08.12.1961
Neðri deild: 33. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í B-deild Alþingistíðinda. (441)

36. mál, sveitarstjórnarkosningar

Fram. (Sigurður Ingimundarson):

Háttv. forseti. Allshn. hv. d. hefur haft til athugunar mál það, sem hér liggur fyrir til umr., mál nr. 36, um sveitarstjórnarkosningar. Hefur n. borið það saman við gildandi lög um sama efni.

Núgildandi lög um sveitarstjórnarkosningar, nr. 81 1936, innihalda mörg ákvæði, sem varða ekki kosningar sérstaklega, en eru miklu fremur um skipulag sveitarstjórna almennt. Öll þessi ákvæði um stjórn og skipulag sveitarstjórna hafa nú verið tekin upp í hin nýju sveitarstjórnarlög, og eru ákvæði kosningalaganna um það efni felld úr gildi eða falla úr gildi 1. jan. n.k. með gildistöku sveitarstjórnarlaganna. Æskilegt mátti telja, að lögin um sveitarstjórnarkosningar yrðu endursamin.

Meginefni þess frv., er hér liggur fyrir, kemur fram í 1. gr. frv., en þar er svo ákveðið, að lögin um kosningar til Alþingis, nr. 52 14. ágúst 1959, skuli einnig gilda um kosningar til sveitarstjórna og sýslunefnda, eftir því sem við á, en með þeim frávikum, sem nánar er tiltekið í öðrum greinum frv., um atriði, er nauðsynlegt var að setja viðbótarákvæði varðandi sveitarstjórnarkosningar sérstaklega. Ákvæði þessa frv. eru þó efnislega svo til óbreytt tekin upp úr gildandi lögum. Þær fáu breytingar, sem frv. felur í sér beint með hinum sérstöku ákvæðum, sem aðeins gilda um sveitarstjórnarkosningar, og óbeint með því að láta lögin um alþingiskosningar einnig gilda um sveitarstjórnarkosningar, eru raktar í frv. sjálfu, og sé ég ekki ástæðu til þess að rekja þær hér. Engar þessara breytinga verða taldar mikilvægar eða líklegar til þess að valda ágreiningi. Er nánast um samræmingar og mjög eðlilegar smærri breytingar að ræða. Má þar t.d. nefna samræmingu á áfrýjunarfresti í sambandi við úrskurði hreppsnefnda og lengingu framboðsfrests í 4 vikur og 3 daga, var víst áður 21 dagur, og er það gert til samræmingar við framboðsfrest til Alþingis.

Frv. var sent Sambandi ísl. sveitarfélaga til umsagnar, og fékk nefndin það svar, að stjórn sambandsins hafi á sínum tíma í sumar fjallað um frv., þegar það var í undirbúningi í félmrn., og hafi þá þegar lýst sig fylgjandi þeirri stefnu, sem fram kemur í frv. í hv. allshn. hefur enginn ágreiningur verið um afgreiðslu málsins. Það er talin eðlileg afleiðing þeirra tveggja lagasetninga, sem ég hef áður getið um, laganna um alþingiskosningar og laganna um stjórn og skipulag sveitarstjórna, og talið til bóta að hreinsa til í eldri löggjöf, sem að nokkru leyti hefur þegar verið felld úr gildi eða fellur úr gildi innan fárra vikna.

Hv. forseti. Nefndin er sammála um að leggja til, að frv. verði samþykkt óbreytt.