18.12.1961
Sameinað þing: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (384)

1. mál, fjárlög 1962

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Á þskj. 253, V, hefur hv. 5. þm. Vesturl. og ég flutt brtt. við frv. til fjárl., við 18. gr. rómv. II, að veitt verði eftirlaun til Sveindísar Hansdóttur, ekkju Daníelíusar Sigurðssonar hafnsögumanns í Rifi, en Daníelíus lézt á s.l. hausti. Daníelíus heitinn Sigurðsson var skipaður hafnsögumaður í Rifi, er siglingar hófust þangað. Hann var ráðinn til þessara starfa af hafnarráði Rifshafnar. Jafnframt voru honum falin önnur störf í þágu hafnarinnar. Það leikur því ekki á tveimur tungum, að Daníelíus heitinn var opinber starfsmaður, og ber því ekkju hans, Sveindísi Hansdóttur, að fá einhver eftirlaun úr ríkissjóði, eins og hv. 5. þm. Vesturl. og ég höfum leyft okkur að bera fram á nefndu þskj.

Um miðjan nóvember skrifaði ég hv. fjvn. og bar þá ósk fram, að ekkju Daníelíusar Sigurðssonar yrðu veitt eftirlaun úr ríkissjóði. Af einhverjum misskilningi dró hv. fjvn. þá ályktun, að Daníelíus heitinn Sigurðsson hafi ekki verið opinber starfsmaður. Þetta er alger misskilningur, eins og ég hef hér bent á. Einnig má leiða athygli að því, að eftirlauna úr ríkissjóði njóta hafnsögumenn, sem látið hafa af störfum vegna aldurs. Og að sjálfsögðu eiga ekkjur þeirra einnig að njóta þeirrar aðstoðar, er eiginmenn þeirra falla frá. Er mér ljóst, að hv. fjvn. hefur ekki viljandi óskað að svipta ekkju Daníelíusar heitins réttmætum eftirlaunum, heldur er hér um misskilning að ræða af nefndarinnar hálfu, sem hv. 5. þm. Vesturl. og ég höfum í nefndri brtt. viljað leiðrétta. Væntum við þess, að hv. alþm. samþykki brtt. okkar og þar með veiti frú Sveindísi Hansdóttur 6000 kr. eftirlaun.