16.11.1961
Efri deild: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

74. mál, lækkun aðflutningsgjalda

Bjartmar Guðmundsson:

Herra forseti. Ég er ekki eins þingvanur maður og hv. 1. þm. Vesturl. (AB), en það hafði ég þó haldið, að ekki væri það venja hér á hv. Alþ. að gera atkvæðagreiðslu einstakra þm, að umræðuefni, er mál eru til umræðu. En úr því að hv. þm. sá ástæðu til að gera það, vil ég aðeins segja það, að við 1. umr. þessa máls gerði ég tilraun til þess að fá þá n., sem hafði málið til meðferðar, til að taka fleiri vörutegundir inn í þetta frv. það fékkst ekki neitt jákvætt út úr því við afgreiðslu n. á þessu máli. En ég hef gert nokkuð til þess að reyna að þoka þessu máli áfram, og ég tel það síður en svo til framdráttar málinu, ef ég hefði farið við atkvgr. þá, sem hér fór fram áðan, að nota mér veikindaforföll þingmanns til að knýja fram breyt., sem ég hafði áður talað um, og ef hv. 1. þm. Vesturl. álítur, að það sé til framdráttar málum að nota sér slík tækifæri, þá má hann hafa þá skoðun fyrir mér.