18.12.1961
Sameinað þing: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í B-deild Alþingistíðinda. (378)

1. mál, fjárlög 1962

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað að taka til máls, en af því að það gafst sérstakt tilefni til þess í sambandi við ræðu hv. 4. þm. Vestf. (SE), vildi ég aðeins gefa nauðsynlegar upplýsingar.

Hv. þm. hefur ásamt fleirum flutt hér till. um það, að ríkisstj. verði gefin heimild til þess að ábyrgjast allt að 4 millj. kr. lán fyrir Flugfélag Íslands eða annan aðila til flugvélakaupa. Það er rétt að upplýsa það, að í sumar og haust hefur starfað þriggja manna nefnd til þess að athuga, hvernig samgöngur við Vestfirði og aðra þá staði, sem sjóflugvélin hafði samband við, verði leystar. Í þessari nefnd átti sæti hv. 1. þm. Vestf., Gísli Jónsson, flugmálastjóri og Björn Pálsson flugmaður. Nefndin hefur skilað áliti sínu til ráðuneytisins, og hef ég haldið fundi með nefndinni ásamt forstjóra Flugfélags Íslands. Hefur verið kannað, á hvern hátt mætti mæta óskum þessara byggðarlaga, sem áður höfðu samgöngur með sjóflugvélinni. Forstjóri Flugfélags Íslands hefur látið þá skoðun í ljós, að Flugfélagið væri reiðubúið að kaupa flugvél, sem gæti veitt svipaða þjónustu og sjóflugvélin gerði. Á þeim fundi, sem ég átti með nefndinni og forstjóranum, var rætt um það, hvort Flugfélagið óskaði ekki eftir að fá ríkisábyrgð til þess að geta keypt þessa flugvél, og var að heyra á forstjóra félagsins, að þess gerðist ef til vill þörf. Óskar hann eftir að hugsa málið nánar, og ef hann teldi það nauðsynlegt, þá ætlar hann að skrifa ráðuneytinu um það nægilega fljótt til þess, að unnt væri að flytja tillögu um það í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna. Það dróst að fá þetta bréf, og talaði ég því við forstjóra Flugfélagsins, en hann taldi, að eftir að hann hefði haft fund með stjórn félagsins, þá hefði stjórnin og hann komizt að þeirri niðurstöðu, að það væri ekki þörf á ríkisábyrgð, Flugfélagið hefði möguleika til þess að kaupa flugvél sem þessa án ríkisábyrgðar. Það var þess vegna í samráði við hv. 1. þm. Vestf., að fallið var frá því að fara fram á ríkisábyrgð til handa Flugfélaginu. Ég tel nauðsynlegt, að þetta komi hér fram og hv. 4. þm. Vestf. sem og aðrir hv. þm. viti, að undir forustu hv. 1. þm. Vestf. hefur verið unnið að lausn þessara mála, sem hv. 4. þm. Vestf. talaði eðlilega nokkuð hér um, og undrar það mig ekki, þótt hann hefði áhuga á að leysa málið.

En það eru fleiri staðir en Vestfirðir, sem hér er um að ræða, t.d. Siglufjörður. Sjóflugvélin flaug nokkuð reglulega einnig til Siglufjarðar, en flugferðir til Siglufjarðar hafa fallið niður að mestu leyti síðan sjóflugvélin var tekin úr umferð.

Forstjóri Flugfélags Íslands hefur fallizt á að kaupa flugvél, sem gæti annazt flugferðir til þessara staða, sem hér er um að ræða, til Vestfjarða og fleiri staða, sem sjóflugvélin annaðist. En það er auðvitað rétt, sem um hefur verið rætt, að til þess að flugvél af stærð þeirri, sem Björn Pálsson notar, eða kannske litlu stærri, komi að notum, þarf að laga flugvelli á Vestfjörðum, Siglufirði og víðar, lengja flugbrautirnar lítils háttar frá því, sem þær eru nú, og nefndin, sem starfaði að þessu á s.l. sumri og í haust, hefur lagt á það ríka áherzlu og gert tillögur um það. Hv. 4. þm. Vestf. hefur ekki vitað um þetta, þess vegna flutti hann sína ræðu í því formi, sem hún var, og þess vegna er hún frá mínu sjónarmiði eðlileg. En eftir að hann hefur fengið þær upplýsingar, sem ég nú veiti, þá tel ég eðlilegt, að hann taki tillöguna um ríkisábyrgðina aftur, vegna þess að Flugfélagið, sem býðst til þess að veita þá þjónustu, sem sjóflugvélin áður gerði, hefur ekki talið ástæðu til að fá ríkisábyrgð.