29.03.1963
Efri deild: 64. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í B-deild Alþingistíðinda. (1201)

227. mál, tollskrá o.fl.

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Frá því var skýrt í Morgunblaðinu s.l. þriðjudag, að tollskráin nýja eða tollskrárfrv. mundi væntanlega koma fram næsta dag og mundi fjmrh. þá að kvöldi þess dags gera grein fyrir henni á fundi í Varðarfélagi. En jafnframt var því bætt við, að menn hefðu beðið með mikilli óþreyju eftir hinni nýju tollskrá. Sama dag var frá því skýrt í dagblaðinu Vísi, málgagni hæstv. fjmrh., að menn hafi lengi beðið tollskrárinnar með eftirvæntingu. Og í Morgunblaðinu í fyrradag er sagt, að beðið hafi veríð eftir skránni með eftirvæntingu. Þessi ummæli stjórnarblaðanna eru vissulega skiljanleg, þegar höfð er í huga sú skattaáþján, sem landsfólkið hefur átt við að búa af viðreisnarstjórnar völdum, og þegar þess er gætt, hversu oft er búið að gefa fyrirheit í sambandi við þessa væntanlegu tollskrá og þá ekki hvað sízt af hæstv. fjmrh.

Það er orðið býsna langt síðan hæstv. fjmrh. boðaði endurskoðun tollskrárinnar, það var þegar í desembermánuði 1959, og boðaði þá nýja tollskrá, þar sem vænta mætti mikilla og margvíslegra endurbóta í tollamálum, og síðan hefur hina væntanlegu nýju tollskrá borið á góma æði oft. Það er oft og við mörg og margvísleg tækifæri búið að gefa í skyn, hvers mætti vænta, er hin nýja tollskrá liti dagsins ljós. Í hvert skipti, sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt á nýja tolla eða skatta eða hækkað þær álögur, sem fyrir voru, og það er hreint ekki svo sjaldan, sem til þess hefur komið í tíð núv. hæstv. ríkisstj., þá hefur verið látið í það skína, að hér væri um bráðabirgðaúrræði að tefla eða menn yrðu að þola þessar álögur um sinn, en tollskráin nýja væri á næsta leiti, nýtt tollskrárfrv. yrði brátt fram lagt og þá yrði hægt að snúa þessu öllu til betri vegar, álögurnar mundu þá léttast, já, jafnvel sumir skattar alveg hverfa og verða lagðir niður. Og í hvert skipti, sem við stjórnarandstæðingar höfum borið fram till. um tollalækkanir eða um afnám tolla af tilteknum vörum, þá hefur svarið jafnan verið á reiðum höndum af hálfu hæstv. ríkisstj. Svarið hefur jafnan verið eitt og hið sama, að ekkert væri hægt að lækka nú, ekkert væri hægt að lækka, eins og sakir stæðu, en öðru máli yrði að gegna, þegar nýja tollskráin kæmi, þá yrði þetta allt tekið til endurskoðunar og lagfæringar. Og þegar t.d. hæstv. ríkisstj. hefur framlengt hinn margumtalaða bráðabirgðasöluskatt sinn, sem upphaflega átti aðeins að gilda á árinu 1960, þá hefur hún alltaf haft þau huggunarorð á takteinum, að þessi skattur yrði afnuminn, þegar nýja tollskráin kæmi.

Það er sannarlega ekki að undra, þó að menn hafi beðið lengi með óþreyju og eftirvæntingu eftir þessari töfraskrá. Sérstaklega er skiljanlegt, að hennar hafi verið beðið með óþreyju og eftirvæntingu af þeim mönnum, sem eitthvert traust hafa borið til ríkisstj. Það er ekki búið að vekja svo fáar vonir í sambandi við þessa nýju tollskrá. Já, það er vissulega ekki að undra, þó að menn hafi beðið eftir því eftirvæntingarfullir, hvort ríkisstj. mundi nú aflétta einhverjum þeim álögum, sem hún hefur lagt á allan almenning í þessu landi nú í seinni tíð, því að sannleikurinn er sá, að í tíð engrar ríkisstj. hér á landi hafa álögur vaxið neitt svipað því og í tíð núv. hæstv. ríkisstj. Álögur á landsfólkið hafa aldrei í allri Íslandssögunni vaxið neitt viðlíka og hjá þessari hæstv. ríkisstj. Hún er þar alger methafi, og vonandi verður þess langt að bíða, að því mati hennar verði hnekkt.

Það hefði vitaskuld mátt ætla, að þegar í kjölfar gengislækkananna á sinni tíð hefðu siglt einhverjar tollalækkanir. En það var nú síður en svo, að það ætti sér stað, því að eins og menn muna, þá var það einmitt svo í sambandi við hina fyrri miklu gengislækkun, sem átti sér stað 1960, að samhliða henni voru settar á nýjar álögur, og ber þar fyrst að nefna söluskattinn, bæði hinn almenna og svo viðbótarsöluskattinn á innflutningi. Og það var ekki látið nægja, því að jafnframt var t.d. alveg samhliða gengislækkuninni ákveðinn aukaskattur á benzín frá því, sem áður var, og aukatekjugjöld í ríkissjóð voru hækkuð um 50% samhliða gengislækkuninni, enda þótt gengislækkunin hlyti auðvitað að þýða margfalda hækkun á verðtollinum.

Þannig sem sagt brást hæstv. ríkisstj. við í sambandi við gengisfellingarnar. Það hafa ugglaust margir a.m.k. reiknað með því, að fljótlega á eftir þeim mundu koma til framkvæmda einhverjar lækkanir á aðflutningsgjöldum, en það var ekki fyrr en með l. nr. 90 frá 1961, sem tollur á nokkrum hátollavörum var lækkaður. Að öðru leyti hefur ekki verið um lækkanir á aðflutningsgjöldum að ræða í tíð núv. hæstv. ríkisstj., heldur þvert á móti, eins og ég kem að síðar. En hins vegar hefur oft verið á það minnzt, að lagfæringa og lækkana væri að vænta, þegar hin nýja tollskrá kæmi, og svo oft hefur verið á hana minnzt og það sérstaklega af hálfu hæstv. fjmrh., að í raun og veru hefur mátt kalla hana eins konar fagnaðarerindi fjmrh., sem hann hefur sí og æ á þessu kjörtímabili verið að veifa, bæði framan í þingheim og almenning.

Og nú er hún þá, þessi margumtalaða og lengi þráða skrá, loksins komin fram. Eftir að búið er að tala um hana allt kjörtímabilið, þá er hún þó nú að lokum komin fram á síðasta þingi kjörtímabilsins og á síðustu starfsvikum þess þings. Nú geta menn séð efndir gefinna fyrirheita. Það er nú hætt við því, að þeir, sem búizt hafa við miklum tollalækkunum í sambandi við þessa tollskrá, verði fyrir nokkrum vonbrigðum. Það er hætt við því, að þeim þyki tollalækkanirnar nokkuð naumt skammtaðar, og það er hætt við því, að þeim þyki heldur litlu skilað aftur af öllum þeim álögum og álagahækkunum, sem átt hafa sér stað, meðan núverandi stjórnarsamvinna hefur staðið yfir. En auðvitað var verulegra tollalækkana ekki að vænta og er ekkí að vænta að óbreyttri stjórnarstefnu. Að því verður betur vikið síðar. Það mun allt liggja ljósar fyrir, þegar málið hefur verið athugað í nefnd. Um það skal ég ekki fjölyrða að sinni, en kem lítillega að því síðar.

En á þessu stigi kemst ég ekki hjá því að vekja athygli á meðferð þessa máls og gera við hana nokkrar aths. Setning heildarlöggjafar um tollskrá er ákaflega flókið, vandasamt og umfangsmikið verk. Það þarf að sjálfsögðu mikinn og vandaðan undirbúning, og það þarf líka og ekki síður, ef vel á að vera, nákvæma og vandlega athugun á Alþ. Þm. er gersamlega ókleift að setja sig inn í svo umfangsmikið mál á stuttum tíma. Mál sem þetta ætti því að réttu lagi að leggja fram í þingbyrjun, svo að alþm. gefist nægilegt ráðrúm til að íhuga það. En nú er þetta stórmál lagt fram í þinglok að kalla má, og þinginu er ætlað að afgreiða þennan umfangsmikla lagabálk á aðeins örfáum starfsdögum og það á þeim tíma, sem annir þingsins eru að öllum jafnaði allra mestar. Það segir sig sjálít, að hvorki þingnefndum né einstökum þm. gefst nægur tími til athugunar á þessum málum. Með slíkum starfsháttum er stjórnin, sem fyrst og fremst og reyndar ein hefur haft ráðin um undirbúning þessa máls með höndum, í raun og veru að draga völd frá Alþingi.

Ég get ekki stillt mig um að benda aðeins á það í þessu sambandi, hversu þessir starfshættir, sem ég nú hef drepið á, og starfshættir allir við undirbúning þessa frv. eru gerólíkir þeim starfsháttum, sem viðhafðir voru með setningu tollskrárinnar 1939. En þá var fyrst, eins og mönnum er kunnugt, sett heildarlöggjöf um þessi málefni, tollamálefni. Tollskrárfrv. 1939 var undirbúið af sérstakri mþn., sem skipuð var samkv, þál. frá Alþ. 1938, og í þessari mþn. áttu sæti fimm menn, einn frá hverjum stærstu flokkum þingsins, og til viðbótar skattstjóri í Reykjavík og tollstjóri. Tollskrárfrv. var þá lagt fram í þessari hv. d. 1. marz 1939. Og það var til meðferðar hér í þessari hv. d. í marz og þar til það var síðast hér þá til umr. 17. apríl, en þinghlé var tekið það ár eða þingi var frestað 26. apríl og til 1. nóvember það ár, — en það var hér til 3. umr., þegar þingi var frestað. Það var svo, eftir að þing kom saman aftur um haustið, loks samþ. og afgr. til Nd. 8. nóv. Þar var því vísað til 2. umr. og fjhn. 14. nóv., og til 3. umr. var því ekki vísað fyrr en 18. des., og það var ekki endanlega samþ. fyrr en 29. des. Menn beri nú aðeins þetta saman við þá málsmeðferð, sem nú er viðhöfð og fyrirhuguð.

Það tollskrárfrv., sem hér liggur fyrir, er að vísu sagt undirbúið af nefnd, en þó held ég, að það sé tæpast hægt að segja, að þar hafi um nefndarskipan verið að tefla, enda segir svo í aths., að fjmrh. hafi falið þar til greindum fjórum embættismönnum að annast þessa endurskoðun, þannig að það má segja, að þetta tollskrárfrv., sem nú liggur fyrir, sé. undirbúið af ákveðnum embættismönnum, vitaskuld samkv. forsögn hæstv. ríkisstj. og þá væntanlega fyrst og fremst hæstv. fjmrh., en þó er það sjálfsagt fyrst og fremst undirbúið af sjálfu fjmrn.

Ég vil taka það sérstaklega skýrt fram, að ég efast ekki um, að þeir ágætu embættismenn, sem þarna eru tilgreindir, og þeir starfsmenn fjmrn., sem um þetta hafa fjallað, hafa út af fyrir sig unnið hér gott starf og frá hinni tæknilegu hlið frv. sé út af fyrir sig vel gengið. En ég verð að lýsa þeirri skoðun minni, að það sé miklu eðlilegri undirbúningur á löggjöf sem þessari og á slíku máli sem þessu, að það sé undirbúið af mþn., þar sem ýmis sjónarmið geta komið fram, en vitaskuld er hitt jafnsjálfsagt og nauðsynlegt, að slík n. hafi aðgang að eða hafi sér við hlið embættismenn eða sérfræðinga í þessum málum. Það má líka í þessu sambandi benda á þá endurskoðun á tollskránni, sem fram fór 1954 og aðallega var gerð með tilliti til iðnaðarins. En sú breyt. var líka undirbúin af sérstakri fimm manna mþn., en eins og menn vita v ar sú lagabreyting siðan felld inn í meginmál tollskrárinnar frá 1939 og hún gefin út að nýju sem núgildandi tollskrá nr. 90 frá 1954. Sú breyting, sem þá var gerð, var auðvitað ekki nema örlítið brot á móti þeim umfangsmikla lagabálki, sem hér er um að tefla. En ég hygg, að þinginu hafi þá verið ætlaður eins langur tími eða lengri tími til þess að fjalla um þær breyt. eins og Alþ. nú virðist vera ætlaður til þess að fjalla um allt þetta umfangsmikla mál.

Þó að ég hafi hreyft aths. við sjálfan undirbúninginn að þessu leyti, að ég hefði talið eðlilegra, að þetta hefði verið undirbúið af mþn., þar sem fulltrúar t.d. frá stjórnmálaflokkunum hefðu átt aðild að, þá er þó það, sem er alveg sérstaklega forkastanlegt í sambandi við þetta mál, að leggja frv. nú fyrst fram í þinglokin og ætla að keyra málið í gegnum þingið á nokkrum dögum að kalla má. Það er, eins og ég hef þegar tekið fram, augljóst mál, að þm. gefst á þeim tíma alls ekkert ráðrúm til athugunar á þessu mikilvæga máli, þannig að niðurstaðan verður sú, að málinu er í reyndinni ráðið til lykta utan dyra Alþ. En það, sem verst er, er það, að þetta er því miður ekkert einstakt að þessu leyti. Þau vinnubrögð, sem á að viðhafa í sambandi við það, gefa tilefni til þess, að það sé rifjað upp og á það minnt, hver vinnubrögð þingsins nú að undanförnu hafa verið. Og það er alveg sérstakt tilefni til þess, af því að málgögn núv. stjórnarflokka hafa gert talsvert mikið að því upp á síðkastið að státa af vinnubrögðum þessa þings og bera það saman við önnur fyrri þing. En því fer náttúrlega fjarri, að þetta þing þoli að því leyti samanburð við, að ég ætla, nokkurt þing. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þetta þing hefur lengst af í vetur setið aðgerðalítið, og það er mönnum í þessari hv. d. allra bezt kunnugt um, að málefni, sem það hefur haft til meðferðar, hafa v erið af skornum skammti. En nú á allra síðustu vikum þingtímans er lagt fram hvert stjfrv, á fætur öðru og sum mjög umfangsmikil, sem þyrftu, ef vel ætti að vera og þm. ætluðu að gegna sinni skyldu, að fá nákvæma athugun. Niðurstaðan af þessum vinnubrögðum verður auðvitað sú, að málin eru drifin gegnum þingið án nokkurrar verulegrar athugunar í þinginu sjálfu og venjulegast án þess að nokkur lagfæring fáist á, jafnvel þótt auðsæ missmíði séu þar á. En hitt er þó auðvitað algengara, að vegna þess að þessir starfshættir eru viðhafðir, þá fari gegnum þingið löggjöf, sem er ekki svo vel og rækilega undirbúin sem skyldi. Hitt er svo augljóst mál, að slík vinnubrögð sem þessi verða virðingu þingsins með ýmsum hætti til hnekkis.

Ég hygg, að allir hv. þm. verði að játa, að hér er aðeins réttum staðreyndum lýst, og ég hygg, að þeir muni með sjálfum sér allir taka undir það, að á þessu þyrfti að verða breyting. Ég vil taka það alveg skýrt fram, að þetta, sem ég hef hér sagt, má ekki skoða að neinu leyti sem gagnrýni á forseta þingsins, vegna þess að við þá er náttúrlega ekkert að sakast í þessu efni. Þessi vinnubrögð — að koma fram með umfangsmikla lagabálka ekki fyrr en á síðustu dögum þingsins — eru auðvitað algerlega á ábyrgð hæstv. ríkisst;j., og gagnrýni út af því hlýtur að beinast að henni.

Það má kannske segja, að þetta hafi verið útúrdúr. En ég gat ekki stillt mig um að benda á þetta, einmitt í sambandi við meðferð þessa máls, sem ég leyfði mér að gera nokkrar aths. við.

Um frv. sjálft, sem hér liggur fyrir, verður af skiljanlegum ástæðum fátt eitt sagt á þessu stigi. Það er flóknara og yfirgripsmeira en svo, að það hafi gefizt nokkurt tóm til þess að átta sig á því í einstökum atriðum. Eins og þegar hefur komið fram og frv. sjálft ber með sér og hæstv. fjmrh. gerði glögglega grein fyrir í framsöguræðu sinni hér í gær, eru með frv. þessu helztu tollar og aðflutningsgjöld sameinuð í einn toll, verðtoll, þ.e.a.s. vörumagnstollur og verðtollur með þeim álögum, sem verið hafa, og 15% söluskatturinn, innflutningsgjaldið, tollstöðvagjaldið og byggingarsjóðsgjaldið, allt er þetta sameinað í einn toll, einn verðtoll. Sameining fleiri aðflutningsgjalda í einn toll verður út af fyrir síg að telja til bóta og til hagræðis, bæði fyrir innflytjendur og ríkið sjálft. Má því fallast á þá stefnu frv.

Í frv. þessu er gert ráð fyrir því að hverfa nær alveg frá vörumagnstolli og nota hér eftir einungis verðtoll nema í örfáum undantekningartilfellum. Hér er um talsvert mikla stefnubreytingu að ræða frá því 1939, þegar tollskráin í öndverðu var sett, og þá sérstaklega frá því, sem talið var að við ætti fyrir þann tíma, því að mér skilst, að tollar og aðflutningsgjöld fyrir setningu tollskrárinnar 1939 hafi fyrst og fremst verið vörumagnstollur, en þá var horfið að þessu ráði, að taka upp hvort tveggja vörumagnstoll og verðtoll, og var þó upphaflega, þegar tollskráin var þá sett, gert ráð fyrir því, að vörumagnstollurinn yrði öllu fyrirferðarmeiri. En breyttir tímar hafa haft í för með sér breytingu á því. Það má segja, að hvor tollunaraðferðin sem er hafi sína kosti og sína galla. Það hefur verið talið vörumagnstollinum til gildis, að hann væri einkar auðveldur í framkvæmd, hann þyrfti ekki að byggja á neinum skýrslum, þar væri hægt fyrir tollyfirvöld að ganga að hinum innflutta varningi, vega hann og mæla. Þar yrði þess vegna engum missögnum við komið. Ókosturinn á vörumagnstollinum er hins vegar auðsær, a.m.k. frá sjónarmiði þess opinbera, þ.e. að hann fer ekkert eftir verðmæti vörunnar og gefur ríkissjóði því ekki auknar tekjur, þótt stórfelldar verðbreytingar eigi sér stað. Verðtollurinn er aftur á móti frá sjónarmiði ríkisins hentugur að því leyti til, að hann miðast við verðlagið og tekur breytingum eftir breyttu verðlagi. Hins vegar má telja það ókost á verðtollinum, að hann verður að byggja á skýrslum innflytjenda. Og það getur átt sér stað, að þær skýrslur reynist misjafnar, og þarf því a.m.k. vakandi eftirlit með því og athugun á því, hvort þær séu réttar. En hvað sem nú um kosti og ókostí þessara tvenns konar aðferða má segja, þá hefur víst niðurstaðan orðið sú, að flestar þjóðir hafa á síðari árum í æ vaxandi mæli horfið frá vörumagnstolli og að verðtolli og svo hefur einnig verið gert hér. Ég verð því að telja þessa breytingu út af fyrir sig eðlilega, þegar alls er gætt, að hverfa með öllu frá vörumagnstollinum og að verðtollinum. Að því leyti, sem þetta frv. þannig horfir til sameiningar og samræmingar á tollum og aðflutningsgjöldum, verður að mínum dómi að telja það til bóta.

Ég mun nú ekki hér fara að ræða um flokkun í þessu frv. eða uppsetningu þess. Það má vitaskuld hugsa sér það gert með ýmsum hætti, og það hafa ýmsar og mismunandi aðferðir tíðkazt í þeim efnum. Sérstaklega hefur verið fylgt þar tveimur mismunandi aðferðum, annars vegar að byggja á bókstafakerfi, hins vegar að byggja á vöruflokkum. Ég hygg, að það kerfi að byggja á vöruflokkum sé yfirleitt notað nú. Það, sem mestu skiptir í sambandi við slíka uppbyggingu tollskrár formlega séð, er, að hún sé gerð í samræmi við það, sem tíðkast hjá öðrum þjóðum og þá einkanlega þeim, sem mest skipti eru við. Það er þess vegna ofur skiljanlegt, að það hafi verið reynt með samvinnu þjóða á milli að samræma þessar aðferðir og koma á nokkuð föstu kerfi, og það skilst mér að hafi verið gert sérstaklega með þessari svokölluðu Brüssel-samþykkt. Og þetta frv., sem hér liggur fyrir, er byggt á þeirri samþykkt. Ég held þess vegna, að það sé ekki út af fyrir sig ástæða til þess að gera aths. við hina formlegu uppbyggingu þessa frv., a.m.k. ekki í meginatriðum.

Samkv. frv. þessu er um nokkrar tollalækkanir að ræða á einstökum vöruflokkum. Eru þær margar a.m.k. góðar, svo langt sem þær ná. Á öðrum flokkum er hins vegar um hækkun að ræða. Lækkanir og hækkanir í þessu frv. er því að finna nokkuð sitt á hvað, eins og reyndar hæstv. fjmrh. nefndi dæmi um og gerði nokkuð grein fyrir í framsöguræðu sinni hér í gær. Það má t.d. nefna þetta, sem minnzt hefur verið á, að tollur á bifreiðum er hækkaður úr 81% upp í 90%. Á móti kemur svo aftur lækkun á bifreiðavarahlutum úr 77 niður í 35%. Aftur á móti kemur svo til hækkunar á varahlutum í bátavélar, úr 21 upp í 35. Og þannig mætti í sjálfu sér lengi telja, að þetta er nokkuð sitt á hvað. Þó hygg ég, að lækkunarliðirnir séu mun fleiri. En það þarf út af fyrir sig ekki að segja mikið, heldur skiptir hitt auðvitað meginmáli, á hverjum liðum er hækkun og á hverjum liðum er lækkun, hve mikið sem sagt þeir liðir vega í innflutningi, sem eru hækkaðir eða lækkaðir, þegar á að mynda sér heildarmynd af því, hver útkoman er eftir þessu frv.

Þó að það sé ljóst við lauslegan yfirlestur á frv., að það sé um talsverðar lækkanir að ræða á ýmsum vöruflokkum, þá verður það jafnframt auðsætt, að í þessu frv. er ekki um verulegar tollalækkanir í heildinni að ræða. Þetta jafnast nokkuð upp. Þetta verður sérstaklega ljóst, þegar þess er gætt, að heildarlækkanir samkv. frv. eru í grg. áætlaðar nema 97 millj. kr. Það verður ekki talin nein stórkostleg tollalækkun, allra sízt þegar tillit er tekið til þeirra síauknu álaga á almenning, sem átt hafa sér stað í tíð núv. ríkisstj. Ég ætla ekki að fara að rekja þá sögu ýtarlega hér, en ég ætla þó aðeins að minna á nokkrar þær álögur, sem núv. stjórnarflokkar hafa beitt sér fyrir og staðið að. Það er til þess raunar líka fullkomið tilefni, vegna þess að formælendur stjórnarflokkanna eða a.m.k. málgögn þeirra hafa borið sér það í munn, að í tíð núv. hæstv. ríkisstj. hafi verið horfið frá skattránsstefnu fyrri ríkisstj., sérstaklega vinstri stjórnarinnar, sem þeir nefna, þannig að þótt hæstv. fjmrh. léti þess ekki sérstaklega getið hér í gær, þá er tilefni til þess, — það er leiðinlegt, ef fjmrh. hlustar ekki á þetta, ef hann skyldi vera farinn að gleyma einhverju af þessum álögum, sem á hefur verið komið í hans stjórnartíð, — en ég tek það fram um þessar álögur, sem ég nefni hér, að þar er ekki eingöngu um að ræða skatta, sem renna í ríkissjóð, en ég skal fara mjög fljótt yfir sögu og þá ekki sízt af því, að hæstv. fjmrh. er svo vant við látinn, að hann hefur ekki tíma til þess að vera við umr. Ég minni þá fyrst á hinn almenna 3%, söluskatt. Það er skattur, sem núv. stjórnarflokkar innleiddu. Að vísu var áður 9% söluskattur á iðnaðarvörum, en hann rann í útflutningssjóð. Ég minni á 8% innflutningssöluskattinn, sem aðeins átti að standa til bráðabirgða, en sífellt hefur veríð framlengdur frá ári til árs. Ég minni á þá hækkun á innflutningsgjaldi á benzíni, sem átt hefur sér stað, en það var hækkað einmitt í efnahagsl. frá 1960 um 34 aura á hvern benzínlítra, auk þess sem 50 aurar af hverjum benzínlítra, sem áður runnu til útflutningssjóðs, voru eftir efnahagslögin og gengisbreytinguna. til viðbótar látnir renna, í ríkíssjóð. Ég minni líka á 50% hækkun á aukatekjugjöldum í ríkissjóð, sem ákveðin var í efnahagslögunum nr. 4 frá 1960 og enn stendur óbreytt. A yfirstandandi kjörtímabili hafa auk þess margs konar þjónustugjöld ríkisfyrirtækja verið hækkuð stórkostlega. Nægir í því sambandi t.d. að benda á póstgjöld, símagjöld, útvarpsgjöld, rafmagns- og hitaveitugjöld o.s.frv., o.s.frv. Útflutningsgjald af sjávarafurðum hefur verið stórhækkað. Það hefur verið lögleiddur sérstakur skattur, launaskattur, að kalla má, á bændur, 1% álag á söluvörur landbúnaðar, en það er í raun og voru alveg sérstakur skattur að því leyti til, að hann fæst ekki reiknaður inní verð landbúnaðarafurðanna og verður því ekki talinn söluskattur, heldur launaskattur á bændur. Jafnframt hefur svo aftur sérstakur söluskattur verið lagður á landbúnaðarafurðir, 0.75% , samkv. l. um stofnlánadeild landbúnaðarins. Það hefur nýlega verið lögleiddur 0.4% skattur á iðnaðinn til iðnlánasjóðs. Það hefur verið lögleitt sérstakt gjald í ríkisábyrgðasjóð. í framlögðu frv. hér á hv. Alþ, er gert ráð fyrir söluskatti á sement, innflutt, og framleiðslugjald líka á sement innanlands, aðflutningsgjaldi á timbri og steypustyrktarjárni og skatti á útborguð laun iðnaðarmanna hjá iðnfyrirtækjum til þeirrar starfsemi eða framkvæmda, sem um er að ræða í því frv. Þessi orð mín má ekki skilja svo, að ég sé andvígur þeirri starfsemi, sem þar er um að tefla, þó að ég nefni þessi nýju gjöld, sem lögð eru á í þessu sambandi. En eins og sjá má af þessari upptalningu, þá hefur hér ekki verið um neinar smávegis álögur að ræða. En þar við bætist svo það, sem sízt af öllu má gleymast, að á þessu tímabili hafa farið fram stórfelldar gengislækkanir tvisvar sinnum, 1960 og 1961, og auðvitað hefur verðtollurinn, eins og ég hef raunar áður tekið fram, raunverulega stórkostlega hækkað við gengislækkanirnar.

Hugmynd um hinar miklu og gífurlega auknu álögur á almenning til ríkissjóðs má einnig fá með því að bera saman tekjur ríkissjóðs samkv. fjárl. fyrir árið 1958 og svo aftur samkv. fjárl. fyrir yfirstandandi ár. Í fjárl. fyrir árið 1958, þegar framsóknarmenn fóru með fjármálastjórnina, og málgögn núv. stjórnarflokka hafa viljað kenna við skattránsstefnu, þá voru skattar og tollar samtals áætlaðir 623 millj. og 400 þús. Í fjárl. fyrir árið 1963 eru skattar og tollar áætlaðir 1848 millj. kr. Hækkunin á tollum og sköttum á þessu tímabili nemur því 1225 millj. kr. Heildartekjur ríkissjóðs samkv. fjárl. fyrir 1958 voru 805 millj. kr. Samkv. fjárl. yfirstandandi árs eru þær, heildartekjurnar, áætlaðar 2 milljarðar 195 millj. kr. eða hafa hækkað um ca. 1390 millj, kr.

Það er líka hægt að bera saman ýmsa einstaka tolla þessara tveggja ára og sjá, hver breytingin hefur orðið. Ég skal nú ekki fara langt út í það að breyta hv. þm. á því. Ég get aðeins nefnt, að verðtollurinn var samkv. fjárl. fyrir 1958 áætlaður ca. 174 millj. Hann er áætlaður í fjárl. fyrir yfirstandandi ár 567 millj. Í fjárl. fyrir árið 1958 voru aukatekjur ríkisins, aukatekjugjöldin, áætluð 121/2 millj. kr., en eins og ég sagði áðan, voru aukatekjugjöldin einmitt hækkuð um 50% með efnahagslögunum. Þau eru áætluð í fjárlögum yfirstandandi árs 29 millj. kr. Söluskatturinn var í fjárl, fyrir 1958 áætlaður 115 millj. kr., en hann er nú samkv. fjárl. yfirstandandi árs samtals áætlaður um 520 millj.

Ég skal nú ekki fara lengra út í bessar tölur. Mér er ljóst, að það má hreyfa þeim aths. við þær, að það sé um áætlunartölur að ræða, bað sé ekki rétt að bera þær saman. Það er rétt, í báðum tilfellum er um áætlunartölur að ræða og tekjur ríkissjóðs 1958 urðu meiri en fjárlagaáætlun sagði til. En ég hygg líka, að bað megi ganga út frá því, að tekjur ríkissjóðs 1963 verði meiri en fjárlagaáætlunin segir til um. Ég hygg því, að þegar endanlegar ríkisreikningatölur liggja fyrir og hægt er að bera saman þær raunverulegu tölur um það. hverjar tekjur ríkissjóðs hafi orðið 1958 og 1963, þá muni sú mynd, sem ég hef hér brugðið upp, ekki mikið skekkjast. Mér er það líka ljóst. að bað má vel segja, að þessar tölur og þessi hlið málsins, hvað greitt er í ríkissjóð og hvað er í ríkissjóð tekið, segi ekki alla söguna, hitt skipti meginmáli, til hvers þeim tekjum er varið. Og ég skal fúslega játa það og viðurkenna, að bað er sanngjarnt t.d., begar borið er saman, hvað álögur hafa verið auknar á almenning á þessu tímabili, að taka tillit til hess, að almannatryggingar hafa verið auknar á þessu tímabili og að ríkissjóður greiðir meira, til þeirra. En þó að tillit sé tekið til þess. þá sjá það allir, að sú fjárhæð, sem þar er um að tefla er ekki nema agnarsmátt brot af þeirri stórfelldu hækkun á álögum á almenning. sem átt hefur sér stað samkv. því. sem ég, nú hef rakið, á þessu stjórnartímabili hæstv. ríkisstj. Og þegar alls þess, er gætt, sem ég nú hef sagt, þá verð ég að segja, að það er meira en meðal óskammfeilni hjá hv. stjórnarstuðningsmönnum og þeirra málgögnum að tala um skattránsstefnu hjá öðrum mönnum og öðrum stjórnum.

Þegar litið er til þess, sem hér hefur verið sagt, er augljóst, að það er ekki hægt að tala um neinar verulegar tollalækkanir, þó að miðað sé við þær 97 millj., sem í grg. er gert ráð fyrir að tollabyrði léttist um. En þar við bætist nú, að eftir frv., eins og það var lagt fram og eins og það liggur fyrir, þá verður nú ekki séð, að álögur á almenning lækki raunverulega um þá upphæð, þar sem það er gert ráð fyrir því í frv., að niður falli eftir árslok 1963 hluti jöfnunarsjóðs af 8% söluskattsviðaukanum, hann falli niður við það, að söluskatturinn er innlimaður í verðtollinn. Hæstv. fjmrh. gerði að vísu grein fyrir því í framsöguræðu sinni hér í gær, að það mundi vera ætlunin að bæta sveitarfélögunum upp þann tekjumissi, án þess að um nýjar álögur yrði að ræða, að mér skildist. En eftir frv., eins og það liggur fyrir, þá v erður það ekki séð, og ég vil aðeins því til styrktar leyfa mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta, þá mgr. 40. gr. frv., sem um þetta fjallar. Þar segir svo:

„Greiða skal á árinu 1963 af innheimtum aðflutningsgjöldum samkv. tollskrá til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga það, sem á kann að vanta, að hluti sjóðsins af söluskatti samkv. 1. tölul. 1. gr. l. nr. 10 1960, um söluskatt, og a-lið bráðabirgðaákvæðis sömu laga nái 104 millj. kr. á árinu 1963.“

Og í aths. við þetta ákvæði segir svo, með leyfi hæstv, forseta:

„Eins og annars staðar er getið, fellur nú innflutningssöluskatturinn niður og verður yfirleitt verðtollur einn á þeim vörum, sem eigi eru tollfrjálsar. Af því leiðir, að frá gildistöku tollskrárinnar fellur niður hluti jöfnunarsjóðs af 8% innflutningssöluskattinum. Verður að bæta jöfnunarsjóði þann tekjumissi. Er hér lagt til, að það verði gert með því móti, að jöfnunarsjóði verði á árinu 1963 greitt af innheimtum aðflutningsgjöldum samkv. tollskrá það, sem á kann að vanta, að hluti sjóðsins af söluskatti samkv. 1. tölul. 1. gr. l. nr. 10 1960, um söluskatt (þ. e. 3% skattinum), og a-lið bráðabirgðaákvæðis sömu laga (8% innflutningssöluskattinum nái 104 millj. kr. á árinu 1963. En í áætlun fjárl. fyrir árið 1963 er gert ráð fyrir, að hluti jöfnunarsjóðs á því ári nemi 104 millj. kr.“

Það er alls ekki minnzt á það í þessum aths., að það sé ætlunin að bæta jöfnunarsjóði og sveitarfélögunum upp þennan tekjumissi til frambúðar. Það er í þessum aths., eins og í mgr. í 40, gr. sjálfri, aðeins talað um árið 1963, það er hvergi minnzt á framtíðina, og ég verð að segja, að eins og frá þessu er gengið í þessu frv., er ekki hægt að skilja það á annan veg en þann, að eftir árslok 1963 falli algerlega niður sú greiðsla í jöfnunarsjóð, sem svarar til 1/5 af 8% innflutningssöluskattinum.

Ef það hefði verið meiningin eða væri meiningin, þá er augljóst mál, að sveitarfélögin verða þá fyrir tilsvarandi tekjumissi, og það hefði vitaskuld ekki verið nein von til þess, að sveitarfélögin hefðu komizt af án þess að fá þann tekjumissi bættan með einhverjum hætti. Og þar sem 8% viðbótarsöluskatturinn er nú samkv. fjárl. yfirstandandi árs áætlaður 267 millj. 400 þús., ef ég man rétt, þá er þar um að tefla 1/5 af þeirri upphæð, sem hluti jöfnunarsjóðs er, þannig að það eru yfir 50 millj. Ef hefði átt að taka frv. eins og það liggur fyrir, þá hefði mátt ætla, að raunveruleg lækkun á tollabyrðinni á almenning vegna þessarar nýju tollskrár yrði ekki nema 43–44 millj. kr., því að vitaskuld hefðu sveitarfélögin orðið að leggja þær álögur, sem þessu svaraði, á almenning.

Nú er það hins vegar svo, að þrátt fyrir það, þó að frv. sé á þennan hátt úr garði gert, sem ég hef gert grein fyrir, og það verði ekki annað ráðið af því en það, sem ég hef haldið fram, þá hefur hæstv. fjmrh. lýst því yfir í framsöguræðu sinni hér í gær, að það sé ekki meiningin og hafi ekki verið meiningin að svipta sveitarfélögin þessum tekjustofni og að það sé ætlunin að leggja fram á þessu þingi og ganga frá því, áður en þessu þingi lýkur, að mér skildist, að þau fái þennan væntanlega tekjumissi upp bættan með einhverjum hætti, og benti hann í því sambandi á þrjár leiðir, sem gætu komið til greina, þ.e.a.s. ákvörðun í fjárl. í hvert eitt skipti, ákveðinn hundraðshluta af verðtollinum eftir tollskránni eða þá ákveðinn hluta eða hækkun þess hundraðshluta, sem til sveitarfélaga rennur af hinum almenna söluskatti, þannig að þessar yfirlýsingar fjmrh. verður að sjálfsögðu að skilja á þá lund, að sveitarfélögin eigi að fá þennan tekjumissi upp borinn, án þess að um nýjar álögur á almenning verði að ræða af því tilefni.

Þessari yfirlýsingu fjmrh. er að sjálfsögðu rétt að fagna. Framsóknarmenn hafa lagt til oftar en einu sinni, að það yrði horfið frá söluskattinum, en þeir hafa þá jafnframt tekið fram, að það yrði gert ráð fyrir því, að sveitarfélögunum yrði bættur upp sá tekjumissir, sem þau yrðu fyrir af þeim sökum.

En jafnvel þó að miðað sé við þessa tölu, sem frv. nefnir, 97 millj. kr., þá er ljóst, að þetta frv. leiðir ekki til verulegra lækkana á tollabyrðinni í heild sinni, eins og ég þegar hef tekið fram, þó að um talsverða lækkun á einstökum vörum sé að ræða, og sú fjárhæð er vitaskuld ekki nema örlítið brot af þeim álögum, sem núv. stjórnarflokkar hafa lagt á landsfólkið. Hún er meira að segja ekki nema brot af 8% bráðabirgðasöluskattinum einum, sem samkv. fyrirheiti stjórnarflokkanna átti aðeins að vera til bráðabirgða og búið er að marggefa í skyn að felldur yrði niður, þegar hin nýja tollskrá tæki gildi. En það er nú eitthvað annað en að bráðabirgðasöluskatturinn sé felldur niður með þessu frv. í raun og veru. Hann er þvert á móti felldur inn í verðtollinn og þar með lögfestur til frambúðar og aðeins litlu broti af honum skilað aftur, eins og ég þegar hef tekið fram.

Þar sem hinn margumtalaði söluskattur er nú þar með endanlega felldur inn í tollakerfið og lögfestur til frambúðar, þá væri í sjálfu sér rétt að rifja upp sögu hans, en ég skal þó aðeins gera það með örfáum orðum, af því að ég vil ekki hrella hæstv. fjmrh. með allri þeirri sögu, af því að ég skil það, að honum þyki það enginn skemmtilestur. En um hann er í stuttu máli það að segja, að það var tekið fram í grg. með fjárlfrv. fyrir 1960 á sínum tíma, að það væri ekki ætlunin, að það væri gerð nein breyting á innflutningssöluskattinum. Sú staðhæfing var endurtekin í viðreisnarbæklingnum. Hins vegar var svo skömmu síðar lagt fram frv. um söluskatt, þar sem gert var ráð fyrir þessum viðbótarsöluskatti, 8% af innflutningi til viðbótar 7% söluskattinum, sem var á innflutningi, en þessi viðbótarsöluskattur átti aðeins að gilda til ársloka 1960, og var hann rökstuddur m.a. með því, að hans væri nauðsyn, af því að hinn almenni söluskattur yrði ekki innheimtur nema tiltekið tímabil á árinu 1960. Það hefði mátt ætla, að þessi söluskattur yrði ekki framlengdur, því að það voru gefnar út yfirlýsingar um það, a.m.k. í málgögnum stjórnarinnar, og víst er um það, að hinum norska sérfræðingi, sem fenginn var til að athuga málefnin hér, hefur verið sagt það, því að hann lét þess getið í skýrslu sinni. En það varð ekki af efndum, því að hann var framlengdur í árslok 1960 með lagabreytingu á söluskattslögunum. Í árslok 1961 var honum hins vegar bætt inn í framlengingar á ýmsum gjöldum. En í öll þessi skipti hefur það a.m.k. verið látið í veðri vaka, — það er ekki of sterkt að orði kveðið, — að þessum bráðabirgðasöluskatti yrði aflétt, þegar tollskráin nýja kæmi. Nú sjá menn efndirnar á því. Það er vitaskuld ekki hægt að tala um það, að honum sé aflétt, þó að nýtt heiti sé tekið upp á skattinum. Það er augljóst, að honum er ekki aflétt, þegar heildarlækkun tollabyrðarinnar nemur, jafnvel þótt miðað sé við frv., ekki nema 97 millj. kr., ekki bráðabirgðasöluskattinum, eins og ég þegar hef tekið fram, þannig að eftir framkomu þessa frv. þýðir náttúrlega ekki lengur fyrir hæstv. ríkisstj. að halda því fram, að viðbótarsöluskatturinn eigi að afnemast. Ég skal nú ekki fara fleiri orðum um þennan skatt.

Ríkisstj. hefur lýst oft og með fögrum orðum þeirri stefnu sinni að gera skattakerfið einfaldara. Það má að vísu segja, að þetta frv. út af fyrir sig sé í samræmi við þá stefnu. Hins vegar fer því fjarri, að sú regla gildi á ýmsum öðrum sviðum, því að ríkisstj. hefur einmitt verið sérstaklega athafnasöm við að fá samþykkta sérskatta, þannig að nú er einn skatturinn innheimtur hér, annar þar o.s.frv. Þessu til sönnunar nægir að nefna nokkra þá skatta, sem ég áðan nefndi, eins og skattana til stofnlánadeildar landbúnaðarins, útflutningsskattinn á útfluttar sjávarafurðir, skattinn á iðnaðinn, skattinn á timbur, sement og steypustyrktarjárn, sem meiningin er að lögleiða, og fleira af því tagi.

Við framsóknarmenn höfum bæði á þessu þingi og fyrirfarandi þingum flutt till. um að lækka eða létta af með öllu aðflutningsgjöldum af tilteknum vörum, svo sem af ýmsum landbúnaðarvélum, en þær till. okkar hafa ekki náð fram að ganga. Stjórnarliðið hefur ýmist fellt þær eða svæft. Á þessu þingi höfum við t.d. flutt 3 slík frumvörp: Frv. um afnám aðflutningsgjalda og söluskatts af vélum og tækjum til landbúnaðar. Samkv, því frv. skulu t.d. hjóladráttarvélar, sláttuvélar, rakstrarvélar, snúningsvélar, mjaltavélar o. fl. vera með öllu undanþegnar aðflutningsgjöldum, en þessar vörur munu nú vera í heildartolli, sem nemur frá 21% og upp í 34%. Í öðru lagi hafa framsóknarmenn flutt frv. um afnám innflutningsgjalds af tilteknum heimilisvélum, svo sem eldavélum, suðu- og hitatækjum, hrærivélum, ísskápum, bónvélum og ryksugum o.s.frv., þ.e.a.s., þær skyldu vera undanþegnar hinu sérstaka innflutningsgjaldi samkv. efnahagslögunum. Enn fremur hafa framsóknarmenn flutt frv. um að undanþiggja landbúnaðarbifreiðar, læknabifreiðar, leigubifreiðar og vörubifreiðar hinu sérstaka innflutningsgjaldi á bifreiðar, sem lagt er á samkv. 16. gr. efnahagsl., nr. 4 frá 1960 en það gjald má samkv. þeim 1. vera allt að 135%. En það mun samkv. þeirri heimild hafa verið lagt t.d. á innfluttar leigubifreiðar og fólksbifreiðar atvinnubilstjóra ýmist 60 eða 80% aukagjald eftir stærð bifreiðanna. Í tollskrárfrv. því, sem hér liggur fyrir, er að nokkru leyti gengið til móts við þessar till. framsóknarmanna. Þannig er tollur á landbúnaðarvélum almennt lækkaður niður í 10% úr 34 eða 21%. Leiðir þetta óneitanlega til talsverðrar lækkunar, t.d. á hjóladráttarvélum, þó að sú lækkun sé auðvitað ekki nema brot af þeirri hækkun, sem á þeim vélum hefur orðið frá því á árinu 1958. Tollur á heimilistækjum er sömuleiðis lækkaður nokkuð samkv. þessu frv. Hins vegar er ekki í því gert ráð fyrir að hreyfa neitt við hinu sérstaka innflutningsgjaldi á bifreiðar samkv. l. nr. 4 frá 1960. En fjmrh. lýsti því hins vegar yfir hér í gær, að ríkisstj. hefði ákveðið að gera nokkra lækkun, a.m.k. á ákveðnum gjöldum, sem innheimt hafa verið af fólksbifreiðum atvinnubifreiðastjóra, eða að mér skildist lækka þau gjöld, sem innheimt hafa verið, úr 80% og 60%, eins og hefur verið, um helming, niður í 40 og 30%.

Framsóknarmenn fagna að sjálfsögðu þeirri lækkun, sem fengizt hefur á aðflutningsgjöldum á landbúnaðarvélar og ýmis heimilistæki, þó að þar sé skemmra gengið með þessu frv. en eftir þeirra till. En að sjálfsögðu verður það athugað við meðferð málsins, að svo miklu leyti sem tóm vinnst til, að koma fram frekari lækkun á ýmsum liðum, þ. á m. þessum, í samræmi við þær till., sem framsóknarmenn hafa flutt. Út í það eða einstaka liði yfirleitt mun ég ekki frekar fara á þessu stigi málsins.

Ég mun ekki heldur á þessu- stigi málsins ræða almennt um almennar efnisgreinar frv. Þær eru sumpart nýjar, sumpart endurtekningar á eldri ákvæðum. til nýmæla má telja t.d. ákvæðin um undirboðs- og jöfnunartolla, sem fjmrh. er heimilt að leggja á samkv. 27. gr. Það er sjálfsagt umdeilanlegt, hvort slíkt er fullkomlega stjórnskipulega heimilt. Um það skal ég að sjálfsögðu ekki dæma hér að lítt athuguðu máli. Þeir hafa sína fyrirmynd annars staðar, í Danmörku skilst mér og sjálfsagt víðar. Það verður að athuga nánar við meðferð málsins, hvort rétt þykir að taka slík ákvæði hér upp. Aðalatriðið í því sambandi finnst mér vera það, að ég tel ekki ástæðu til að vera að taka upp slík ný ákvæði, sem e.t.v. eru vafasöm stjórnskipulega séð, nema einhver þörf kalli á eftir þeim. En mér er ekki kunnugt um það, að reynslan bendi til þess hér, að þeirra hafi verið þörf. Þó má það vera, ég þori ekki um það að segja. Getur vel verið, að hagkvæmt sé að hafa þetta skipulag, en sem sagt, mér finnst ekki vera ástæða til þess að vera að taka upp slík ákvæði, þótt þau séu í lögum annars staðar, nema það sé þannig, að reynslan bendi til þess, að þeirra sé þörf. Og ég býst a.m.k. við því, að það væri talið eðlilegra og í meira samræmi við stjórnarskrána, að vald fjmrh. væri kannske bundið eitthvað meira en gert er, þannig að það verði ákveðið hámark og lágmark. Það hefur að vísu verið gert nokkuð í 29: gr., en þó nokkuð óákveðið.

Það eru í þessu frv. fleiri ákvæði, sem ég held að stjórnskipulega séð séu hæpin. En það eru ekki ný ákvæði. Það eru ákvæði, sem hafa verið áður í tollskránni og enginn hefur að vísu mér vitanlega gert aths. við. Þau ákvæði eru núna, að ég held, í 34. gr., en munu svara líklega til 20. eða 21. gr. í gildandi tollskrá, en þar er það ákveðið, að fjmrh. hafi fullnaðarúrskurð um það, hvort tiltekin vara sé gjaldskyld eða ekki og í hvað tollflokk hún eigi að koma. Hér er náttúrlega um mjög þýðingarmikið réttaratriði að ræða, sem ég fyrir mitt leyti hef alltaf talið vafasamt að væri í rauninni leyfilegt að undanskilja úrskurðarvaldi dómstóla. En eins og ég sagði áðan, þá er þetta ekki nýtt ákvæði, heldur gamalt. Og enginn hefur hreyft, a.m.k. ekki opinberlega, andmælum við því. Ég held, að menn hafi ekki talið það í ósamræmi við stjórnarskrána. En það er óneitanlega ekki eðlilegt, að annar aðilinn, í þessu tilfelli fjmrh., hafi endanlegt vald um þetta. Í rauninni finnst mér ekki óeðlilegt, að það verði settur upp einhver sérstakur úrskurðaraðili, sem mætti skjóta úrskurðum fjmrh. til, en sjálfsagt er það rétt, að það er erfitt að leggja svona mál til almennra dómstóla, það mundi taka of langan tíma. Um þetta skal ég sem sagt ekki fjölyrða frekar og ekki um hin almennu ákvæði í þessu frv. neitt frekar.

Ég vil að lokum bara segja það, að þó að það sé nú í þessu tollskrárfrv., nú rétt fyrir kosningarnar, gert ráð fyrir nokkrum tollalækkunum, sem að vísu eru langt frá því að vera stórfelldar, þegar á heildina er litið, er hætt við því, að það verði skammgóður vermir að óbreyttri. stjórnarstefnu. Ef áfram verður haldið á sömu braut og að undanförnu, má áreiðanlega reikna með gengisfellingu eða nýjum álögum í einhverri mynd eftir kosningar. Það má einmitt segja, að það hafi verið einkenni á stefnu ríkisstj. að leit a þess, sem þeir stjórnarmenn kalla jafnvægi í viðskiptum, með því sífellt að hækka verðlagið með einhverjum hætti. Verði stýrt eftir sama leiðarljósi og að undanförnu, verður blátt áfram að mínum dómi ekki komizt hjá því, að innan skamms verði gripið til gengisfellingar á ný eða til þess ráðs að leggja á nýjar álögur í einni eða annarri mynd. Þetta eru engar hrakspár, heldur sú framvinda, sem hlýtur að blasa við hverjum manni, sem athugar reynsluna og horfir opnum augum á þær staðreyndir, er við blasa. Og ég vil segja, að það má verða mjög mikil breyting, ef það á ekki eftir að rætast, sem ég hef hér sagt.

Mér sýnist sem sagt þessi nýja tollskrá að ýmsu leyti horfa til bóta, fyrst og fremst með sameiningu fleiri aðflutningsgjalda í einn toll, sem miðar að því að gera tollakerfið einfaldara, og enn fremur með tollalækkunum á ýmsum einstökum vöruflokkum. Það er sjálfsagt að viðurkenna. Á hinn bóginn er hér, eins og ég hef gert lítils háttar grein fyrir í ræðu minni, ekki um stórfelldar lækkanir á tollabyrði að ræða, þegar á heildina er litið. Það er þess vegna vissulega í meira lagi skrumkennt, þegar í þessu sambandi er talað um stórfelldar umbætur í tollamálum, sem muni hafa veruleg áhrif og bæta lífskjör almennings mjög verulega.