17.10.1961
Neðri deild: 0. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

36. mál, sveitarstjórnarkosningar

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þegar lögin um sveitarstjórnarmál voru afgreidd hér á síðasta þingi, var ekki hróflað við lögunum um sveitarstjórnarkosningar. Nú er það svo, að um næstu áramót, þegar lögin um sveitarstjórnarmál koma til framkvæmda, sem síðasta Alþingi samþykkti, falla jafnframt úr gildi mörg atriði í núgildandi lögum um sveitarstjórnarkosningar, sem snerta annað en kosningarnar sjálfar. Það hefur því þótt rétt og sjálfsagt að endurskoða þessi lög, og hefur verið samið frv. til laga um sveitarstjórnarkosningar að nýju. Þetta frv. um sveitarstjórnarkosningar er ákaflega einfalt. Þar er raunverulega haldið sig við það, að lög um kosningar til Alþingis frá 1959 skuli gilda um kosningar til sveitarstjórna og sýslunefnda, eftir því sem við á, með þeim fáu frávikum, sem talin eru upp í frv. Þessi frávik eru svo einföld og lítil fyrirferðar, að ég tel óþarft að rekja þau. Það eru teknisk atriði allt, þar sem talið er nauðsynlegt að greina lítils háttar á milli þessara laga og alþingiskosningalaganna, og ég tel óþarft að rekja það frekar en í frv. og í grg. er gert.

Ég vil leyfa mér að leggja til, herra forseti, að frv. verði að þessari umræðu lokinni vísað til hv. allshn.