28.03.1962
Sameinað þing: 46. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í D-deild Alþingistíðinda. (3760)

307. mál, fæðingarorlof

Fyrirspyrjandi (Margrét Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég leyfi mér að bera fram fsp. á þskj. 435 til hæstv. félmrh., svo hljóðandi: „Hvað hefur félmrn. gert til undirbúnings löggjöf um fæðingarorlof eða fyrirgreiðslu því máli, sem vísað var til þess með samþykkt Alþingis 16. marz 1961? Er þess að vænta, að rn. leggi frv. fyrir Alþingi um málið á þessu þingi?”

Íslenzkar ríkisstj. hafa um nokkurt árabil viðurkennt réttmæti fæðingarorlofs með því að heimila þau til handa konum, sem eru fastráðnir ríkisstarfsmenn. Einstaka verkalýðsfélög hafa þegar fengið þau viðurkennd í kjarasamningum sínum og öll verkalýðsfélög munu hafa hug á því. Nokkuð mun það og viðgangast, að einkafyrirtæki veiti konum, sem hjá þeim starfa, leyfi með fullum launum um hæfilega langan tíma vegna barnsburðar. Loks má geta þess, að fyrir liggur samþykkt frá þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um þriggja mánaða fæðingarorlof, og er þeim þjóðum, sem eru aðilar að þeirri stofnun, — en svo sem kunnugt er, er Ísland í þeirra hópi, — ætlað að fullgilda þá samþykkt. Að þessu öllu athuguðu er ljóst, að fyllilega er tímabært, að samræmd verði aðstaða íslenzkra kvenna, sem eru launþegar, með löggjöf um þetta efni, enda var það yfirlýstur tilgangur meiri hl. heilbr.- og félmn., sem gerði till. um að vísa því frv., sem um þetta efni var flutt hér í hv. d. í nóv. 1960, til ríkisstj., svo sem fram kemur í fsp. En þar sem allmjög er nú liðið á þingtímann og enn hefur ekkert komið frá hendi hæstv. ríkisstj. um málið, þótti mér rétt að grennslast um framgang þess, og vænti ég glöggra og greiðra svara frá hæstv. félmrh.