það er áætlað á fjárlagafrv. að leggja til 300 þús. kr., en að auki hafa Hríseyingar von um að geta fengið af sínu eigin fé, sem þeir hafa safnað heima fyrir, 500–600 þús. kr., og auk þess hafa þeir lánsmöguleika hjá Brunabótafélagi Íslands upp á 300 þús. kr. Þar að auki hefur komið til tals, að Hríseyjarhreppur gangi inn í atvinnuleysistryggingasjóð sem aðili að honum, en það hefur ekki verið til þessa, og þá opnast þar líka lánsmöguleikar fyrir hreppinn til þessa hafnarmannvirkis. Ef nú er bætt við, eins og við leggjum til hér, þessum 200 þús., má segja, að þá sé um að ræða allríflega fjárhæð samtals, sem Hríseyjarhreppur hefði til þess að koma upp þessari bryggju, eða lagfæra hana eins og nauðsynlegt er. Þess má geta, að undanfarin ár hafa verið mjög litlar fjárveitingar til hafnargerðar í Hrísey og s.l. ár voru þær algjörlega felldar niður og var það gert í samráði við hreppinn og þá jafnframt gert ráð fyrir því, að framlagið á þessu ári yrði það ríflegt, að það munaði verulega um það í sambandi við byrjunarframkvæmdir á bryggjugerðinni í Hrísey. Ég tel því, að hv. Alþ. ætti að samþykkja þessa till. okkar til hækkunar, og legg eindregið til, að svo verði.

Þá vil ég minnast á till., sem er á þessu sama þskj., 247, og það er um nýjan lið á 14. gr. A, við liðinn, sem fjallar um nýja skóla. Þar leggjum við til, að lagt verði til Árskógsskólahverfis 75 þús. kr. sem byrjunarfjárveiting til byggingar skólastjórabústaðar. Þessi skólastjórabústaður er að vísu hugsaður sem áfangi í stærri skólabyggingu, en eftir því, sem okkur er tjáð þaðan að heiman, þá er það mjög brýnt og það brýnasta í skólamálum þeirra á Árskógsströnd að koma upp sómasamlegri skólastjóraíbúð, því að skólastjórinn, sem nú er, býr við mjög þröng húsakynni.

Að lokum vil ég minnast á till. á þessu sama þskj., X. lið, en þar endurflytjum við till., sem,. við fluttum við 2. umr., um hækkun framlags til tónlistarskólans á Akureyri úr 40 þús. kr. upp í 80 þús. kr., en til vara leggjum við til, ef það verður ekki samþykkt, að hækkunin nemi 20 þús. kr., þ.e. verði 60 þús. Ég hef áður gert grein fyrir ástæðunum fyrir þessari hækkun til tónlistarskólans og mun ekki eyða lengra máli í það að þessu sinni, en vona hins vegar, að hv. Alþ. geti fallizt á það með okkur að hækka þessa fjárveitingu.