12.03.1962
Neðri deild: 65. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í B-deild Alþingistíðinda. (868)

128. mál, Kirkjubyggingarsjóður

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að hafa vakið athygli þingheims á því, hversu varhugavert er að gera nokkuð, sem geti vakið upp vísitöludrauginn á ný og þær hættulegu víxlhækkanir, sem honum eru samferða. Þó að lagaákvæðið, sem nú er til umr., sé ekki um ýkja þýðingarmikið atriði, þá er þó rétt, að þarna er um stórhættulega braut að ræða, sem enginn þekkir betur en þessi hv. þm., hún hefur orðið mönnum til lítilla happa hér á landi, og það er gott, að hv. þm. skuli nú brýna fyrir þm., að þessa braut eigi umfram allt að varast. Ég vil þess vegna lofa því að eiga hlut að því að athuga það, áður en málið fer út úr deildinni, hvort rétt sé að taka þetta vísitöluákvæði burt og setja annað öruggara ákvæði í þess stað, fasta takmarkaða heimild á lánsfjárhæðum, svo að hv. þm, þurfi ekki að sofa órólega fyrir því, að þarna sé brotið skarð í varnarvegginn gegn vísitöluófagnaðinum, sem hann óttast svo mjög.