16.02.1962
Neðri deild: 50. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (589)

140. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Frsm. (Birgir Finnsson):

Hæstv. forseti. Samkv. upplýsingum hæstv. sjútvmrh., er hann mælti fyrir frv. því á þskj. 273, er hér liggur fyrir, eru gildandi lög um vátryggingar fiskiskipa nú í rækilegri endurskoðun, en á því er full þörf, þar eð samanburður hefur leitt í ljós, að þessar tryggingar eru mun dýrari hérlendis en í öðrum löndum, t.d. Noregi. Það eina atriði, sem frv. á þskj. 273 fjallar um, miðar að því að gera Samábyrgð Íslands á fiskiskipum kleift að ná hagkvæmari samningum við endurtryggjendur en þeim, sem gilt hafa, og er þetta atriði út af fyrir sig svo sjálfsagt, að sjútvn, mælir eindregið með samþykkt frv. Jafnframt væntir nefndin þess, að endurskoðun laganna í heild verði flýtt eins og hægt er. Legg ég svo til, að frv. verði vísað til 3. umr.