22.02.1962
Neðri deild: 53. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í B-deild Alþingistíðinda. (684)

21. mál, lausaskuldir bænda

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Ég vil gera hér grein fyrir brtt. á þskj. 311. Þær eru fluttar af okkur tveimur fjárhagsnefndarmönnum, mér og hv. 4. þm. Austf.

Fyrri brtt. er við 1. gr. frv. Í þeirri grein segir, að bankavaxtabréfin, sem á að gefa út, skuli notuð til að breyta í föst lán lausaskuldum bænda, sem hafa ekki fengið nægileg lán til hæfilegs tíma til framkvæmda, sem þeir hafa ráðizt í á árunum 1956–1960, að báðum meðtöldum. Við leggjum til í okkar brtt., að í stað 1960 komi 1961. Ef till. okkar verður samþykkt, eiga bændur þá kost á að fá lán til greiðslu á lausaskuldum vegna framkvæmda árið 1961, til viðbótar lánum til greiðslu á skuldum, sem myndazt hafa næstu árin á undan. Framkvæmdakostnaður allur er miklu hærri nú og hefur verið síðustu tvö árin heldur en áður var. Það má því búast við því, að lausaskuldir hafi myndazt hjá bændum á s.l. ári, þegar um einhverjar verulegar framkvæmdir hefur verið að ræða. Lögin munu því koma að meiri notum, ef þessum skuldum fæst einnig breytt í föst lán.

Síðari till. okkar er um það, að umsóknir um lán samkvæmt lögunum skuli senda veðdeildinni fyrir 1. maí 1962. Um þetta atriði var töluvert rætt við 2. umr., að gefa mönnum kost á að senda nýjar umsóknir, og skal ég því ekki fjölyrða um það. Upplýsingar, sem fengizt hafa um samninga við bankana, benda til þess, að ýmsir kröfuhafar, sem áður treystu sér ekki til að taka bréfin til greiðslu á lausaskuldum bænda, muni nú sjá sér fært að taka greiðslu á þann hátt, og þá sýnist alveg sjálfsagt að gefa mönnum kost á að senda nýjar umsóknir. Það er breytt viðhorf, ef menn geta nú fengið þær yfirlýsingar, sem lánveitandi hefur krafizt frá kröfuhöfum um, að þeir taki bréfin, þó að slíkar yfirlýsingar hafi ekki fengizt á næstliðnu hausti, þegar eftir þeim var leitað.

E.t.v. verður því haldið fram, að samþykkt á þessum brtt. á þskj. 311 muni tefja fyrir afgreiðslu lánanna. Því er þar til að svara, að þó að okkar tillögur verði samþykktar, þarf það ekki á nokkurn hátt að tefja fyrir afgreiðslu á lánum til þeirra bænda, sem nú þegar hafa sent umsóknir og þurfa ekki á því að halda að fá lán til greiðslu á skuldum, sem myndazt hafa hjá þeim árið 1961. Það er hægt, hvað sem þessum tillögum líður, að fara að afgreiða hvenær sem er lán til þeirra manna. Hins vegar má búast við, að það verði einhver dráttur á afgreiðslu lána til þeirra, sem notuðu sér heimildina til þess að sækja um lán til greiðslu á lausaskuldum frá árinu 1961, en í mörgum tilfellum mundu þeir telja það tilvinnandi að fá hærra lán, sem kæmi að meiri notum, þó að það hefði í för með sér, að þeir fengju lánið litlu síður en annars hefði orðið.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Ég vænti, að mönnum sé það ljóst, þegar þeir athuga þessar tillögur okkar, að ef þær verða samþykktar, þá koma lögin að meiri og almennari notum fyrir bændur heldur en ef frv. er samþykkt óbreytt, eins og það nú er.