01.03.1962
Efri deild: 54. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í B-deild Alþingistíðinda. (696)

21. mál, lausaskuldir bænda

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Í fyrradag hafði hæstv. landbrh. framsögu fyrir þessu frv. Þetta mál er orðið allkunnugt, bæði meðal hv. þm. og þjóðarinnar allrar, þar sem það hefur legið fyrir Alþingi í vetur, frá því að þing kom saman, og auk þess höfðu verið gefin út um það brbl. þá nokkru áður.

Ég saknaði þess í ræðu hæstv. landbrh., að hann minntist ekki neitt á niðurstöður þeirrar nefndar, sem athugaði um þörf bænda fyrir breytingu lausaskulda í föst lán til langs tíma, en eins og hv. þm. muna, var, þegar frv. til laga um stofnlánadeild sjávarútvegsins var til umr. í Alþingi, sagt frá því, að ekki væri hægt að taka afstöðu til þeirra brtt., sem við framsóknarmenn þá fluttum og sjálfstæðismenn og Alþýðuflokksmenn felldu, vegna þess að mál landbúnaðarins væru þá í athugun, svo að ég bjóst við því, að hæstv. ráðherra mundi skýra frá þeirri athugun og grundvalla málið fyrst og fremst á þeirri rannsókn, sem þar hefði fram farið. Ég hélt líka, að sú rannsókn hefði legið ljóslega fyrir hinn 15. júlí 1961, þegar hæstv. ríkisstj. gaf út brbl., sem hér eru til umræðu, og það hefði þá þegar verið vitað, hvað lausaskuldir bænda væru miklar, í fyrsta lagi og í öðru lagi, hvað margir bændur mundu geta komið til greina með að falla undir þessa löggjöf. En svo upplýsir hæstv. ráðherra, að hann hafi ekki getað náð samningum við bankana fyrr en 15. jan. 1962, eftir að Búnaðarbankinn var búinn að vinna úr þeim umsóknum, sem borizt höfðu á s.l. ári. Sem sagt, hann upplýsir, að það hafi ekkert verið vitað um lausaskuldir bænda, hvað þær væru miklar og hvað margir mundu sækja um þessa aðstoð, þegar lögin voru sett 15. júlí 1961. Það er ekki hægt að byrja samninga við bankana, fyrr en þetta er vitað, 15. jan. 1962, að því er ráðherrann upplýsti, og enn fremur, að nálægt 1300 umsóknir liggi fyrir í Búnaðarbankanum og að þær nemi rúmlega 80 millj. kr.

Nú er þess að geta í sambandi við þetta mál, að það horfir allt öðruvísi við nú en það gerði í haust, þegar málið var lagt fyrir Alþingi, vegna þess, að þá var það ekki vitað, að sparisjóðir, kaupfélög og verzlanir gætu losnað við bankavaxtabréfin í Seðlabankann eins og hæstv. landbrh. upplýsti í framsögu sinni um daginn. Ég tel þetta meginbreytingu á málinu, og ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðherra fyrir það, að hann guggnaði við að taka ekki tillit til þeirra, sem skulda í sparisjóðum, kaupfélögum og verzlunum, eins og útlit var fyrir, þegar málið var lagt fyrir á s.l. hausti. Það var vitað mál, þegar brbl. voru sett, að sparisjóðir, kaupfélög og verzlanir gátu ekki bundið mikið af fé til 20 ára á 8% vöxtum, þegar þeir borguðu mun hærri vexti af eigin skuldum. Þetta var mjög óhagstætt öllum smáfyrirtækjum og hefði valdið mjög slæmri rekstrarútkomu hjá þeim. Hér er því um gerbreytingu að ræða á höfuðatriði málsins og því eðlilegt, að allar þær umsóknir, sem kunna að berast á næstunni, verði teknar til greina, því að þetta er gerbreyting á málinu.

Hæstv. ráðherra ræddi mikið um veðin og taldi, að bændur hefðu nóg veð. Það má vel vera, að svo sé undir allflestum kringumstæðum, að þeir hafi nægileg veð í fasteignum. En þess ber að geta, að það eru til bændur í þessu landi, sem eru algerlega útilokaðir frá því að veðsetja fasteign. T.d. þeir, sem búa á prestssetrum, þeir fá ekki veð í þeim jörðum, og í öðru lagi eru einnig hinir, sem búa á jörðum hjá einstaklingum, að þeir fá ekki heldur allir veð hjá þeim, og þess vegna sýnist mér, að það verði að breyta lögunum á þann veg, að þessum mönnum sé ekki meinað frá því að njóta sömu aðstoðar og aðrir bændur í landinu. Ég tel, að þau lög, sem við útbúum hér, eigi að ná til allra, sem til er ætlazt, og ég veit, að hæstv. landbrh. ætlast ekki til þess, að einn eða neinn beri skarðan hlut frá borði, þegar lög þessi öðlast gildi. En eigi svo að vera, þarf að breyta þessu frv. með tilliti til þess, að það eru til bændur, sem geta ekki útvegað fasteignaveð fyrir sínum lánum, og þarf því að lána þeim út á vélar og annað, sem talið er að séu næg veð.

Hæstv. landbrh. ræddi mjög lítið um frv. sjálft, enda er það ekki langt og segir ekki heldur mikið, því að án breytinga á því eða án samninga á alla kanta vantar þar bæði botn og lok, svo að innihaldið komi bændum að nokkrum notum. Hins vegar varð hæstv. ráðherra mjög tíðrætt um sjávarútveginn og reyndi að réttlæta gerðir sínar að frv. þessu á því, að útgerðarmenn væru svo skuldugir, að þá vantaði veð til að komast undir stofnlánadeild sjávarútvegsins, og hefðu þeir eftir sem áður miklar lausaskuldir á háum vöxtum. Þetta má vel vera, ég skal ekkert um það segja. En mér finnst, að þetta gefi síður en svo tilefni til þess að láta landbúnaðinn búa við önnur vaxtakjör en sjávarútveginn. Sé það svo, að landbúnaðurinn hafi á undanförnum árum búið við skarðan hlut í verðlagsmálum og að því er stofnlán varðar, þá er einmitt ástæða nú til að íþyngja landbúnaðinum ekki með hærri vöxtum en aðrir atvinnuvegir hafa í þessu landi, — það eru einmitt ríkar ástæður vegna þess.

Hæstv. landbrh. varð mjög tíðrætt um verðlag landbúnaðarvara og úrskurð hagstofustjóra frá síðasta hausti. Ég hélt, að hæstv. ráðherra hefði ekki slæma samvizku í þessum efnum, því að ég bjóst við, að hagstofustjóri hefði starfað að úrskurðinum óháð ríkisvaldinu. En ég efast um það eftir ræðu hæstv. ráðherra.

Það er öllum minnisstætt, að haustið 1959 gaf þáv. ríkisstj. út brbl. um verðlag á landbúnaðarafurðum. Þessi löggjöf, eins og annað hjá þeirri hæstv. ríkisstj., naut stuðnings Sjálfstfl. Með þessum brbl. var gert tvennt í senn: tekinn samningsréttur af bændum og lækkað verðlag landbúnaðarvara frá því, sem bændum annars hefði borið. En fyrir harðfylgi stjórnar Stéttarsambands bænda og fjölmargra félagasamtaka í landbúnaðinum og Framsfl. fékkst leiðrétting á þessu máli, en þó ekki fyrr en í febrúarmánuði 1960. Samningar gengu mjög erfiðlega, og hygg ég, að málið hafi staðið þannig, að það hafi verið mjög erfitt að reikna út hlut bændanna í þeim samningum, og þegar loksins er gengið frá samningum, má heita, að verðlagsárið sé hálfnað, og það mun hafa verið ein, ef ekki aðalástæða fyrir því, að ekki var sagt upp verðlagsgrundvellinum fyrir það ár. En hæstv. ráðh. lét orð um það falla, að það væri ekki von til þess, að bændur hefðu borið mikið úr býtum á s.l. hausti í úrskurði hagstofustjóra, vegna þess að þeir hefðu þar farið inn á nýjar leiðir, tekið upp liði í verðlagsgrundvellinum, sem aldrei hafi verið nefndir áður. Þetta er náttúrlega hrein og klár vitleysa, vegna þess að hver einasti liður, sem verðlagsgrundvöllurinn byggist á, hefur verið til umræðu í fjöldamörg ár og mörgu smáþokað áfram, þótt margt sé enn þá óleyst í þeim efnum, og sýndu tillögur bænda það bezt, þeirra sem að samningunum stóðu, hvað það var margt, sem þar var óleyst, en síður en svo, að þeir hafi aldrei imprað á þessum málum áður. Svo var það annað líka. Um það leyti sem gengið er frá verðlagssamningunum, var viðreisn hæstv. ríkisstj. ekki farin að verka, því að lögin um gengislækkunina með meira höfðu þá varla séð dagsins ljós, og ekki var vitað, hvaða áhrif þau mundu hafa, og fáir trúðu því, að þau kæmu jafnharkalega niður á bændum og reynslan hefur sýnt, síðan þessi löggjöf öðlaðist gildi. Mér finnst því að athuguðu máli, að hæstv. landbrh. ætti að spara sér það að hnýta nokkuð í stjórn Stéttarsambands bænda, þar sem hlutur ráðherrans er síður en svo góður í þessum efnum, og bera þar ekki sízt vott um brbl. frá 1959 og ýmislegt annað, sem á dagana hefur drifið síðan. Og hefðu bændurnir þá ekki haft nein samtök sín á milli, hvernig væru þeir þá nú staddir undir því stjórnarfyrirkomulagi, sem er í landinu? Það má segja, að þeir beri skarðan hlut frá borði, en aumur væri þeirra hlutur, ef Stéttarsamband bænda hefði ekki verið til að berjast fyrir þeirra málum, þegar svona stjórn ríkir.

Það var vitað mál haustið 1959, í þeim kosningum, sem þá fóru í hönd, að þeir flokkar, sem nú ráða, hétu þjóðinni gulli og grænum skógum. Þeir lofuðu stöðugu verðlagi, og þeir lofuðu bættum lífskjörum. En allt hefur farið á annan veg. Dýrtíðin hefur aldrei vaxið jafnmikið og lífskjörin hafa aldrei versnað jafnmikið. Eftir að hafa margfellt gengi íslenzkrar krónu og þar með kollvarpað framtaki fjölmargra manna, hækkaði hæstv. ríkisstj. vexti af öllum lánum og innstæðum, vitandi vits, að það, sem vaxtakjörin í landinu hljóta m.a. hverju sinni að byggjast á, er framleiðslan til lands og sjávar og þá fyrst og fremst það, hversu arðvænleg framleiðslan í landinu er. Þurfi framleiðslan fjárhagslegan stuðning, þolir hún ekki háa vexti. Hæstv. ríkisstj. streitist við að telja þjóðinni trú um, að viðreisnin hafi tekizt, á sama tíma og hún er að setja stoðir undir atvinnulíf þjóðarinnar, sem þoldi ekki baggana, sem viðreisnin ætlaði henni að bera. Samhliða gengisfellingunni er mikill hluti af innstæðuaukningu landsmanna innifrystur í Seðlabankanum, svo að fjármagnið sogast inn í farveg íhaldsaflanna í landinu og þjónar þar trúlega stefnu þeirra. Og til að herða hnútinn enn betur fyrirskipaði hæstv. ríkisstj. gífurlega vaxtahækkun, og hún var svo mikil, að meira að segja sjálf þessi hæstv. ríkisstj. neyddist til að lækka vextina lítið eitt seint í des. 1960, eftir nokkra mánuði, því að þá var sýnilegt, að framleiðslan þoldi ekki svo gífurlega vaxtabyrði. Og til þess að óskadraumur viðreisnarinnar rættist, varð að afnema lögin um okurvexti.

Fyrir um það bil tveim árum hækkaði hæstv. ríkisstj. vexti af öllum stofnlánum, sem eftirleiðis yrðu veitt, þannig að vextir úr byggingarsjóði hafa hækkað úr 3.5% í 6%, lánstími hjá ræktunarsjóði var styttur úr 25 árum í 15 ár og vextir hans hækkaðir úr 4% í 6½%, lánstími veðdeildar styttur úr 30 árum í 25 ár og vextir hækkaðir upp í 8%. Lán út á afurðir landbúnaðarins frá Seðlabankanum hafa lækkað úr 67% niður í 50%. Samhliða þessu hafa opinber framlög til framkvæmda í landbúnaði lækkað og afurðaverðið á sama tíma sáralítið hækkað, enda hefur það sýnt sig, að þrátt fyrir framleiðsluaukningu og samdrátt í framkvæmdum hefur efnahagur bænda versnað stórum síðan 1958.

Engan undrar það, þótt framleiðsla bændanna geti ekki staðizt jafnmikla byrði og núv. hæstv. ríkisstj. ætlast til með sínum ráðstöfunum. Fyrir framtakssama bændur, sem óhjákvæmilega hafa safnað skuldum, kostar það ekki lítið að hækka vextina af stofnlánum, jafnframt því sem lánstíminn er styttur, og líka svo, þegar ofan á þetta bætist að þurfa nú í miklu ríkari mæli en nokkru sinni fyrr að safna hærri fjárhæðum í lausáskuldum út á hverja framkvæmd en áður var og borga svo 9–10% vexti af þeim. Þessar ráðstafanir hæstv. ríkisstj. kalla á nýjar stoðir, ef vel á að fara. Hv. þm. Jónasi Péturssyni virtist vera þetta ljóst fyrir ári, er hann sagði þá í þingræðu, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstj. hefur ákveðið að leita eftir því við banka og sparisjóði, að hluta af víxilskuldum bænda verði breytt í föst lán til langs tíma með hagkvæmum vaxtakjörum,“ — með hagkvæmum vaxtakjörum. Það frv., sem hér er til umræðu og á að vera syndakvittun hæstv. ríkisstj. til bænda landsins, ber það gleggst með sér, hversu kjörin eru hagstæð. Þolir landbúnaðurinn að borga í vexti lánsupphæðina á 12 árum? Þolir landbúnaðurinn að borga tvöfalda lánsupphæðina á 12 árum, þegar um 12 ára lán er að ræða? Ég segi nei og aftur nei. Eru vextirnir þá hagstæðir fyrir einhverja aðra aðila? Það efast ég mjög um. Það er ekki áhættulaust heldur fyrir innstæðueigendur að eiga fjármuni sína í framleiðslu, sem blessast ekki án síendurtekinnar aðstoðar, því eins og ég gat um áðan, þá tel ég, að framleiðslan, hversu vel hún gengur, það hljóti að takmarka vaxtahæðina hverju sinni og vera mjög ríkur þáttur í því, hvað hægt er að greiða háa vexti.

Hæstv. landbrh. hefur gert ítrekaða tilraun til þess að telja fólki trú um, að það skipti nú litlu máli, hversu vextirnir séu háir hjá bændum, vegna þess að kúfurinn af þeim fari inn í verðlagsgrundvöllinn. Hann hefur nú slegið mikið af þessu, hæstv. ráðh., frá því í vetur, að hann talaði hér í útvarp, því að þá fóru allir vextirnir í verðlagsgrundvöllinn, en þegar hann flutti sína framsöguræðu hér fyrir tveim dögum, var það aðeins orðinn kúfurinn, og lýsir það því þó, að hann hefur svolítið lært undir umr. málsins í Nd. Alþingis.

Í verðlagsgrundvelli landbúnaðarins fyrir yfirstandandi ár eru vextir af öðru en eigin fé 6079 kr., en ef bóndi borgar 20 þús. kr. í vexti, eins og fjölmargir bændur gera og margir miklu meira, hver greiðir vaxtamuninn, 14 þús. kr., sé bústærð hlutaðeigandi nákvæmlega hin sama og verðlagsgrundvöllurinn gerir ráð fyrir? Ég fæ ekki betur séð en þessa vaxtaaukningu verði hlutaðeigandi bóndi að taka af eigin kaupi. Það er því fjarstæða að halda því fram, að meginið af vöxtunum fari inn í verðlagsgrundvöllinn, og einmitt þeir bændur, sem skulda mest í þessu landi, eru fjær því að koma sínum vöxtum inn í verðlagið, vegna þess að þeir hafa ekki alltaf bústærð til samræmis við það, sem skuldirnar eru. Vaxtabyrðin samhliða óhagstæðum lánstíma kallar á sérstaka hjálp til bænda og mun gera það í mun ríkara mæli á næstu árum, þar sem bæði lánsfjárhæð, lánstími og ekki sízt vaxtakjörin eru mjög óhagstæð, miðað við framkvæmdakostnað og verðlag búsafurðanna. Það er t.d. vitað mál, að byggingarefni hefur hækkað allmikið, þar sem sement hefur hækkað um milli 70 og 80% og timbur yfir 60%, og segir þetta nokkuð um, hvað framkvæmdakostnaður muni vera mikill almennt hjá bændum, sem standa í byggingum. Þótt lán hafi nokkuð hækkað út á framkvæmdir, eins og þau gerðu á þessum vetri, þá er fjarri lagi, að það sé svo, að það fyrirbyggi skuldasöfnun framvegis. Bara til íbúðarhúsa t.d. fer lánið einvörðungu til þess að borga viðreisnarskattana, sem hæstv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir. Og bóndi, sem byggði 1958 og þar áður, stóð betur að vígi án láns heldur en hinn, sem fær 90 þús. kr. að láni nú undir þeim kostakjörum, sem hæstv. ráðh. telur að bændur búi við nú.

Ef ekki er gengið hreint til verks nú og bændum almennt hjálpað til að losna við lausaskuldir með því, að ríkisbankarnir sýni fullan skilning á þessum málum og festi fjármagn í þessu skyni til langs tíma, samhliða því sem stofnlánin hækka í hlutfalli við kostnað framkvæmdanna, þá er enginn vafi á því, að draumur Guðjóns í Iðju og margra annarra sjálfstæðismanna um það að fækka bændum landsins um helming rætist miklu fyrr en nokkurn hefur grunað og það meira að segja sjálfstæðisforingjana sjálfa.

Það þóttu ekki nein kostakjör, áður en núv. ríkisstj. kom til valda, að borga 8% í vexti, eins og þá var af víxlum. En að áliti sjálfstæðismanna eru þetta mjög hagstæð kjör, sérstök kostakjör fyrir bændur landsins, eins og bezt kemur fram í því, er hv. þm. Jónas Pétursson sagði hér í fyrra, að það ætti að lána bændum hagstæð lán til langs tíma. Hér er freklega gert upp á milli atvinnuvega, þar sem sjávarútvegurinn á að greiða af sams konar lánum 6½%, og lýsir þetta nokkuð hug hæstv. ríkisstj. í garð landbúnaðarins.

Mér finnst það vera ósanngjarnt að miða eingöngu, eins og gert er í þessu frv., við skuldasöfnun til ársloka 1960, vegna þess að fyrsta árið, sem dýrtíðin skellur yfir þjóðina með fullum þunga, er árið 1961. Margir bændur, sem stóðu í framkvæmdum, voru búnir að undirbúa sig nokkuð 1959 undir þær framkvæmdir, sem þeir gerðu 1960, og stóðu því heldur betur að vígi en hinir, sem stóðu í framkvæmdum á s.l. ári. Mér finnst því óréttlátt að láta þá aðila falla alveg út með sína skuldasöfnun. Það er ekki rétt varðandi bónda, sem fékk dráttarvél í janúarmánuði 1961, eingöngu vegna þess að fyrirtækið gat ekki útvegað hana fyrir áramót, að útiloka hann frá lánum, en hinn, sem fékk sína dráttarvél í desembermánuði árið áður, fellur undir aðstoð þessara laga. Mér finnst, að þarna sé freklega gert upp á milli manna, þegar dýrtíðin skall af fullum þunga yfir þjóðina allt árið 1961.

Ég vil mælast til þess, bæði við þá nefnd, sem fjallar um þetta mál, og hæstv. ríkisstj., að þeir endurskoði afstöðu sína í þessum efnum og framlengi umsóknarfrest um lánin, til þess að þeir verði ekki útilokaðir, sem stóðu í framkvæmdum 1961 og hafa þar af leiðandi safnað verulegum skuldum, og einnig hinir, sem töldu lögin, er þau komu fyrir þingið, ekki veita sér neina aðstoð. En eftir þær upplýsingar, sem gefnar hafa verið, er orðin á þessu meginbreyting. Það er því rík ástæða til þess að endurskoða umsóknarfrestinn og taka með allar skuldir, sem safnazt hafa til ársloka 1961.

Hæstv. landbrh. mætti gjarnan minnast þess, að 1959 hélt hann því fram, að þegar sjálfstæðismenn kæmu til valda, yrðu bændur ekki lengi að losna við framsóknarskattana af dráttarvélum og öðrum tækjum, eins og hann kallaði það. En efndirnar hafa í þessu orðið eins og í öðru hjá hæstv. ráðh., þessar vélar hafa hækkað um 100%. Það er svo sem eins og annað hjá hæstv. ríkisstj. Það er ekki að undra, þótt víða úti á landsbyggðinni hafi ríkt megn óánægja með þessa löggjöf og hin ýmsu félagasamtök í landinu látið þessi mál mjög til sín taka á þessum vetri. Og í einu af stærstu búnaðarsamböndum landsins og þar sem hæstv. ráðh. á enn þá sitt lögheimili hafa ekki komið síður umkvartanir um þessa löggjöf en annars staðar af landinu. En ég læt nægja að vísa til fundarsamþykktar, sem gerð var á Selfossi 24. nóv. 1961, og er þessi fundarsamþykkt undirskrifuð fyrir hönd stjórnar sambandsins af þeirra ráðunaut, Hjalta Gestssyni, en þar segir, með leyfi forseta:

„Kjörmannafundur Stéttarsambands bænda á starfssvæði Búnaðarsambands Suðurlands, haldinn á Selfossi 24. nóv. 1961, skorar á Alþingi að setja inn í frv. til l. um breyt. á lausaskuldum bænda í föst lán ákvæði um eftirtalin atriði:

1. Seðlabankanum verði gert að skyldu að endurkaupa skuldabréf sparisjóða og verzlana úti á landi vegna lausaskulda bænda.

2. Vextir af væntanlegum föstum lánum verði ekki hærri en hjá sjávarútveginum af hliðstæðum lánum.

3. Stofnunum bændanna, sem vinna úr vörum þeirra, svo sem mjólkurbúum, sláturhúsum og frystihúsum, verði veitt sömu kjör varðandi lausaskuldir og hliðstæðum vinnslustöðvum sjávarútvegsins.“

Þetta segja bændurnir í bezta héraði landsins, á Suðurlandsundirlendinu, og getur maður þá nokkurn veginn gert sé í hugarlund, hvað aðrir bændur í landinu kunna að segja um þessa löggjöf, sem verr eru settir með sína framleiðslu.

Það er einmitt fyrir svona áskoranir, bæði frá Stéttarsambandi bænda og fjölmörgum félagasamtökum víðs vegar um landið, og skelegga baráttu framsóknarmanna hér á Alþingi fyrir því að fá fram breytingu á málinu, að það hefur áunnizt, sem áunnizt hefur í þessum málum, síðan frv. var lagt fyrir Alþ. Það er þetta tvennt, sem hefur haft þau áhrif, að það var gengið í það að semja við bankana, þegar allir landsmenn sáu, að þessi lög voru meira nafnið en að þau gæfu bændum nokkra verulega bót frá því, sem áður var.

Hæstv. landbrh. gat þess, að nú ætti að efla sjóði Búnaðarbankans og lána bændum hærri stofnlán út á framkvæmdir en verið hefur og einnig lána bændum til vélakaupa og vinnslustöðva landbúnaðarins til uppbyggingar. Það má vel vera, að þetta verði gert. En ekki finnst mér forsaga þessara mála í höndum núv. hæstv. ríkisstjórnar gefa tilefni til að halda, að þetta muni eftir fara. Samdráttarstefna hæstv. ríkisstj. hefur sett sinn svip á landbúnaðinn, þannig að verulegur samdráttur varð þegar árið 1960, eins og lesa má í tíðindum til búnaðarþings 1962, sem útbýtt var hér á Alþ. fyrir nokkrum dögum. Þar stendur m.a., með leyfi forseta:

„Í sambandi við ræktunarframkvæmdir, sem unnar hafa verið 1960, er nokkur ástæða til að vekja athygli á því, að árið 1960 er eina árið um 10 ára skeið, sem dregið hefur úr framkvæmdum, sem framlag er veitt til úr ríkissjóði.“

Í 10 ár, nánar tiltekið frá 1949, hafa framkvæmdir bænda aukizt ár frá ári, einkum nýræktin, en árið 1960 snýst blaðið við. Frá 1959 hafa eftirtaldar framkvæmdir minnkað sem hér segir: nýrækt um 19%, vélgrafnir skurðir um 19%, girðingar um 11%, þurrheyshlöður um 30%, og ríkisframlag vegna jarðabóta 1960 er 2 289 583.53 kr. lægra en það var árið áður eða vegna jarðabóta 1959. Þetta er í skýrslu um útteknar jarðabætur 1960, á bis. 135 í tíðindum til búnaðarþings 1962.

Það er líka vitað mál, að árið sem leið var þessi samdráttur enn þá meiri, og læt ég nægja í þeim efnum að vitna í yfirlitsræðu þá, sem ritstjórinn Gísli Kristjánsson flutti í útvarpið nú snemma á þessu ári. Þar kom í ljós, að það er samdráttur á flestöllum sviðum landbúnaðarins. Vaxtakjörin eru ætluð af hæstv. ríkisstj. sem bremsa á framkvæmdir landbúnaðarins. Þetta vita allir. Og stuttur lánstími verkar í sömu átt. Þetta tvennt, þessir háu vextir og stutt lán, takmarkar mjög greiðslugetu bænda til framkvæmda. Það má vel vera, að hæstv. ríkisstj. ætli að láta fjármagn í stofnlánasjóði landbúnaðarins, en ég geri ráð fyrir, að hún sjái þá um leið um það, að þeim bændum, sem fá þessi lán, veitist ekki of létt að komast frá þeim, það verði bæði lánstíminn og vaxtakjörin, sem ráði þar miklu um. Og er það til samræmis við stefnu hæstv. stjórnar, síðan hún komst til valda.

Að lokum þetta: Það, sem ég tel, að mestu máli skipti fyrir bændur og eðlilega uppbyggingu landbúnaðarins í framtíðinni, er í fyrsta lagi að ganga nú sómasamlega frá lausaskuldamálum bænda, að gefa öllum jafnan kost á að sækja um þessi lán og það nái til skulda, sem safnazt hafa á fyrsta heila viðreisnarárinu, 1961, og síðan að lækka vexti af öllum stofnlánum í það, sem þeir áður voru, og lengja lánstímann til samræmis við það, sem hlutaðeigandi löggjöf mælti fyrir um. Þá hygg ég, að það megi í miklu ríkari mæli en nú komast hjá mikilli skuldasöfnun hjá bændum, sem ráðast í framkvæmdir í framtíðinni. Það er vitað mál, að uppbygging landbúnaðarins kostar mikið og þarfnast því hagstæðra lána, en ekki lána til skamms tíma, eins og nú hefur verið upp tekið hjá hæstv. ríkisstj. Ég vænti þess, að áður en þessi lög verða samþ. hér á Alþ., verði þau færð í það horf, eins og ég áður gat um, að allir geti notið þeirra, sem staðið hafa í framkvæmdum allt til ársins 1962. Verði lögunum ekki breytt á þann hátt, þá vænti ég, að þeir bankastjórar, sem kunna að fjalla um lánsbeiðnir, sem berast eftirleiðis, verði það viðsýnni en hæstv. ríkisstj., að bændurnir þurfi ekki að gjalda þess, að brbl., sem voru lögð fyrir Alþ., voru mjög af vanefnum gerð í upphafi.