16.10.1961
Efri deild: 4. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

12. mál, skemmtanaskattsviðauki

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það var eitt atriði, sem mig langaði til að minnast á í sambandi við þetta frv. og var enda nokkuð vikið að í sambandi við umr. um skemmtanaskatt á síðasta þingi.

Hv. þm. er kunnugt um það, að skemmtanaskatturinn er fjáröflun, sem varið er til þess að halda uppi ýmiss konar mikilvægri starfsemi í landinu, m.a. styrkja byggingu félagsheimila o.fl., og það hefur því mikla þýðingu, hvernig til tekst með þennan tekjustofn. Nú hefur reyndin orðið sú, og það mun vera enn svo og ég hygg í vaxandi mæli, að það hefur verið leyft, enda þótt ég efist mjög um raunar, að það sé löglegt, að samkomuhús fengju að hafa opið lengur en til hálftólf á kvöldin, sem þó er gert ráð fyrir í áfengislögum, og þetta hefur valdið því, að það er hætt að selja aðgang að veitingahúsunum, svo sem áður var, og afleiðingarnar af því þær, að af þessum samkomum er hætt að greiða skemmtanaskatt. Nú er því ekki að leyna, að þessi breytta tilhögun veitingahúsanna hefur, að ég hygg, ekki aðeins slæm áhrif í þessa átt, að rýra skemmtanaskattinn, heldur beinlínis á fleiri sviðum. Út í það efni skal ég ekki fara hér, því að það er ekki til umr., heldur aðeins skemmtanaskatturinn sjálfur. Nú er það svo, hygg ég, að mikill meiri hluti skemmtanaskattsins hefur innheimzt hér í Reykjavík, og ég er mjög hræddur um, að ef svo verður áfram, að þessi háttur verði á hafður hér og það í ríkara mæli en verið hefur, að hætt verði að krefja um aðgangseyri að dansleikjum á veitingastöðum, þá muni innan tíðar þessi skattstofn verða lítils virði. Mér þykir mjög líklegt, að hæstv. menntmrh. hafi látið kanna þetta mál, og þætti hins vegar mjög fróðlegt að vita, hvort af því hefur enn orðið nokkur niðurstaða eða hvort honum sýnist ekki, að hér stefni beinlínis til nokkurs óefnis í sambandi við þennan mikilvæga tekjustofn, sem hér er um að ræða.