17.11.1961
Neðri deild: 20. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

74. mál, lækkun aðflutningsgjalda

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Eins og kunnugt er, var gripið til þess ráðs á árinu 1951, eftir gengislækkunina, sem samþ. hafði verið í marzmánuði 1950, að veita bátaútvegi landsmanna stuðning á þann hátt, að myndaður var sérstakur listi af vörum, sem kallaðar voru síðan bátagjaldeyrisvörur, og bátaútveginum heimilað að ráða nokkuð sérstöku gjaldeyrisálagi á innflutning á þessum vörum. Þessar vörur, sem voru á bátalistanum svonefnda frá árinu 1951, voru því næstu ár á eftir tolllagðar mun meira en flestar aðrar vörur, sem voru fluttar til landsins. Þessu kerfi var síðan haldið áfram, en breytt nokkuð í árslokin 1960, og síðan voru þessar vörur almennt kallaðar hátollavörur, og það fór ekkert á milli mála, að þar voru margar vörur, sem taldar voru minna nauðsynlegar, mjög hátt tollaðar í innflutningi. En við gengislækkunina, sem var samþ. í febrúarmánuði 1960, og eins við gengislækkunina, sem samþ. var nú aftur í sumar, í ágústmánuði, þá vitanlega fór það svo, að verðlagið á þessum vörum, sem voru á bátagjaldeyrislistanum, eða hátollavörunum, sem nefndar voru á tímabilinu 1957–59, var orðið gífurlega hátt. Það var því alveg augljóst mál, að það hlyti að því að koma, að það yrði að lækka eitthvað þessa sérstöku tolla, sem höfðu verið lagðir á þessar vörur, og það er einmitt það, sem nú er verið að gera. Að vísu er það svo, að mér sýnist, að það séu ekki allar vörur teknar, sem voru á bátagjaldeyrislistanum áður eða hátollavörulistanum, þó nokkrir verðflokkar eru skildir eftir, sem enn bera gífurlega há tollgjöld.

Það er kunnugt mál, að hæstv. ríkisstj. hefur orðið þess vör, að innflutningur einmitt á þessum vörum hefur dregizt verulega saman. Undan því hefur verið kvartað sárlega, að ríkissjóður hafi ekki fengið þær tekjur af innflutningi þessara vara, sem gert hafði verið ráð fyrir. Ég álít, að skýringin á því sé ákaflega einföld, hún sé í öllum aðalatriðum sú, að verðlag þessara vara var orðið allt of hátt, þegar svo var komið, að gamla aukagjaldið vegna útflutningsuppbótanna hvíldi á þessum vörum og þar að auki gengislækkunin, sem olli vitanlega miklum verðbreytingum almennt á vörum, og þar að auki gengislækkunaráhrifin, sem urðu einnig til þess að hækka þessar vörur. Ég held, að samdrátturinn í innflutningi hafi fyrst og fremst stafað af þessu óeðlilega verðlagi, sem þarna var orðið, og því sé það í raun og veru megintilgangurinn hjá hæstv. ríkisstj. með þessu frv. að reyna þó að halda áfram nokkrum innflutningi á þessum vörum með því að stilla verðlaginu á þeim nokkuð í hóf. Hina skýringuna gef ég aftur heldur lítið fyrir, að ástæðunnar til þessarar lækkunar á aðflutningsgjöldum sé að leita til þess, að hér sé verið að gera sérstakar ráðstafanir til þess að draga úr smygli. Ég efast að vísu ekkert um það, að þó nokkur ólöglegur innflutningur hefur átt sér stað á þessum vörum, og vel má segja það, að því hærri sem tollarnir séu á slíkum vörum, því meiri hætta sé á því, að ólöglegur innflutningur eigi sér stað. Eflaust má segja, að slíkt gildi að einhverju leyti. En ég held, að það sé ekki aðalskýringin á því, hvað ríkið hefur misst mikið af tollum í sambandi við innflutning þessara vara nú upp á síðkastið. Ég held, að aðalskýringin liggi í hinu, að verðlagið var orðið allt of hátt eftir gengisbreytingarnar.

Ég fyrir mitt leyti er því algerlega samþykkur efni frv. um það að lækka tollstigana, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., á þeim vörum, sem það nær yfir. Ég tel, að þar sé stefnt í eðlilega átt, og hefði mátt gerast miklu fyrr, hefði í rauninni átt að gerast, þegar gengislækkunin var samþykkt í febrúarmánuði 1960. En ég sakna þess, að það skuli ekki ýmsar aðrar vörur vera með í þessari lækkun, sem algerlega eins er ástatt um að mínum dómi. Ég tók eftir því, að hæstv. fjmrh. sagði, að við það hefði verið miðað í þessu frv. að taka hér ekki inn neinar vörur, sem bæru ekki a.m.k. 100% innflutningstolla. En mér skilst, að það hafi hins vegar ekki verið teknar allar vörur, sem bera 100% og þar yfir. Hvers vegna þá ekki að miða það við að taka allar þær vörur, sem bera yfir 100%, og lækka þær allar, en það sýnist mér að ekki sé gert?

Þá er hitt atriðið, sem ég tel að helzt skorti á í sambandi við þetta frv., en það er að tryggja, að sú tollalækkun, sem nú verður ákveðin hér væntanlega á þessum vörum, skili sér til almennings í landinu í lækkuðu verði á þessum vörum. Ég dreg mjög í efa, að það megi treysta á, að þessi tollalækkun komist alla leið til kaupendanna, ef það skipulag er haft á, að álagningin á þessum vörum sé frjáls. Ég heyri það, að hæstv. fjmrh. gerir sér vonir um það, að verzlunarstéttin, innflytjendur og smásalar, misnoti ekki það frelsi, sem þeir hafa til þess að ákveða álagninguna, með því að taka til sín verulegan hluta af þessari tollalækkun. Hann hefur góð orð þeirra um það, að þeir muni ekki gera það, og ég heyrði líka, að hann sagði, að hann héldi, að það frelsi, sem ákveðið hefði verið í álagningu á ýmsum vörum nú fyrir 2–3 mánuðum, hefði ekki verið misnotað. Ég tel enga reynslu komna í þeim efnum og engar skýrslur komnar fram um það, sem gætu sannað neitt í þeim efnum. En hitt vitum við, að mjög svipað þessu hefur átt sér stað hér áður, og það hafa verið gerðar á því opinberar athuganir. Þegar t.d. bátagjaldeyrisfyrirkomulagið var ákveðið 1951, var ákveðið að gefa frjálsa álagningu á þeim vörum. Og þá var það, að t.d. flokksmenn hæstv. fjmrh, héldu því mjög fram, að þeir hefðu trú á því, að hin frjálsa álagning mundi beinlínis leiða til þess, að álagningin lækkaði frá því, sem hafði verið undir verðlagseftirlitskerfinu. En þetta var rannsakað ýtarlega á þessum árum. Verðlagsyfirvöldin í landinu létu athuga þetta og gáfu út opinberar skýrslur um það, hvernig þetta hefði farið. Reynslan var þá sú, að álagningin stórhækkaði, hækkaði meira að segja svo, að hinir orðvörustu menn, sem nú þekkjast hér á Alþingi, kölluðu þetta hreint siðleysi í viðskiptum, hvernig sú verðlagning breyttist þá. Ég verð því að segja það af þeirri reynslu, sem liggur fyrir, að ég efast mjög um, að það megi á það treysta, að þessi tollalækkun skili sér til þeirra, sem hún á að koma að gagni, almennings í landinu, ef ekki eru ákvæði um það bundin í lögum, að það skuli í öllum aðalatriðum gilda sama álagningarregla og áður gilti, þannig að tollalækkunin komi fram í útsöluverðinu. Ég hef ekki svo mikið traust á smásölum, heildsölum og ekki heldur samvinnuhreyfingunni í landinu, að þessir aðilar tryggi þetta alveg eftirlitslaust. Þar ber ég fyrir mig reynsluna og ekkert annað. Ég mundi því óska eftir því, að sú breyting yrði gerð á þessu frv., að ákveða, að haft skuli eftirlit með verðlagningu á öllum þeim vörum, sem þetta frv. fjallar um, til þess að það sé tryggt, að tollalækkunin komi fram í útsöluverðinu.

Ég skal nú ekki fara mörgum orðum um þetta mál. Það væri vitanlega hægt að ræða um það langt mál í sambandi við stefnuna í viðskiptamálum almennt. Ég skal ekki fara langt út í það. Mér sýnist fyrir mitt leyti, að ástæðan til þess, að þetta frv. er nú flutt af hæstv. ríkisstj., sé einfaldlega sú, að nú hefur ríkisstj. rekið sig á það gegnum dýrkeypta reynslu, að tekjur ríkissjóðs af innflutningi þessara vara höfðu minnkað stórlega vegna þess, að verðið á vörunum var orðið allt of hátt. Og kaupgeta almennings, sem hefur verið minnkuð allverulega, segir vitanlega til sín í sambandi við kaup á þessum vörum. Menn hafa keypt minna af þeim að undanförnu en áður var. Þetta held ég að séu meginskýringarnar á því, hvernig komið er í þessum efnum, en kenningin um smyglið held ég að eigi lítinn rétt á sér. Ég held, að sala á þessum hátollavörum hafi ekki minnkað núna síðustu tvö árin eins og raun ber vitni um vegna þess, að smyglið hafi verið miklu meira nú þessi ár en áður var. Það kann að vera, að það hafi verið eitthvað meira, en ekki vil ég gera mikið úr því. En hinu vil ég svo aftur beina til hæstv. fjmrh. í þessum efnum, að það er vissulega ástæða til þess að taka mjög föstum tökum þetta smygl, sem menn vita að á sér stað. Það þarf ekki aðeins að herða á tolleftirliti, sem þó er vitanlega sjálfsagt að gera, það þarf líka að reyna að taka fyrir rót þessa, sem liggur í því, að gjaldeyri þjóðarinnar er stolið undan á ólöglegan hátt. Enginn flytur inn þessar vörur að neinu ráði, nema hann komist á einn eða annan hátt yfir gjaldeyri fram hjá lögum landsins. Talið um þetta mikla smygl er því í rauninni jafnframt staðfesting á því, að gjaldeyriseftirlitið bilar. Þjóð, sem er að kvarta undan því, að hún hafi ekki nægan gjaldeyri til sinna þarfa, veit það, að hann er tekinn ólöglega og notaður til þess, sem er ekki almennt leyfilegt. Hér þarf vitanlega að herða á eftirliti stórlega frá því, sem nú er, og það væri mikil nauðsyn á því, að það væri gert.

Að öðru leyti vil ég svo segja það, að ég er í aðalatriðum frv. samþykkur, mun hins vegar flytja brtt. við frv., bæði í þá átt að auka nokkuð við vöruflokka, sem yrðu aðnjótandi þessarar lækkunar á verðtolli, og eins till. um það að tryggja, að tollalækkunin komi raunverulega fram í útsöluverðinu, en fram hjá því finnst mér vera gengið í frv.