16.02.1962
Neðri deild: 50. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

21. mál, lausaskuldir bænda

Eysteinn Jónsson:

Forseti. Ég á aðeins aths., og auk þess er þannig ástatt, að ég þarf að fá fjarvistarleyfi hjá hæstv. forseta eftir stutta stund. Ég mun ekki taka fyrir mörg atriði af því, sem komið hefur fram, síðan ég talaði, og ef ég sé ástæðu til, þá mun ég fremur bæta einhverju við, við 3. umr. málsins. Eins ef eitthvað kynni að koma fram í þessum umr., sem að mér snýr, þá mun ég frekar svara því við 3. umr.

Það er þrennt, sem ég vildi segja út af ræðu hv. 3. þm. Austf., sem annars hefði verið ástæða til að ræða nokkuð. Mér fannst hálfgerð ólykt af sumu því, sem kom fram í ræðu hv. þm., og leiðinlegt að þurfa að ræða þvílíkt, eins og t.d. það, sem hann sagði, að framsóknarmenn hefðu torveldað samningana um, að skuldabréfin yrðu gjaldgeng. Hvað meinar hv. þm. með þessu? Hvaða framsóknarmenn torvelduðu þessa samninga? Hvaða dylgjur eru þetta, sem hv. þm. er að flytja hér í þingsölunum? Vill hann ekki tilgreina, hvaða menn torvelduðu þá samninga og í hverju það var fólgið? Hvað á þetta að þýða?

Annað var það, sem hv. þm. kom inn á, sem ég ætlaði aðeins að drepa á. Hann virtist hafa mjög mikinn áhuga á að koma á framfæri þeirri skoðun sinni, að austfirzkir bændur byggju verr en aðrir landsmenn, hefðu, að því er mér skildist, minni bú, meiri skuldir og minni tekjur af búskapnum. Ég hef ekki fyrir mér þessar skýrslur hv. þm., og skal því ekki fara út í þær, en þessar skýrslur gætu verið fullkomlega villandi. Hann minntist t.d. á búskap og bændur í Suður-Múlasýslu. Það veit ég, að sennilega er í engri sýslu landsins meira af bændum, sem jafnframt styðjast við sjósókn, en í Suður-Múlasýslu. Þess vegna er gersamlega villandi og aðeins til þess að gefa blekkjandi mynd að bera meðalbústofn t.d. þar í sýslu saman við meðalbústofn annars staðar, — algerlega blekkjandi að bera slíkt saman. Auk þess er það vitað mál, að Austfirðingar hafa ekki búið við jafngóð markaðsskilyrði og bændur í ýmsum öðrum héruðum, þar sem innanlandsmarkaður hefur verið góður og mikill. Þetta veit hv. þm. mjög vel. Á Austurlandi hafa orðið óhemjuáföll af alveg sérstökum harðindum fyrir nokkrum árum og fjárpestum, t.d. eins og garnaveikinni, jafnvel mjög umfram það, sem gerðist mest í nokkrum öðrum héruðum. Þetta hafði stórkostleg áhrif fyrir nokkrum árum á möguleika manna til þess að búa í haginn og koma á framkvæmdum, þegar mest á reið.

Sannleikurinn er sá, að það er alveg ævintýri líkast, hvaða framfarir hafa orðið í búnaði á Austurlandi á síðustu árum, eftir að fór að rakna úr frá náttúrunnar hendi og menn fóru að losna við þessar stórfelldu búsifjar. Þetta gægðist líka fram hjá hv. 3. þm. Austf., þegar hann talaði aftur, því að þá fór hann að tala um hinar miklu framfarir, sem hefðu orðið á Austfjörðum á síðustu 10 árum, einmitt eftir að menn losnuðu við þær óhemjuplágur, sem yfir dundu af völdum veðurfars og sjúkdóma og urðu verri þar en nokkurs staðar annars staðar.

Það, sem hv. þm. sagði, varð því í meðförum hans, vegna þess að hann sleppti öllu þessu, ekkert annað en ótíndur óhróður um austfirzka bændur og austfirzkan búskap, en átti víst að hitta Framsfl. eða jafnvel mig eitthvað sérstaklega. Mikið skal til vinna að nota í því skyni málflutning eins og þennan.

Ég vildi, að sem allra flestir þm. t.d. og allra flestir landsmenn gætu átt kost á því að ferðast um Austurland og líta á þær framkvæmdir, sem þar hafa orðið í búnaði á síðustu árum, eftir að úr fór að rakna eftir plágurnar og rættist fram úr þeim gífurlegu erfiðleikum, sem af þeim stöfuðu, og mundu þeir þá áreiðanlega komast á aðra skoðun en hv. 3. þm. Austf. var að reyna að læða hér inn varðandi búskap á Austurlandi.

Ég þakka hæstv. forseta þolinmæðina.