08.03.1962
Efri deild: 58. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í B-deild Alþingistíðinda. (567)

166. mál, skuldabréf Sameinuðu þjóðanna

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Sameinuðu þjóðirnar eiga um þessar mundir við mikil greiðsluvandræði að stríða, og er talið, að á miðju þessu ári verði skuldir þeirra orðnar um 170 millj. dollara. Þetta á rót sína að rekja til þess, að Sameinuðu þjóðirnar hafa haft mjög mikil útgjöld, bæði vegna aðgerða í því skyni að koma á friði í Kongó og enn fremur vegna varnarliðs í Palestínu, en nokkrar þjóðir hafa neitað að greiða hluta af kostnaði við þessar ráðstafanir, sem ég gat um. Til þess að reyna að komast út úr þessum fjárhagsörðugleikum hefur verið ákveðið að gefa út skuldabréf Sameinuðu þjóðanna að upphæð samtals 200 millj. dollara, og eiga bréf þessi að vera til 25 ára og bera 2% ársvexti. Er ætlazt til þess, að þessi skuldabréf séu seld eingöngu ríkisstjórnum. Því hefur verið beint til þeirra ríkja, sem aðild eiga að Sameinuðu þjóðunum, að þau kaupi þessi bréf. Norðurlandaþjóðirnar, Danmörk, Noregur og Svíþjóð, hafa ákveðið að kaupa skuldabréf í hlutfalli við árlegt framlag sitt til Sameinuðu þjóðanna, og telur ríkisstj. eðlilegt, að skerfur Íslands verði hlutfallslega sami og þessara nágrannaþjóða. Nú er það svo, að miðað við þann hluta af heildarútgjöldum Sameinuðu þjóðanna, sem Íslendingar greiða árlega, en það er 0.04%, að ef við höldum okkur við sama hlutfall af heildarupphæðinni, 200 millj., þá kæmu í hlut Íslands um 80 þús. Bandaríkjadollara. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, felur í sér heimild til handa ríkisstj. fyrir hönd ríkissjóðs að kaupa skuldabréf af Sameinuðu þjóðunum fyrir allt að 80 þús. Bandaríkjadollara og taka jafnháa fjárhæð að láni til þessara kaupa. Er þá gert ráð fyrir, að Seðlabankinn veiti slíkt lán til nokkurra ára.

Ég vænti þess, að frv. þetta fái góðar undirtektir hjá hv. Alþingi, og legg til, að því sé vísað til 2. umr. og hv. fjhn.