22.02.1962
Neðri deild: 53. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (687)

21. mál, lausaskuldir bænda

Jón Pálmason:

Herra forseti. Þetta mál er nú komið á lokastig hér í hv. deild, og ég skal ekkert fara inn á það að ræða þetta vandamál almennt og ekki heldur fara að svara þeirri eldhúsræðu, sem hér var flutt af síðasta ræðumanni og sýnilega er flutt í þeim tilgangi að tefja afgreiðslu þessa máls. Þeir menn, sem þar var veitzt að, eru fullfærir um að svara fyrir sig sjálfir, ef þeim þykir ástæða til. En ég kvaddi mér hér hljóðs til að segja nokkur orð út af þeirri brtt., sem hér er flutt af minni hl. hv. fjhn.

Það hefur verið um það kvartað, að það hafi orðið langur dráttur á afgreiðslu þessara lána, sem hér eru fyrirhuguð. Sú kvörtun er ekki að öllu leyti ástæðulaus. Mér er kunnugt um það, að margir þeir menn, sem sóttu um þessi lán, eru orðnir þreyttir eða leiðir yfir því, hvað afgreiðsla þeirra hefur dregizt lengi. En ef ætti að fara að samþykkja nú þessa brtt. frá minni hl. fjhn., þá yrði drátturinn nokkuð langur, ég veit ekki, hve langur, a.m.k. fram undir lok þessa árs. Það er búið að leggja í það mikla vinnu í Búnaðarbankanum að sundurliða umsóknirnar og skuldirnar, sem um er að ræða hjá þeim bændum, sem sótt hafa um þessi lán. öll sú vinna verður ónýt, ef þessi till. verður samþykkt. Það verður að endurtaka hana alla vegna þess, að eftir henni á að miða við árslok 1961 í staðinn fyrir árslok 1960. Það verður auðvitað að endurtaka alla þessa vinnu, og það yrði líka að endurnýja algerlega samninga þá, sem gerðir hafa verið við bankana um að taka veðdeildarbréfin, því að þeir samningar eru miðaðir við þær upphæðir, sem fyrir liggja í þeim lánbeiðnum, sem settar hafa verið fram og um er að ræða. Þá er það enn fremur, að ef ætti að fara að gefa nýjan umsóknarfrest, þá mundi það tefja alla framkvæmd málsins stórkostlega, og ég verð að segja, að á því er í raun og veru engin þörf. Það var gefinn umsóknarfrestur í 2½ mánuð á s.l. sumri og hann rækilega auglýstur í útvarpi og blöðum, og á þessu tímabili var m.a. haldinn stéttarsambandsfundur bænda. Bændur höfðu þess vegna allir nægilegan tíma og tækifæri til þess að sækja um þessi lán, því að það var ekki um það tilgreint í þeim auglýsingum, hvaða skjöl þyrftu að fylgja, því að það var ekkert bundið við, að þau yrðu öll að vera til staðar, þegar umsóknarfresturinn væri liðinn.

En ég verð að segja það, að mér kemur það ekkert á óvart, þó að framsóknarmenn vilji fá nýjan umsóknarfrest. Þeir hafa í þessu máli haft allt á hornum sér, tafið málið og lagt meiri áherzlu á að rægja hæstv. landbrh. fyrir að hafa flutt það heldur en að gera málinu gagn. Og eitt m.a., sem ég hef spurnir af að þeir hafa gert og þeirra fulltrúar víðs vegar um land, það er að eggja bændur á að sækja ekki um þessi lán, því að þeir mundu ekkert gagn hafa af því. Og nú sjá þeir, að þetta muni vera dálítið athugavert og það er ekki bændum alls kostar til happa að hafa ekki sótt um, og þá vilja þeir auðvitað fá nýjan umsóknarfrest. En ef þetta mál verður afgreitt eins og það liggur fyrir nú, þá verður að ráðast, hvort það verður farið síðar í það að setja önnur lög, sem gefa frekari heimildir til þess að breyta lausaskuldum bænda í önnur lán. Ég vildi taka það fram, til þess að mönnum væri ljóst, að ef þessi till. verður samþykkt, þá er það til þess að tefja allt málið og tefja stórkostlega fyrir afgreiðslu allra þeirra lána, sem sótt hefur verið um.