28.03.1962
Sameinað þing: 46. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í D-deild Alþingistíðinda. (3761)

307. mál, fæðingarorlof

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Spurt er: „Hvað hefur félmrn. gert til undirbúnings löggjöf um fæðingarorlof eða fyrirgreiðslu því máli, sem vísað var til þess með samþykkt Alþingis 16. marz 1961?” Og í öðru lagi: „Er þess að vænta, að rn. leggi frv. fyrir Alþingi um málið á þessu þingi?“

Eins og fyrirspyrjandi gat um, var lagt fram á Alþ. rétt fyrir áramótin 1960—61 frv. til l. um fæðingarorlof. í þessu frv. var gert ráð fyrir, að allar konur, sem taka laun fyrir vinnu sina, skuli eiga rétt á orlofi vegna barnsburðar, og til þess að standa straum af framkvæmd þessara laga skuli mynda sjóð í vörzlu Tryggingastofnunar ríkisins og að tekjur sjóðsins skuli vera iðgjöld greidd af öllum aðilum í landinu, sem hafa launþega í þjónustu sinni.

Þessu frv. var vísað til ríkisstj.

Af því að hér er um að ræða mjög skylt mál tryggingamálum almennt og gert ráð fyrir, að Tryggingastofnun ríkisins hafi með framkvæmd þess að gera og innheimti gjöldin til sjóðsins á svipaðan hátt og önnur tryggingagjöld eru innheimt, þá var málinu vísað til mþn., sem endurskoðar almannatryggingarnar, og hefur hún málið nú til meðferðar. Vegna þess að hún hefur ekki skilað áliti, get ég svarað síðari hluta fyrirspurnarinnar þannig, að þar sem nú liður mjög á starfstíma Alþingis, þá geri ég ekki ráð fyrir, að frv. komi fram á þessu þingi um málið, heldur verði það látið bíða endanlegrar afgreiðslu mþn.