17.04.1963
Neðri deild: 72. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1169 í B-deild Alþingistíðinda. (1129)

215. mál, Tækniskóli Íslands

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Þó að þessar umr. hafi í sjálfu sér orðið gagnlegar, þá hef ég samt orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með sumt af því, sem sagt hefur verið. Hv. 2. þm. Norðurl. e. (JR) taldi, að það mundi vera erfitt fyrir nemendur að sækja skólann á Akureyri, en á þetta get ég ekki fallizt. Ég hygg, að það sé engan veginn verra fyrir nemendur að stunda skólanám sitt á Akureyri en hér í Reykjavík. Það, sem um munar, er þá ferðakostnaður og annað ekki, ef nemendur eru búsettir í Reykjavík. En gera má líka ráð fyrir því, að nemendur, sem sækja tækniskóla, séu ekki einvörðungu úr Reykjavík, heldur séu þetta menn úr öðrum landshlutum, og sést strax, að það er sízt verra fyrir þá að sækja skóla á Akureyri eða dveljast þar við skólanám heldur en í Reykjavík. Auk þess vil ég minna á það, sem ég sagði í frumræðu minni um þetta atriði almennt, að ég tel, að yfirleitt mætti líta svo á, að skólar væru betur staðsettir utan höfuðborgar en í höfuðborginni.

Það virðist vera samdóma álit allra þeirra, sem talað hafa á eftir mér, að undirbúningsdeildin sé upphaf að tækniskólanum, og það er búið að hafa í frammi ýmsar yfirlýsingar í þá átt, að það má af því ráða, að það sé stefna þeirra, sem að þessu frv. standa, að það skuli koma sérstakur tækniskóli á Akureyri. Þeirri yfirlýsingu vil ég fagna út af fyrir sig. Og ég vil sérstaklega fagna því, að hv. 5. þm. Vesturl., frsm. n., virtist fallast á, að orðalagi á einni brtt., þar sem fjallað er um undirbúningsdeild á Akureyri, verði breytt þannig, að skýrt komi í ljós, að þarna eigi einnig að starfrækja aðrar bekkjar- eða skóladeildir. Þetta var í raun og veru það, sem bæði vakti fyrir mér og v akti fyrir öðrum, sem rætt hafa þetta mál á Akureyri, þ.e. að tryggt verði, að sú kennsla, sem fram fer á Akureyri, þróist upp í það að verða sjálfstæð menntastofnun, sjálfstæður tækniskóli.

Hæstv. menntmrh. skýrði réttilega frá því, að n. manna hefði átt viðræður við hann fyrir nokkurs, eftir að frv. kom fram hér, og ég var á þessum fundi. En ég held þó, að okkur beri ekki alveg saman um, hver var niðurstaðan af þessum viðræðum. Hann telur, að nm. mundu hafa sætt sig víð, að aðeins væri starfrækt undirbúningsdeild, og teldu, að með því væri fyrir því séð, að þróunin gengi í þá átt, að tækniskóli risi á Akureyri. En ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að þeir, sem á þessum fundi voru, hafi talið nauðsynlegt að taka það einnig fram, að starfrækja mætti bekkjar og skóladeildir tækniskólans á Akureyri. Og ég hafði satt að segja í hyggju, ef sú brtt., sem við hv. 3. þm. Norðurl. e. flytjum, yrði felld, að flytja aðra brtt., sem færi í þá átt, jafnvel þó að ég hefði kosið að ganga nokkru lengra.

En kæmi fram brtt., sem hljóðaði eitthvað á þessa leið: „Heimilt er að starfrækja undirbúningsdeild á Akureyri, svo og aðrar bekkjar og skóladeildir tækniskóla, enda sé að því stefnt, að á Akureyri rísi sjálfstæður tækniskóli,” — ef slík till. kæmi fram og yrði samþ., þá má segja, að það megi allvel við una, og þætti mér vænt um, ef hv. menntmn. vildi athuga, hvort ekki mætti koma fortakslausara ákvæði inn í þetta frv., þannig að tryggt sé og augljóst, að stefnt sé að því að stofna sjálfstæðan tækniskóla á Akureyri.