23.10.1961
Neðri deild: 7. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (647)

21. mál, lausaskuldir bænda

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. hafa nú hlustað á hv. 3. þm. Vesturl., og hefur hann fundið ýmislegt þessari löggjöf til foráttu, þykir hún ekki tryggja nógu vel, að bændur geti notfært sér þessa löggjöf, og eins og hann sagði, rétt áður en hann steig úr ræðustólnum, að í sumum landshlutum yrðu þess alls engin not. Landsbanki Íslands og Útvegsbanki hafa nú útibú á Ísafirði, og er mér kunnugt um, að bændur skulda þar talsvert. Það er útibú á Akureyri, og skyldu ekki bændur í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum hafa þurft að koma þar í banka? Það er útibú á Austfjörðum. Ég hygg því, að flestir landshlutar hafi átt aðgang að ríkisbönkunum og að bændur víðs vegar um land séu þar skuldugir. Og að því leyti hlýtur það að koma öllum landshlutum að nokkrum notum, jafnvel þó að það væri ekki um nema ríkisbankana að ræða.

Hv. ræðumaður taldi útilokað, að sparisjóðirnir gætu notfært sér þetta. Mér finnst þetta nokkuð fljótráð fullyrðing, því að um leið og sparisjóðirnir fara að taka upp samninga við bændur í sambandi við breytingu þessara lána, mun sparisjóðsstjórnin eða sparisjóðsstjórinn gera sér grein fyrir því, hvort sparisjóðurinn getur notfært sér þessi bréf. Og gæti nú ekki verið, að sparisjóðurinn skuldaði einhverjum aðila, annaðhvort Landsbankanum eða Seðlabankanum, og gæti komizt að samkomulagi við hann um að taka bréfið upp í skuldina? Mér þykir það alls ekki ólíklegt, að sparisjóðirnir gætu komizt að slíku samkomulagi. Svo er það algerlega á valdi kaupfélaganna og verzlananna um landið, það eru kaupfélagsstjórarnir og kaupfélagsstjórnirnar, sem ráða því, hvort þau vilja greiða fyrir bændum að þessu leyti. Ég hygg, að segja megi, sem eðlilegt er, að kaupfélögin skuldi einhvers staðar, annaðhvort í bönkum eða þá hjá Sambandinu, þau hljóta að gera það: Og mér þykir mjög sennilegt, að Sambandið skuldi í einhverjum banka, t.d. í Landsbankanum. Og þess vegna er alveg rökrétt að ætlast til þess, að þessi skuldabréf verði tekin til þess að lækka slíkar skuldir, að Sambandið taki þessi skuldabréf af kaupfélögunum og það geti svo aftur notfært sér þessi bréf til þess að lækka skuld sína í bankanum.

Það er of fljótt fyrir hv. 3. þm. Vesturl. að fullyrða, að þetta sé óframkvæmanlegt. Ég skal viðurkenna það, að þetta hefur ekki verið kannað til hlítar. Þetta er ekki í frv. En ég veit, að hv. 3. þm. Vesturl. þekkir svo mikið inn í viðskiptalífið, að hann eygir möguleika gegnum þessa leið, og það á að fara þessa leið. Á þann hátt geta kaupfélögin tekið bréfin og breytt skuldum, sem eru í viðskiptareikningunum. Og þá er það hagnaður fyrir báða, viðskiptamanninn og líka fyrir kaupfélagið, ef það getur lækkað skuld sína á þennan hátt.

Hitt má svo segja, og ég undrast það ekkert, þó að hv. þm. fullyrði hér, — það ber að viðurkenna, að hann var hógvær í sínum málflutningi, — það er ekkert undarlegt, þó að hann fullyrði hér, að það hefði verið eðlilegt, að ríkisstj. hefði skyldað Seðlabankann til þess að gera það, sem hann ræddi hér um, hliðstætt við sjávarútveginn. En ég sagði hér áðan, að þetta er ekki algerlega hliðstætt að þessu leyti, að í sambandi við sjávarútveginn eru það aðeins tveir bankar, sem um er að ræða, og þessir bankar skulduðu báðir Seðlabankanum og gátu þess vegna með góðu móti breytt skuldunum fyrir sjávarútveginn, tekið bréfin og lækkað skuld sína við Seðlabankann. Þetta voru þess vegna ósköp auðveldir samningar og ósköp auðveld leið, sem hlýtur að vera erfið hvað landbúnaðinn snertir, þegar um er að ræða — ég man ekki hve marga sparisjóði um allt land, 60 kaupfélög eða svo og kaupmenn og svo ýmsa aðra aðila, sem eiga skuldir hjá bændum. Þetta er ekki hliðstætt því, sem er um sjávarútveginn, sem hefur aðeins við tvo aðila að eiga. Og að þessu leyti er framkvæmdin erfið í þessu máli, nema það ríki skilningur á milli aðilanna og þeir, sem skuldina eiga, hafi hug á því að greiða fyrir bændum. Og ég er alveg sannfærður um það, að kaupfélagsstjórarnir úti um land vilja greiða fyrir bændum. Þeir vilja lækka skuldir bændanna í viðskiptareikningunum, og þeir vilja taka bréf í staðinn fyrir skuldina, ef þeir eygja möguleika til að koma bréfinu í verð. Og ég hef bent á möguleikann, og ég ætlast til þess, að hv. 3. þm. Vesturl. láti það berast, að þessi leið er fyrir hendi, ef forsvarsmenn kaupfélaganna eru eins og hann, að hafa ekki áður komið auga á þetta. En ég veit, að hv. þm. skilur þetta mætavel og sér, að þarna er leið úr þessu.

Í sambandi við þetta mál er ekki nema eðlilegt undir meðferð málsins, að rætt sé við Seðlabankann um þetta atriði, hvort ekki sé líklegt, að hann væri fús til þess að taka bréfin einmitt af þeim aðilum, sem skulda í bankanum. Ef bréfin mega ganga til þess að lækka skuld kaupfélagsins, Sambandsins eða kaupmannsins, þá hefur það ekki dýrtíðaraukandi áhrif, þó að bréfin séu tekin.

Hv. þm. var að tala um, að hér hefðu ekki verið teknar til greina vinnslustöðvar landbúnaðarins eins og vinnslustöðvar sjávarútvegsins. Það er rétt. Það er nú sem betur fer ekki alveg hliðstætt, vegna þess að vinnslustöðvar landbúnaðarins, þó að þær hafi að vísu ekki nógu fé yfir að ráða, þá hafa þær ekki fram að þessu verið svo illa staddar, að það hafi verið rekstrarstöðvun, — ég segi: sem betur fer, og það liggur ekki fyrir, að vinnslustöðvar landbúnaðarins þurfi aðstoð í sama formi og vinnslustöðvar sjávarútvegsins, sem gátu ekki starfað nema fá þessa aukaaðstoð. Og það hefur verið athugað nokkuð rækilega af tveimur aðilum, sem ríkisstj. fól það verk, og það lá n'ú ekki fyrir, að það væri — ég segi aftur: sem betur fer, sama fjárhagsástand hjá vinnslustöðvum landbúnaðarins og vinnslustöðvum sjávarútvegsins mörgum hverjum.

Um vaxtamismuninn skýrði ég það áðan, að bændur munu fá a.m.k. að mestu leyti bættan þennan vaxtakostnað með því, að hann gengur inn í verðlag landbúnaðarafurða, þegar verðgrundvöllurinn er fundinn. Bændur kvarta að vísu undan því, að vaxtaliðurinn sé ekki nógu hár í grundvellinum, en það eru ekki þeir vextir, sem þeir greiða af skuldum, heldur vextir af eigin fé. Þeir kvarta um, að þeir fái ekki nægilega vexti af eigin fé í grundvellinum. Þess vegna getum við hv. 3. þm. Vesturl., þegar við athugum málið rólega frá þessu sjónarmiði, verið sæmilega ánægðir fyrir hönd bændanna, þótt vextirnir séu svona háir, ef við tökum þetta með í reikninginn, að vextirnir koma inn í verðlag landbúnaðarafurða.

Ég held, að það sé ekki þörf á að fara öllu fleiri orðum um málið út af því, sem fram kom í ræðu hv. 3. þm. Vesturl. Ég hef bent á, að mest af því, sem hann sagði þessum lögum til foráttu, er ekki eins þungt á metunum og hv. þm. vill vera láta. Og þetta getur orðið bændunum ómetanleg hjálp, ef bændurnir vilja notfæra sér það, — þeir hafa sýnt það með því að sækja um 1200–1300, — og ef þeir, sem eiga skuldirnar hjá bændunum, vilja jafnframt greiða fyrir því. Þessi löggjöf byggist á því. Ef kaupfélögin vilja ekki greiða fyrir bændunum að þessu leyti, þá er sú hliðin vitanlega alveg lokuð, og ef forstjórar sparisjóðanna hafa ekkert að segja, þegar komið er til þeirra með það: Við höfum ekki efni á að gera þetta, — þá er sú leiðin einnig lokuð. En ef sparisjóðirnir hins vegar vilja leita allra hugsanlegra leiða, þá er líklegt, að það sé mögulegt fyrir sparisjóðina að koma bréfunum í verð til greiðslu á skuldum eða í viðskiptum á annan hátt. Framkvæmd þessara laga verður erfið og hún verður ómöguleg, ef viljinn er ekki góður til þess að framkvæma þau. En ef viljinn er fyrir hendi, geta þessi lög verið ómetanlegt tæki til þess að létta byrðarnar á bændum.