23.10.1961
Neðri deild: 7. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (649)

21. mál, lausaskuldir bænda

Jón Pálmason:

Hæstv. forseti. Af því að ég geri ekki ráð fyrir því að hafa aðstöðu til að ræða þetta mál við síðari umræður, þykir mér ástæða til að segja nokkur orð um þetta mikla vandamál, sem hér er til meðferðar.

Það er augljóst öllum, sem um það hugsa, að þessi brbl. eru spor í rétta átt. En þau eru aðeins spor og frá mínu sjónarmiði alveg ófullnægjandi, ef þeim verður ekkert breytt. Nú liggur það fyrir, eins og gefur að skilja, að Alþingi á að fjalla um þessi lög og hefur þess vegna tækifæri til þess að breyta þeim, eftir því sem samkomulag næst um.

Það versta við framkvæmdina á þessum lögum hlýtur að verða það, eins og nokkuð kom fram hjá hv. 3. þm. Vesturl., að þau koma ákaflega misjafnt niður á landshlutana, því að í þeim landshlutum, sem eru í kringum bankana og þeirra útibú, geta þessi lög komið að miklu gagni og kannske fullnægjandi gagni, vegna þess að bankarnir taki skuldabréfin yfirleitt upp í skuldirnar, en þar sem svo er ekki, svo sem víða er á landinu, að héruðin eru í fjarlægð við banka, þá eru skuldirnar yfirleitt í sparisjóðum og verzlunum, og það er kunnugt, að sum kaupfélögin eru orðin stærstu skuldaverzlanir, sem fæðzt hafa á okkar landi. Það, sem hér þarf þess vegna að gera frá mínu sjónarmiði og ég hef raunar sagt hæstv. ráðherra, er það, að Alþingi gangi þannig frá þessum lögum, að skuldaeigendurnir séu skyldaðir til að taka bréfin, bæði bankar, verzlanir og sparisjóðir. Það verður svo að koma í ljós síðar, ef þarf að hjálpa þessum aðilum á annan hátt til þess að standa undir þeim bagga, sem af því leiðir. Það vita allir og sjá, að þessi ráðstöfun, eins og ráðstöfunin með lausaskuldir sjávarútvegsins, þetta er kreppuráðstöfun, og það ber þess vegna að koma henni í það horf, að þetta komi sem jafnast niður alls staðar á landinu. En það er auðséð, að ef hér verður ekkert breytt frá því, sem frv. fjallar um, þá er alveg gagnólík aðstaða fyrir bændur t.d. hér á Suðurlandi og hér í kringum höfuðborgina og á Norðurlandi og Vesturlandi, þar sem ekki er aðgangur að bönkunum, eins og hér er. Það hafa borizt um 1000 umsóknir til Búnaðarbankans um þessi lán, og mér er kunnugt um það, að til viðbótar því eru margir bændur, sem hafa ekki sótt um þau, vegna þess að þeir hafa ekki gert sér vonir um, að þeir, sem skuldirnar eiga, tækju þessi bréf.

Ég vildi nú rétt aðeins geta um þetta til þess að vekja athygli hv. fjhn., sem fær þetta mál, og yfirleitt annarra deildarmanna á því, að þeir verða að athuga, hvort ekki beri nauðsyn til að breyta þessu þannig, að það komi sem jafnast niður á alla landshluta. En það er augljóst, ef það er alveg frjálst, að skuldareigendurnir eru ekki neitt skyldugir til þess að taka bréfin, þá kemur þetta ákaflega misjafnt niður, enda þótt tveir bankar hafi samþykkt fyrir sitt leyti að taka þessi bréf.

Úr því að út í kreppuráðstöfun er farið, þá er það í mínum augum ekki svo langt gengið, þó að skuldareigendurnir væru skyldaðir til þess að taka þessi skuldabréf, sem öll verða með veði í fasteignum. Það er ekki langt spor í samanburði við það, sem við höfum áður þekkt í sambandi við kreppumál. Mismunur á vöxtum er hér ekki svo ákaflega mikill, og þeir, sem hafa á undanförnum árum lánað stórkostlega út, verða frá mínu sjónarmiði að sæta því, þótt þeir þurfi að taka þessi bréf, eins og um hnútana er búið.