05.03.1962
Neðri deild: 59. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í B-deild Alþingistíðinda. (489)

95. mál, erfðalög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég get að mörgu leyti sætt mig við þá skoðun, sem hæstv. ráðh. hefur sett hér fram, og er honum sammála í því, að ég tel, að sumt í þessu frv., sem hér er til umr., sé til bóta, og mun þar af leiðandi greiða atkv. með frv., þó að það verði samþykkt óbreytt. Ég tel m.a., að það sé til bóta að stækka hlut eftirlifandi maka, og tel það vera veigamikið atriði í frv. Og þó að menn séu ekki að öllu leyti ánægðir með ákvæði frumvarps, þá gefst tími alltaf til þess að gera við það breytingar síðar meir, þegar reynslan sýnir, hvar skórinn kreppir mest að, svo að ég mun að sjálfsögðu greiða atkv. með frv., þó að mínar tillögur verði ekki samþykktar.

Ég er sérstaklega þakklátur hæstv. ráðh. fyrir að hafa lýst því hér yfir, að þegar þetta frv. hefði náð fram að ganga og væri orðið að lögum, þá yrði snúið sér að hinum hluta þál., um endurskoðun á lögum um erfðafjárskattinn, því að eins og kom fram í umræðum um þessi mál á s.l. þingi, var nauðsynlegt að ákveða með nýrri erfðalöggjöf, hvernig flokka skuli arftaka. Um þetta er ég honum sammála, enda leit síðasta þing svo á, að ekki væri hægt að ganga að öllu leyti frá endurskoðun á lögum um erfðafjárskatt, nema því aðeins að það væri fyrst ákveðið, hvernig ný erfðalög skyldu hljóða, svo að þar er ég alveg sammála hæstv. ráðh. og þakka honum fyrir þá yfirlýsingu, sem hann hefur gefið hér í því máli.

En það er sýnilegt, að þeir menn, sem hafa þá skoðun, að erfðafjársjóðurinn verði að fá meiri tekjur en hann hefur nú, verða að gera um það tillögur og berjast fyrir því, að hærri og meiri skattur sé tekinn af útörfum en verið hefur, eftir að búið er að ákveða það með löggjöf, að ekki skuli fækka útörfum, því að það er sýnilegt, að með þessum lögum, sem hér er verið að setja, eins og hæstv. ráðh. hefur viðurkennt, er útörfum ekki fækkað, heldur er þeim einmitt fjölgað, gengið miklu lengra inn á þá braut en gert var með lögunum frá 1949, en þá löggjöf undirbjó núverandi hæstv. dómsmrh. Var ég honum mjög þakklátur fyrir það verk, því að þar var farið miklu lengra inn á þá braut að fækka fjarskyldari erfingjum en verið hafði. En með þessu frv. er aftur stigið sporið til baka, eins og ég hef minnzt á. Hæstv. ráðh. gaf hér þá skýringu á þessu, að reynslan hefði sýnt, að hér hafi verið of langt gengið árið 1949. Um það skal ég ekki deila. En mín skoðun er sú, að það hefði átt að ganga enn lengra um fækkun en þá var gert.

En ég vil, áður en ég lýk máli mínu, benda á, að ein mgr. í brtt. mínum, við 2. gr., er alveg nýmæli, sem kemur ekki því við, hve margir útarfar skuli taka arf, en það er, að karl og kona, sem búið hafa saman í þrjú ár eða meira, eiga saman niðja og eru samvistum, þegar annað deyr, eigi að hafa sama rétt til arfs og þótt gift hefðu verið. Til þessarar tillögu tekur erfðalaganefndin alveg ákveðna afstöðu. Hér er um mikið efnisatriði að ræða. Nefndin leggur á móti því, að farið sé inn á þá leið og telur hana hættulega. En ég vil biðja hv. alþm. að gera sér ljóst það ástand, sem ríkir hér í þessum málum, áður en gengið er til atkv. um þetta mál. Við skulum ekki loka augunum fyrir því, að fjöldi fólks býr saman ógift og það í vaxandi mæli, eiga börn saman, síðan fellur maðurinn frá og það miklu oftar en konan, skilur hana eftir fjárvana eftir kannske að hafa búið með henni í fjöldamörg ár, og hún hefur samkv. frv. óbreyttu lítinn eða engan rétt samanborið við það, ef hún væri gift. Það má segja sem svo, að það sé hennar sök. Það getur vel verið. Það er náttúrlega ýmislegt, sem kemur þar til greina. En það er vitanlegt, að á þessu eru mjög mikil vandkvæði og það verður á einn eða annan hátt, ef ekki í þessum lögum, þá á einn eða annan hátt að bæta hér úr. Tryggingastofnun ríkisins hefur viðurkennt rétt karls og konu, sem eiga börn og búa saman, til bóta eins og gift væru. Og þá sýnist mér, að það sé alveg rökrétt afleiðing af því að viðurkenna einnig erfðarétt þessara aðila, svo sem lagt er til í tillögu minni. Tryggingastofnun ríkisins er skyldug til þess að greiða sömu bætur til þessa fólks eins og það hefði verið gift, og ég sé ekki, að það sé neinn munur þar á, að löggjöfin þá einnig í sambandi við erfðalögin ákveði: Þennan rétt skal makinn hafa til samræmis við tryggingalöggjöfina.

Nú var því mjög haldið fram af varaþm. 4. þm. Norðurl. v., sem var formaður í n. í fjarveru 4. þm. Norðurl. v., að skattalög undanfarinna ára ættu stórkostlegan þátt í því, að fólk gifti sig ekki og byggi saman ógift og ætti börn saman ógift, beinlínis til þess að komast undan skattalögunum. Ef það er staðreynd, að svo væri í stórum stíl, þá ber löggjafanum enn meiri skylda til að tryggja þessum sömu aðilum með því ákvæði, sem hér er lagt til, erfðarétt í þeim erfðalögum, sem nú er verið að setja, því að það væri að höggva tvisvar sinnum í sama knérunn, fyrst að semja skattalög, þar sem fólkið verður að flýja annaðhvort úr hjónabandinu eða verjast hjónabandi, vegna þess að það séu of þungir skattar þannig, og neita svo hins vegar um þann rétt, sem þau siðferðislega eiga í sambandi við það fé, sem þau hafa aflað sameiginlega í sameiginlegu búi, þótt þau hafi ekki gift sig, vegna þess að þau vilja ekki á þann hátt beygja sig undir skattaákvæði, sem samþykkt hafa verið á Alþingi. Mér þykir rétt að láta þetta koma fram hér, áður en gengið er til atkv. um málið.

Ég vil svo endurtaka það, að ég mun fylgja sjálfu frv., þó að tillögur mínar verði ekki samþykktar, vegna þess að ég tel, að í því séu margar breytingar til hins betra, þó að aðrar séu, sem ég hefði kosið að væru teknar í burtu.