12.03.1962
Neðri deild: 65. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í B-deild Alþingistíðinda. (871)

128. mál, Kirkjubyggingarsjóður

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umr. eða blanda mér hér inn í deilur. Ég vil aðeins lýsa fylgi mínu við þetta frv.

Á undanförnum þingum höfum við fulltrúar Framsfl. í fjvn. ýmist flutt þar brtt. eða staðið með brtt. um að hækka framlagið til kirkjubyggingasjóðsins, og þegar Eysteinn Jónsson, hv. 1. þm. Austf., var fjmrh., var framlag ríkissjóðs á árinu 1958 800 þús. þrátt fyrir lagabókstafinn. Þessi breyting er því ekki nema eðlileg afleiðing af því, sem gert hefur verið af fjárveitingavaldinu á undanförnum árum, og er hún sízt of mikil. Hins vegar er það mikils virði fyrir kirkjubyggingasjóðinn að fá þetta lögfest. Ég lít svo á, að framlag ríkisvaldsins til kirkjubygginga í landinu hafi verið til þessa og sé þrátt fyrir þessa breytingu of lítið. Þess vegna fylgi ég því eftir, að þetta frv. verði samþykkt, en tel það engan lokaþátt í fjárveitingu til kirkjubygginga í landinu, því að þær þurfa að aukast frá því sem er, og hafa margir söfnuðir leyst þar af hendi mikið grettistak, og er eðlilegt og sjálfsagt, að ríkið komi þar til móts við þá.