12.03.1962
Neðri deild: 65. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

128. mál, Kirkjubyggingarsjóður

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi þakka hæstv. dómsmrh, fyrir það, að hann virðist nú gerast nokkru opnari en áður fyrir því, sem ríkisstj. er bent á góðfúslega í sambandi við meðferð mála hér á þingi. Því miður höfum við þm. lítið átt því að venjast, að ráðleggingar eða ábendingar til ríkisstj. frá okkur, sem erum í hennar andstöðuflokkum, væru teknar til athugunar, og þess vegna finnst mér sérstök ástæða til þess að þakka dómsmrh. það loforð hans, að hann skuli í sambandi við þetta mál taka til athugunar atriði, sem honum hefur verið bent á, sem sagt í þessu tilfelli það, að sú stjórn, sem hefur beitt sér fyrir löggjöf um að banna vísitölugreiðslur, í hvaða mynd sem er, og lögfest þetta bann sitt með sínum þingstyrk, hún hefur hér kastað inn í þingið frv., þar sem henni hefur yfirsézt að gæta að því, að þessari reglu væri fylgt, og við því er ekkert að segja. Öllum getur yfirsézt, og er góðra gjalda vert að taka það til athugunar aftur.

Ég fyrir mitt leyti vil ekki bannsyngja vísitölufyrirkomulag á sama hátt og hæstv. dómsmrh. hafði sjáanlega tilhneigingu til. En ég er honum sammála um það, að ef vísitalan á að vera í banni, þá er ekki hægt að sleppa henni lausri sums staðar, þar sem ríkisstj. er það þóknanlegt, en ætla eftir sem áður að halda banninu á þeim stöðum, þar sem ríkisstj. er hið gagnstæða þóknanlegt.

En ég vil halda áfram að benda hæstv. ríkisstj. á fleira, sem þetta frv. hlýtur að vekja menn til nokkurrar umhugsunar um. Í þessu frv. er ráðgert að lögleiða það að hækka framlag ríkissjóðs samkv. lögum til ákveðins þáttar í byggingastarfsemi landsins, þ.e.a.s. til kirkjubygginga, upp í 1 millj. kr. Á fjárlögum í ár er þessi upphæð komin inn, en hefur verið lægri, 800 þús. kr., á fjárlögum t.d. ársins, sem var að líða, ársins 1961. Hér er sem sagt farið út á þá braut, sem ríkisstj. hefur einnig boðað sem stefnu sína, að halda í um byggingarframkvæmdir, og stingur þetta frv. ríkisstj. mjög í stúf við aðra framkomu hennar í byggingarmálum. Það er ekki ýkjamikið af almennum byggingarkostnaði í landinu, sem ríkissjóður tekur á sig samkv. fjárlögum. Þó er þar inni einn liður í 17. gr. fjárlaga, sem er framlag ríkissjóðs til húsnæðismála, en það er m.a. kostnaður við húsnæðismálastjórn og viss framlög til húsnæðisbygginga í landinu. Þessi liður hefur þrátt fyrir vaxandi dýrtíð og ört fallandi gengi peninga líka í krónutali farið niður á við hin síðustu ár. T.d. var þessi liður í fjárlögunum 1960 10145 923 kr. Næsta ár þar á eftir, 1961, var hann kominn niður í 9 millj. 120 þús. Og í fjárlögum yfirstandandi árs er hann kominn niður í 9 millj. 60 þús. og þróast niður á við þrátt fyrir vaxandi dýrtíð. Ég vil leyfa mér að vekja athygli hæstv. ríkisstj. á því, að hér er gerður skilsmunur á íbúðarhúsabyggingum fyrir fólk og þeim byggingum, sem um ræðir í þessu frv., sem eru ekki íbúðarhúsnæði fyrir fólk óumdeilanlega, hvað sem segja má um það að öðru leyti.

Það er einnig skilsmunur á því, að því er varðar byggingarnar í landinu, þessa tvo flokka bygginga, annars vegar þær byggingar, sem ríkissjóður hefur á sinni könnu samkvæmt sérstökum lið í 17. gr. fjárlaga, og kirkjubyggingar í landinu. Kirkjubyggingarnar eru eftir eðli málsins byggðar þannig, að þær eru ekki ætlaðar mönnum til nota nema fáar stundir í viku hverri, sums staðar reyndar er ekki hægt að telja það í vikum, sem notkun þeirra fer fram, heldur frekar í mánuðum eða missirum. En íbúðarhúsnæðið er athvarf manna allar stundir, alla daga. Það er líka sá skilsmunur á þarna, sem virðist hafa mætt harla litlum skilningi hjá ríkisstj., að það er verulegur skortur á íbúðarhúsnæði í landinu enn þá, og reyndar er nú svo komið, að hann fer vaxandi. Það tekst með þeim hraða, sem nú er á byggingum, alls ekki að anna því að gera húsnæði fyrir eðlilega aukningu þjóðarinnar, hvað þá meira. En í kirkjubyggingum er húsnæðisleysi ekki tilfinnanlegt, vil ég fullyrða, og leyfi mér að nefna það dæmi, sem a.m.k. flestum hér í höfuðborg landsins ætti að vera hvað kunnugast, að fyrir — ég held ég megi segja áratugum, þá tók sig til einn söfnuður í höfuðborginni og það stór söfnuður og byrjaði á byggingu á stórri kirkjuhöll og byrjaði með þeim hætti, að byggður var kjallari undir kórinn. Við það stendur enn, og þessi kjallari reynist vera nokkurn veginn hæfileg kirkja fyrir söfnuðinn, og mér er ekki kunnugt um, að húsnæðisskortur standi safnaðarlífinu þar neitt fyrir þrifum. Þetta segir auðvitað þá sögu, að til fjárfestingar í kirkjubyggingum hefur verið efnt af fullkomnu óhófi og langt umfram efni þjóðarinnar að undanförnu.

Hv. 2. þm. Norðurl. v. gat hér um það áðan, að undirstaða undir almennri líknarstarfsemi væri starfsemi kirkjunnar. Það má vel vera, að svo sé, ég skal ekki fara hér út í þau mál. En jafnvel þótt svo væri, gerir það ekki að engu það lögmál, að sérhver þjóð hefur til fjárfestingar og til framkvæmda í landi sínu aðeins takmörkuð fjárráð, og eftir því sem meira af þeim fjárráðum, sem hún kann að hafa til þess að byggja fyrir, er notað í óhófsskyni, hvort heldur er í kirkjubyggingar eða annað, eftir því verður minna eftir til eðlilegra og hinna brýnustu þarfa.

Ég vil sem sagt leyfa mér, fyrst hæstv. ríkisstj. er nú, góðu heilli, tekin upp á því að hugleiða þær leiðbeiningar, sem fram koma hér frá stjórnarandstöðunni, að vekja athygli hennar á þessu: í fyrsta lagi því, að sú þróun að hækka með lögum framlagið til kirkjubyggingasjóðs er í algeru ósamræmi við fjárframlög ríkissjóðs til annarra byggingarframkvæmda og þar með, skilst mér, í rauninni frávik frá þeirri stefnu, sem ríkisstj. hefur markað sér í fjárfestingarmálum og byggingarmálum alveg sérstaklega eða a.m.k. að því er tekur til húsnæðismálanna, og sömuleiðis, að þörfin er þó miklu brýnni á því, ef frávik eru gerð frá stefnu ríkisstj. og rýmkað um í byggingarmálum, að gera það frekar að því er varðar íbúðabyggingar heldur en þær byggingar, sem um ræðir í þessu frv.