06.12.1962
Neðri deild: 26. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

98. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Frsm. (Sigurður Ingimundarson):

Herra forseti. Mál það, sem hér er til umr., frv. til l. um breyt. á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, er í sjálfu sér ekkert annað en staðfesting á því samkomulagi, sem ríkisstj. eða hæstv. heilbrmrh. gerði í svokallaðri læknadeilu. Sú deila reis, eins og kunnugt er, út af kjörum sjúkrahúslækna og komst á tímabili á það stig, að læknarnir hættu störfum. Málavextir voru ýtarlega raktir og málið rætt í Sþ. utan dagskrár á sínum tíma, og tel ég því ekki ástæðu til að rekja það hér frekar.

Það, sem síðan hefur skeð, er í rauninni þetta samkomulag, sem gert hefur verið, og er gerð grein fyrir því í grg. með frv. Samkomulagið bindur enda á þessa alvarlegu deilu, og ber að sjálfsögðu að fagna því, þar sem það hefur verið gert með samkomulagi.

Málið fékk greiða göngu í gegnum hv. Ed., og fjhn. þessarar hv. d., sem hefur fjallað um málið, leggur einróma til, að það verði samþ. Er því lagt til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.